Franskur fjallgöngumaður gekk fram á lík þriggja manna á Mont Blanc, hæsta fjalli Vestur-Evrópu, á dögunum. Talið er að líkin séu af fjallgöngumönnum sem saknað hefur verið frá árinu 1995.
„Jökullinn er stöðugt á hreyfingu og við getum sagt það með nokkurri vissu að þessir menn hafi dáið árið 1995,“ segir talsmaður björgunarsveitar í Val d‘Aoste á Ítalíu í samtali við AFP-fréttaveituna.
Nú þegar er vinna farin af stað sem miðar að því að koma líkunum af fjallinu. Á undanförnum árum hefur ís og snjór bráðnað nokkuð hratt á Mont Blanc og samhliða því hafa lík þeirra sem látist hafa á fjallinu á undanförnum áratugum komið fram.
Ekki er langt síðan líkamsleifar nokkurra þeirra sem létust í tveimur flugslysum fyrir margt löngu komu fram. Talið er að á fjallinu séu lík 160 fjallgöngumanna sem týnt hafa lífi á fjallinu, auk margra sem látist hafa í flugslysum.