„Opnun H&M á Íslandi er eitthvert skringilegasta PR klúður sem maður hefur orðið vitni að,“ segir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason á bloggsíðu sinni á vef Eyjunnar.
Egill nefnir til dæmis uppákomuna með auglýsinguna sem komið var fyrir á Lækjartorgi, en um var að ræða stóran innkaupapoka sem ekki hafði fengist leyfi fyrir. Þá bendir Egill á fréttir um boðslista „fína fólksins“ sem verður við opnun H&M í kvöld.
Sjá einnig:
Þetta er útvalda fólkið sem er boðið í opnunarpartí H&M
„Þetta er satt að segja afar tvíbent. H&M er mjög alþýðleg verslun – þeir sem eru snobbaðir, finnst gaman að eyða peningum, vilja fín föt eða merkjavöru – munu ekki versla í H&M. Það gera heldur ekki þeir sem vilja vönduð föt, í fyrra keypti ég tvennar stuttbuxur á son minn í H&M verslun í Berlín, hvorugar entust sumarfríið,“ segir Egill og bætir við:
„Gildi þess að bjóða útvöldum í opnunina er nákvæmlega ekki neitt – virkar líklega öfugt fremur en hitt. Íslenskur almenningur hefur lengi þyrpst í H&M búðir á ferðalögum erlendis.
Svo er auðvitað stóra spurningin, en það er verðið. Kosta flíkurnar það sama í H&M á Íslandi og í nágrannalöndum? Hvernig verður H&M vísitalan – þarna verður hægt að gera býsna nákvæman samanburð?“