fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Allt viðtalið við Elísabetu Ronalds: Sagan mín er leyndarmál

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 17. maí 2020 09:05

Sama kvöld og Elísabet fór í Kvennaathvarfið með börnin segist hún hafa séð manninn út um gluggann og hreinlega fengið hræðslukast. Mynd/Matt Absher

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsíðuviðtal við Elísabetu Ronaldsdóttur um heimilisofbeldi vakti mikla athygli þegar það birtist í helgarblaði DV 8. maí. Viðtalið er hér birt í heild sinni.

„Ég hef aldrei farið leynt með að ég hafi farið í Kvennaathvarfið en ég skilgreini mig heldur ekki út frá því. Ég þurfti að bregðast við aðstæðum sem ég réði ekki við ein. Þarna fékk ég mjög góða aðstoð og mjög góðan grunn fyrir restina af lífinu. Það besta sem kom fyrir mig á þessum tíma var að fara þarna inn,“ segir Elísabet Ronaldsdóttir.

Elísabetu þekkja flestir. Hún er ein fremsta kvikmyndagerðarkona Íslendinga og hefur gert garðinn frægan sem klippari í Hollywood, nokkuð sem skekur þjóðarsálina mun meira en Elísabetu sjálfa. Hún er þekkt sem töffari af guðs náð og full visku enda búin að leita hennar markvisst. Árið 2016 var hún sæmd fálkaorðunni en skilaði henni tveimur árum síðar, fyrst íslenskra ríkisborgara, með orðunum: „Ég get ekki verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara,“ eftir að Piu Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins, var afhentur stórriddarakross frá Íslendingum.

Elísabet er hinum megin á hnettinum – bókstaflega. Hún fór til Ástralíu í janúar til að vinna að stórmyndinni ShangChi and the Legend of the Ten Rings sem er framleidd af Marvel Studios. Og nú er hún föst í Ástralíu vegna COVID-19. Talað var um að hún stæði á hátindi ferils síns fyrir tveimur árum þegar hún klippti Marvel-myndina Deadpool 2 en það var greinilega misskilningur. Elísabet er enn á uppleið. Deadpool 2 klippti hún samhliða meðferð vegna fjórða stigs krabbameins og fannst ágætt að hafa eitthvað að hugsa um annað en krabbameinið sem hún svo sigraðist á. Hún er orðin ansi skóluð í baráttunni fyrir sjálfri sér. 

Ofbeldissamband er ekki bara kjaftshögg

Við tökum viðtalið gegnum myndsímaforritið Skype, þegar ég er nýlega vöknuð og Elísabet alveg að fara að sofa. Á tímum COVID-19 með tilheyrandi samkomubanni, hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað um allan heim. Samkvæmt ríkislögreglustjóra hefur útköllum vegna heimilisofbeldis hér á landi fjölgað um 10%. Snemma var varað við þessari ógn og fjölmiðlar hafa sinnt upplýsingagjöf. Tvö nýleg dauðsföll eru mögulega tengd heimilisofbeldi. En þrátt fyrir að það séu um tuttugu og fimm ár síðan Elísabet fór í Kvennathvarfið finnst henni umræðan ekki sérlega breytt.

„Það sem helst hefur breyst síðan þá er að margar mjög merkilegar konur hafa stigið fram fyrir skjöldu og rætt þessi mál. En þetta hefur alltaf verið tabú. Heimilisofbeldi hefur alltaf verið sópað undir teppið sem einhvers konar einkamáli og talað um að það þurfi tvo til að dansa tangó, eins og það séu allir jafnvirkir þátttakendur í glæpnum, en ég bauð aldrei upp í þennan dans. Þetta elur á ranghugmyndum um að við séum sekar um að æsa viðkomandi upp, stuða þá með því að haga okkur vitlaust eða segja eitthvað vitlaust. Enn er það síðan jafnmikill glæpur að segja frá opinberlega eins og að fremja ofbeldið sjálft, því þá er verið að vega að heiðri einhvers. Þannig er mín saga í raun leyndarmál. Við sem samfélag þurfum að ræða að það er ekki tabú að leita sér aðstoðar eftir að verða fyrir heimilisofbeldi og það er ekki tabú að leita sér aðstoðar fyrir þá sem beita heimilisofbeldi,“ segir hún og bendir á að heimilisofbeldi sé alls konar: „Þetta geta verið börn að lemja foreldra sína, foreldrar að lemja börnin, karlar að lemja konur eða konur að lemja karla. Og ofbeldissamband er ekkert bara kjaftshögg. Það er hægt að brjóta fólk alveg hræðilega niður án þess nokkurn tíma að snerta það.“ 

