fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Talað um tónlist

Góð helgi fyrir tónlistarnörda – Popp- og rokksaga Íslands á RÚV – Rapp í Reykjavík á Stöð 2 – Fyrsta íslenska ráðstefnan um dægurtónlistarfræði

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 27. apríl 2016 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dægurtónlist er ekki einungis afþreying heldur hreyfiafl, ekki bara tjáning á andlegu ástandi einstaklinga heldur mótandi kraftur í þjóðlífinu. Þetta er óvíða jafn augljóst og á Íslandi, þar sem staða landsins í samfélagi þjóðanna, ímynd og sjálfsmynd, hefur að miklu leyti verið mótuð af popptónlistarfólki.

Á sama tíma og popptónlist hefur nánast birst eins og sjálfsprottið afl í grasrótinni hefur lítil fræðileg greining farið fram. En kannski er þetta að breytast. Um síðustu helgi lauk einstakri þáttaröð um sögu íslenskrar popptónlistar á RÚV og á sama tíma fór fram fyrsta íslenska ráðstefnan þar sem rætt var um dægurtónlistarfræði.

Poppsagan ryður brautina

Dr. Gunni er einn þeirra sem standa að baki þáttunum um Popp- og rokksögu Íslands.
Poppdoktorinn Dr. Gunni er einn þeirra sem standa að baki þáttunum um Popp- og rokksögu Íslands.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fram eftir 20. öldinni var dægurtónlist fyrst og fremst álitin léttvæg afþreying og lítið skrifað um hana nema þá helst í formi tilkynninga og umfjöllunar í dagblöðum. Fyrsta bókin sem rakti sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi frá upphafi kom ekki út fyrr en um aldamótin og um helgina lauk svo fyrstu sjónvarpsþáttaröðinni um efnið, löngu tímabærri tólf þátta röð á RÚV um popp- og rokksögu Íslands.

Þættirnir eru gerðir af heimildamyndateyminu Markell Productions (Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson) og Dr. Gunna, en þættirnir byggja einmitt á bókum hans um sögu dægurtónlistar á Íslandi: Eru ekki allir í stuði? og Stuð vors lands!

Þættirnir er ekki aðeins vel unnir, áhugaverðir og skemmtilegir heldur eru þeir, eins og bækurnar, brautryðjandaverk í popprannsóknum.

Það er ekki laust við að maður hafi fyllst tómleikatilfinningu eftir að síðasta þættinum lauk, en þessir frábæru þættir sýna þróun íslenskrar dægurtónlistar frá harmonikum, í gegnum bítl og sveitaböll til alþjóðlegra stórsigra íslenskra tónlistarmanna.

Þættirnir er ekki aðeins vel unnir, áhugaverðir og skemmtilegir heldur eru þeir, eins og bækurnar, brautryðjandaverk í popprannsóknum, grunnvinna sem verður hægt að byggja á í allri tónlistarumfjöllun og ítarvinnu dægurtónlistarfræðinga í framtíðinni. Þetta er línulega stórsagan sem verður svo hægt að ögra og gagnrýna, stoppa í og bæta í kjölfarið.

Þættirnir forðuðust að greina eða túlka þróunina um of eða setja samhengi við samfélagslegar, tæknilegar og hugmyndafræðilegar breytingar, en voru að mestu byggðir á fyrstu handar frásögnum þátttakenda.

Rappið „tekur yfir“

Gísli Pálmi er einn þeirra rappara sem bregður fyrir í nýrri þáttaröð Stöðvar 2 um rappsenuna í Reykjavík.
Rapp í Reykjavík Gísli Pálmi er einn þeirra rappara sem bregður fyrir í nýrri þáttaröð Stöðvar 2 um rappsenuna í Reykjavík.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Það var vel til fundið hjá Stöð 2 að láta fyrsta þáttinn í nýrri þáttaröð um rappsenuna á Íslandi í dag fylgja beint í kjölfar lokaþáttar Popp-og rokksögunnar – sem náði skiljanlega ekki nema rétt að snerta á rappinu.