Elísabet Ronaldsdóttir var í forsíðuviðtali í DV sem kom út 8. maí og var í aldreifingu.

Skórnir læstir inni 

Hún segist fyrst og fremst hafa verið beitt andlegu ofbeldi og hún hafi aldrei kært það, aldrei einu sinni dottið það í hug. „Mér fannst ofbeldið aldrei vera nógu alvarlegt. Það er einmitt mjög algengt að þolendur talið ofbeldið niður. Andlegt ofbeldi er svakalega lúmskt, það getur tekið smátíma fyrir geranda að koma þér á ákveðinn stað, en þegar þangað er komið er auðvelt að halda þér þar. Það eru líka uppi miklar ranghugmyndir um andlegt ofbeldi, eins og fólk eigi bara að svara á móti og rífa sig upp úr þessu.“

Elísabet á fjögur börn og þau elstu, tveir drengir, voru tveggja og tólf ára þegar hún fór með þá í Kvennaathvarfið. Fyrir þetta viðtal lét hún öll börnin sín vita og segir þau sátt við að mamma sín deili þessari reynslu opinberlega. „Fyrir tuttugu og fimm árum gekk ég á vegg í mínu ofbeldissambandi og það endaði með því að amma mín, sem ég er skírð í höfuðið á, kom og sótti mig og börnin og fór með okkur í Kvennaathvarfið. Ég var þarna með ofboðslega áfallastreituröskun sem hafði ekki verið meðhöndluð og margt á þessum árum hreinlega í móðu út af henni. Þegar amma kom og sótti okkur var búið að læsa alla skó inni því ég mátti ekki fara neitt út. Við vorum í um tvo mánuði í Kvennaathvarfinu. Það var haldið rosalega vel utan um mig og börnin. Ég var í miklu uppnámi þegar ég kom þangað en náði fljótt að verða róleg. Ég man síðan að sama kvöld og við komum kíkti ég út um gluggann og sá hann þá í bíl fyrir utan. Ég fékk þá svakalegt hræðslukast, í raun áfall.“

Hún virðist pollróleg þegar hún segir mér frá þessu en ég sé að hún er farin að gera eitthvað til hliðar við tölvuskjáinn og segir síðan: „Fyrirgefðu. Ég er bara aðeins að vinna. Það hjálpar mér að slaka á.“ 

Einstök orka í Kvennaathvarfinu 

Kvennaathvarfið var á þessum tíma á Öldugötu, en almennt er ekki gefið upp hvar það er til húsa og er það á öðrum stað í dag. „Þetta var mjög þægilegt samfélag og það var alltaf rólegt. Þarna voru auðvitað bara konur, sumar af erlendum uppruna, og flestar með börn. Þarna vorum við allar í sátt og samlyndi, elduðum saman, svæfðum börnin okkar. Þarna myndaðist einhver einstök orka, ég kynntist fullt af flottum konum og ég á enn vinkonur sem ég eignaðist þarna.“

Hún segir synina líka hafa notið sín þarna. „Fyrir utan var körfuboltaspjald og alls konar fleira spennandi fyrir börn. Sá yngri var auðvitað svo lítill, en ég talaði bara um hlutina eins og þeir voru við þann eldri. Hann segist bara eiga góðar minningar úr athvarfinu. Honum fannst spennandi að fá að horfa á Stöð 2, sofa í koju og síðan fékk hann gefins Juventus fótboltatreyju með mynd af Schillaci sem einhver hafði gefið Kvennaathvarfinu. Það var gott fyrir þá að komast á stað þar sem allir voru rólegir. Heimilið á að vera friðhelgur staður og það er ofboðslegt áfall fyrir alla að búa á heimili þar sem það er ekki virt, sérstaklega fyrir börn. Þarna gátum við slakað á án þess að hafa áhyggjur af því að þessi spenna myndaðist.“

Þá er hún sérlega ánægð með það faglega starf sem þarna var unnið. „Þarna fékk ég í fyrsta og eina skipti á ævinni skilvirka meðferð við áfallastreituröskun og í langan tíma eftir að ég fór úr athvarfinu hélt ég áfram að koma í viðtöl. Sú þekking sem ég öðlaðist þarna hefur búið með mér alla ævi. Ég vildi óska að allir sem þess þurfa geti fengið tækifæri til að nýta sér svona þjónustu.“

„Ég var með samviskubit yfir því að gera einhvern reiðan, samviskubit yfir því gera einhvern leiðan, samviskubit yfir því að rugla í einhverjum, samviskubit yfir alls konar,“ segir Elísabet. Mynd/Matt Absher

 

Var mjög skotin í honum 

Elísabet segir sambandið hafa staðið yfir í fjögur ár. „Það byrjaði mjög vel en ég fann alltaf að það var eitthvað „off“. En ég er sú eina í fjölskyldunni minni sem var alltaf að byrja og hætta í samböndum þannig að mér fannst að ég ætti að taka mig á og láta þetta ganga. Ég var auðvitað mjög skotin í honum og maðurinn fríðari en flestir. Hann gat verið mjög ljúfur og við áttum margar góðar stundir saman. Þetta gekk þó svolítið brösótt. Eftir að við eignuðumst barn saman grípur hann mikil afbrýðisemi og þetta verður erfiðara og erfiðara. Ég hef oft lýst þessu þannig að maður er með einhverja grensu og síðan tekur fólk hástökk yfir hana. Það tók mig þá langan tíma að átta sig á stöðunni, ég var bæði gáttuð og slegin.“

Hún rifjar upp atvik sem átti sér stað í fyrsta skiptið sem hún fór út með vinkonum sínum eftir að yngri sonurinn fæddist. „Ég var svakalega spennt og það var mjög gaman. Hann hringdi síðan í leikhúsið, ég hringdi til baka í hléinu en hann svaraði ekki. Ég varð þá óttaslegin, hélt að eitthvað hefði komið fyrir, og fór strax heim. Þegar ég kom heim voru öll ljósin slökkt, slökkt á sjónvarpinu og slökkt á útvarpinu, og hann sat í myrkrinu í stofunni með drengina tvo. Þetta var mjög óhugnanlegt augnablik. Sérstaklega fyrir mig og eldri drenginn. Þetta er dæmi um þennan sálfræðilega terrorisma. Ég óttaðist aldrei um líf mitt en ég óttaðist um velferð okkar og sér í lagi barnanna.“ 

Eldri konur skildu hana illa 

Hún er vön því að fara sínar eigin leiðir og hefur ekki látið álit annarra stýra sér. „Ég velti aldrei fyrir mér hvort það væri eitthvað skrýtið eða kæmi illa við einhverja að ég leitaði til Kvennaathvarfsins. Það hentaði mér á þessum tíma, ég þurfti þessa aðstoð og hún var í boði. Ég varð þess síðan vör að viss hópur kvenna af eldri kynslóðinni, konur sem mér þótti vænt um, átti dálítið erfitt með þetta. Það tók þær ákveðinn tíma að átta sig á því að í annað skipti á ævinni ætlaði ég að ganga út úr sambandi með ungt barn, og að ég væri komin með börnin í Kvennaathvarfið. Þær áttu erfitt með að skilja mig en ég tel að þær hafi gert það að lokum. Mín tilfinning er að þær hafi sjálfar verið í hjónaböndum þar sem þær voru ekkert allt of hamingjusamar en létu sig hafa það. Ef þú ætlar að vera óánægð í hjónabandi í þrjátíu eða fimmtíu ár þá þarftu að telja þér trú um ýmsa hluti. Þá er kannski erfitt að horfa upp á manneskju sem þér þykir vænt um af yngri kynslóðinni bara ganga út. Allt sem hefur þá verið byggt upp sem eins konar trúarbrögð í kringum hjónabandið er hrunið,“ segir Elísabet sem hefur aldrei verið gift og hefur ekki hug á því. 