Tilgangur þáttanna Rapp í Reykjavík er auðvitað allt annar en einhvers konar hlutlæg frásögn af sögu og þróun, heldur er einfaldlega verið að taka púlsinn á og skrásetja tónlistarsenu sem er sérstaklega frjó og gróskumikil um þessar mundir. Eins og nafnið gefur til kynna sver rappþáttaröð þeirra Gauks Úlfarssonar og Dóra DNA sig í ætt við „senutékk“ fyrri ára: Rokk í Reykjavík (1982), Ný-rokk í Reykjavík (sem var tekin upp 1994 en hefur varla birst fyrr en hún poppaði upp á YouTube um daginn), og Popp í Reykjavík (1998). Þátturinn er léttari og líflegri en fyrri Reykjavíkurmyndirnar og er vafalaust efni sem poppdoktorar framtíðarinnar munu nýta sér.

Í Helgarútgáfunni á Rás 2 á sunnudagsmorgun var kersknislega spurt hvort það hljóti ekki að vera dánartilkynning senu þegar stærsta dagblað landsins birtir forsíðuumfjöllun um hana.

Fréttablaðið birti forsíðuumfjöllun um íslensku rappsenuna á laugardegi í tilefni þáttanna, undir fyrirsögninni „Rappið tekur yfir.“ Sú samantekt var ágæt fyrir sitt leyti, þokkaleg auglýsing en bætti litlu við aðra svipaða umfjöllun sem hefur áður birst – meðal annars forsíðuumfjöllun Reykjavík Grapevine í september 2014 sem birtist undir fyrirsögninni: „Icelandic Hip-Hop is breakin.“

Í Helgarútgáfunni á Rás 2 á sunnudagsmorgun var kersknislega spurt hvort það hljóti ekki að vera dánartilkynning senu, merki um að hún sé að missa kúlið, þegar stærsta dagblað landsins birtir forsíðuumfjöllun um hana.
Verður Rapp í Reykjavík sami legsteinn á rappsenuna og Rokk í Reykjavík var fyrir pönksenuna – sem allir virðast sammála um að hafi liðið undir lok um það leyti sem mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar kom út?

Ekki bara náttúrunni að þakka

Gróðurmold slíkra tónlistarsena, uppgangur þeirra og dauði, var eitt aðalumfjöllunarefnið á öðrum mikilvægum poppfræðilegum viðburði sem einnig átti sér stað um síðustu helgi, þegar fyrsta íslenska ráðstefnan um dægurtónlistarfræði var haldin í Háskóla Íslands og Listaháskólanum.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var dr. Nick Prior, dægurtónlistarfræðingur við Háskólann í Edinborg. Í fyrirlestri sínum talaði Prior um hvað hugtakið „sena“ væri í raun óskýrt og oft á tíðum ruglandi. Þetta sagði hann meðal annars hafa í för með sér að útskýringar á listrænni grósku og frjósemi tiltekinnar senu yrðu oftar en ekki grunnhyggnar og yfirborðslegar, endurteknar klisjur um að rigningin í Manchester eða mikilfengleg náttúra Íslands útskýri líflega tónlistarsenu á þessum stöðum. Þetta sagði hann ekki standast skoðun.

Dr. Nick Prior, fyrir miðju, ásamt öðrum fyrirlesurum á fyrstu íslensku ráðstefnunni um dægurtónlistarfræði.
Talað um tónlist Dr. Nick Prior, fyrir miðju, ásamt öðrum fyrirlesurum á fyrstu íslensku ráðstefnunni um dægurtónlistarfræði.

Prior lagði áherslu á að fjölmargir ólíkir þættir spiluðu saman á hverjum stað en lagði fram kenningu um að þrjá grundvallarþætti mætti oftar en ekki nota til að skilja virkni sena: rýmið sem senan er staðsett í, þau félagslegu tengsl sem hún byggist á og skapar, og þeim dreifingar- og boðskiptaleiðum sem hún býr yfir og mótar sér.
Með áherslu á þessa þrjá þætti hefur Prior meðal annars greint íslenska tónlistarsenu, í grein sem nefnist „It‘s a social, not a nature thing.“

Eins og nafnið gefur til kynna grefur greinin undan þeirri kenningu að nágrenni við náttúruna sé helsti áhrifavaldur í tónlistarsköpuninni. Þar er þvert á móti sett fram sú kenning að áþreifanlegt borgarrýmið hafi haft afgerandi áhrif á virkni íslensks tónlistarlífs, hinn samþjappaði miðbæjarkjarni með endalausa möguleika á tilviljanakenndum mannamótum á milli tónleikastaða, bara, plötubúða og æfingahúsnæðis, gæti hafa leikið stórt hlutverk í viðhaldi gróskumikillar tónlistarsköpunar á Íslandi í gegnum árin. Reykjavík væri ekki bara umhverfið heldur í raun mikilvægur gerandi í tónlistarlífinu.