Endalaust samviskubit 

Hún segir mikilvægt að jafnvel þó ofbeldi sé jafn algengt og það er, þá sé það aldrei eðlilegt. „Ofbeldið sem þú ert beitt er heldur ekki eðlilegt því einhver annar er beittur meira ofbeldi en þú. Sem manneskja þarf maður að ákveða: Ég á ekki að þurfa að kvíða fyrir því að vera heima hjá mér. Margir sem upplifa ofbeldi, ekki síst andlegt ofbeldi, eru sífellt með samviskubit. Ég man vel eftir því hjá mér. Ég var með samviskubit yfir því að gera einhvern reiðan, samviskubit yfir því gera einhvern leiðan, samviskubit yfir því að rugla í einhverjum, samviskubit yfir alls konar. Ég var síðan með endalaust samviskubit yfir börnunum og því að bjóða þeim upp á þetta. Án þess að ég vilji ala á meira samviskubiti hjá konum þar sem nóg er af því fyrir, þá skiptir máli við hvaða aðstæður við ölum börn upp. Það verður til vítahringur ef við ölum börnin upp þannig að þau telja heimilisofbeldi vera eðlilegt ástand. Við slíkar aðstæður verður hætta á kynslóðasmiti. Ef einn í fjölskyldunni er með COVID þá er hann settur í einangrun af ótta við smit. Ofbeldið getur líka smitast þannig að ofbeldishringurinn haldi endalaust áfram.“

Nú fer Elísabet út á svalir til að fá sér ferskt loft í náttmyrkrinu. „Því fylgir líka skömm að fara alltaf aftur í ofbeldissamband. Ég hef þurft að vinna mikið með það síðustu ár.“ Það kemur á hana hik og síðan segir hún: „Ég hika því ég er enginn sérfræðingur. Ég vil ekki gefa einhverjum vitlaus ráð. Ég er að lýsa minni reynslu.“ Síðan tekur hún aftur upp þráðinn. „Ég þurfti að vinna mig út úr því að leita alltaf í sama sambandið ómeðvitað. Þegar maður hefur upplifað andlegt ofbeldi þá verða allar hugmyndir manns svo brenglaðar, maður fer jafnvel að upplifa stjórnsemi sem ást. Þess vegna er svo mikilvægt að fá verkfæri frá sérfræðingum til að maður detti ekki aftur í sama farið því maður er kominn með svo brenglaða sýn á hvað er ást og hvað eru heilbrigð samskipti. Það er ekki veikleikamerki að lenda í ofbeldissambandi. Þetta eru ekki þínar gjörðir. Ég lít heldur ekki á það sem veikleikamerki þó fólk sitji í ofbeldissambandi árum og áratugum saman. Þú ert veik, já, en þú ert veik af ofbeldi. Veikleiki er allt annað og hefur ekkert með þetta að gera.“ 

Bjó að sterkum grunni úr æsku 

Elísabet segir sig hafa búið við ákveðin forréttindi því ekki átti sig allir á því að þeir séu í ofbeldissambandi. „Margir þeirra sem eru í ofbeldissamböndum hafa ekki sama grunn og ég. Ég ólst ekki upp við ofbeldi og lærði sem barn hvað er rétt og hvað er rangt. Ég fatta því þegar ég geng inn í ofbeldissamband að það er ekki rétt. Ég sit samt í því, þar sem lífið getur boðið upp á alls konar rugl í hausnum á manni. Allir geta gengið inn í ofbeldissamband. Það er síðan spurning hvort þú gengur aftur út.“ Hún ráðleggur þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimilinu að fá aðstoð við að skilgreina ofbeldið, frekar en að gera það sjálf.

„Þegar fólk er í ofbeldissamböndum er alveg á hreinu að fólk gerir minna úr ofbeldinu en raunin er. Þess vegna er mikilvægt að fá hjálp við að gera það. Fólk á líka ekki að veigra sér við að fá hjálp. Ef þú ert í sambandi við manneskju sem lítur á það sem vandamál að þú ætlir að leita þér aðstoðar, eða gerir lítið úr því að þú viljir fá hjálp, þá er það skýrt merki um að þú þurfir á aðstoðinni að halda. Þá er líka mikilvægt að muna að ef þú kvíðir reglulega fyrir því að fara heim til þín, þá er það mjög óeðlilegt ástand.“

Elísabet kallar eftir nýjum samfélagssáttmála þar sem fólk er ekki dæmt fyrir að opna sig um þessi mál, þar sem það er jafn sjálfsagt að fara til sálfræðings og að fara til heimilislæknis, og þar sem áherslan er ekki á að gera áfengi sem aðgengilegast á öllum tímum sólarhringsins. „Við sem samfélag tökum ákvörðun um hvort við viljum áfengi í matvöruverslanir, vitandi hversu eyðileggjandi áhrif áfengisneysla getur haft. Við sem samfélag tökum ákvörðun um hvort það kostar sautján þúsund krónur að fara til sálfræðings eða hvort allir geti nýtt sér þjónustu sálfræðinga. Þannig held ég að fleiri myndu standa betur í fæturna, bæði þeir sem verða fyrir ofbeldi og þeir sem beita því.“ 

Fangelsi ofbeldis út af fátækt 

Þá kallar hún eftir raunhæfum lausnum fyrir þá sem treysta sér ekki til að fara úr ofbeldissambandi af fjárhagsástæðum. „Það er hræðileg tilhugsun að eiga börn og sjá ekki fram á að geta séð um ykkur ein út af peningaleysi. Við erum að halda hluta kvenna, og barna, í fangelsi ofbeldis út af fátækt. Raddir þessara kvenna eru faldar. Þær geta ekki stigið fram, því þeim verður refsað. Þegar ég fer út úr sambandinu var það afskaplega erfitt fjárhagslega því ég var þarna einstæð tveggja barna móðir í kvikmyndagerð, þar sem voru engar öruggar mánaðarlegar greiðslur. Það var erfitt að ná endum saman, eiga fyrir leigu eða mat, og það kom alveg fyrir að ég þurfti að leita aðstoðar hjá vinum til að brúa ákveðin tímabil. Það varð mér síðan til bjargar að mér var boðin vinna í Danmörku og skömmu eftir að sambandinu lauk flutti ég til Svíþjóðar þar sem foreldrar mínir og systkini bjuggu, og þau hjálpuðu mér með drengina á meðan ég var í vinnunni. Þar loks fékk ég öruggar tekjur.“

Hún tekur fram að auðvitað séu aðstæður allra ólíkar. „En orkan sem fæst við að þurfa ekki að vera hræddur og orkan sem fæst við að vera öruggur er ótrúlega gefandi. Þessi orka getur skapað ótrúlega hluti og fyrir mig varð hún til þess að mér tókst að skapa mér starfsframa. Hér átta ég mig samt á þeirri forréttindastöðu að ég var komin með mína menntun sem veitti mér forskot. En ég held að þetta lögmál gildi fyrir alla. Orkan sem fæst við að vera ekki hrædd inni á eigin heimili getur skapað atvinnu og tekjur og hjálpað manni við að komast yfir ótrúlegustu hindranir. Það eiga ekki að vera forréttindi að vera öruggur heima hjá sér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“