Prior lagði einnig áherslu á mikilvægi tónlistariðkunar í því að tengja saman fólk. Honum virðist sambönd tónlistarfólks á Íslandi myndast fyrr en á flestum öðrum stöðum, jafnvel allt niður í leikskóla. Hann segir enn fremur að tónlistin sé ekki bara tjáning á vinskap heldur framleiði tónlistariðkunin sjálf náin tengsl milli einstaklinga – fólk tengist í tónlistinni.

Í þriðja lagi benti hann á að dreifingar- og boðskipaleiðirnar séu öflugar á Íslandi í dag, sérstaklega í kringum kynningu á íslenskri tónlist erlendis. Hann sagði hins vegar að meðvituð markaðssetning opinberra stofnana á íslenskum „hljómi“ væri tvíeggja sverð. Væntingar til listamanna geti leitt til þess að þeir færu að endurframleiða hljóminn sem aðrir búist við að heyra frá þeim, að þeir gangist upp í klisjum. Enn fremur sagði hann túristaiðnaðinn geta haft neikvæð áhrif á hið hentuga reykvíska miðborgarumhverfi með því að keyra upp leiguverð og breyta innri byggingu borgarinnar og tónleikastaða.

Í Popp- og rokksögu Íslands þvertóku meðlimir Sigur Rósar fyrir að vera innblásnir af íslenskri náttúru, en þó eiga þeir stóran þátt í goðsögninni um náttúrubörnin í íslensku tónlistarlífi.
Inspired by Iceland Í Popp- og rokksögu Íslands þvertóku meðlimir Sigur Rósar fyrir að vera innblásnir af íslenskri náttúru, en þó eiga þeir stóran þátt í goðsögninni um náttúrubörnin í íslensku tónlistarlífi.

Þarf að gagnrýna iðnaðinn

Ef við endurtökum bara klisjurnar um að mikilfengleg náttúra, myrkur og einangrun Íslands leiði óhjákvæmilega til frjórrar listsköpunar gæti íslensk tónlistarsena hæglega flotið sofandi að feigðarósi.

Ráðstefnan á föstudag var fyrsta skrefið í að byggja upp „heimsveldi“ í dægurtónlistarfræðum, eins og Arnar Eggert Thoroddsen, skipuleggjandi ráðstefnunnar, orðaði það. Á undanförnum árum hafa verið haldin nokkur námskeið um slík fræði og stefnt er á að koma sérstakri námsbraut á fót á næstu árum. Það var ljóst af ráðstefnunni að það er þónokkur hópur af fólki sem er áhugasamur og er að þróa með sér tæki og orðaforða til að fást við popptónlistina.

Umræða um listir, greining og gagnrýni, er mikilvægur þáttur í frjóu og blómstrandi menningarlífi. Þegar meðlimir pallborðsins ræddu um gagnið af poppfræðilegum vangaveltum lagði einhver áherslu á að umræðan mætti ekki vera þjónkun við iðnaðinn, mikilvægi poppfræðanna fælist í hinni gagnrýnu nálgun á bransann og í greiningu sem fer handan hinna hefðbundnu klisja. Þetta má svo sannarlega taka undir.

Þegar maður lítur yfir popp-, rokk-, og rappsögu Íslands er ljóst að þeir ólíku þættir sem hafa leitt íslenska popptónlist á þann stað sem hún er á í dag eru fjölmargir og flóknir – þar er nóg efni í krítískar rannsóknir. Ef við endurtökum hins vegar bara klisjurnar um að mikilfengleg náttúra, myrkur og einangrun Íslands leiði óhjákvæmilega til frjórrar listsköpunar gæti íslensk tónlistarsena hæglega flotið sofandi að feigðarósi, kynningarmiðstöðvar dregið broddinn úr listsköpuninni og hækkandi leiguverð og hostelvæðing tónleikastaða í Reykjavík grafið undan því umhverfi sem hvetur til frumlegrar og framsækinnar listsköpunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

England: Manchester City í engum vandræðum

England: Manchester City í engum vandræðum
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst

Orðið á götunni: Halla Hrund flýgur á toppinn – skjálftavirkni eykst
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Ófrjósemisaðgerðum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum í kjölfar þrengri heimilda til þungunarrofs

Ófrjósemisaðgerðum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum í kjölfar þrengri heimilda til þungunarrofs
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði