fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Ekki hræddur við að taka slaginn

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 27. júlí 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, er einn af þekktari læknum landsins. Hann er venjulega kallaður því vinalega heiti Lækna-Tómas. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Tómas og ræddi við hann um læknastarfið, náttúruvernd, pólitík og fleira.

Tómas er annálaður fjallagarpur sem hefur unun af íslenska sumrinu og nýtir þá tíma sinn eftir megni til að ferðast um landið. „Pabbi var jarðfræðingur og allt frá því ég var smápjakki hef ég farið víða og fengið að að upplifa fegurðina í náttúru þessa lands. Ég lít á það sem algjör forréttindi,“ segir Tómas. „Sumartíminn er mér dýrmætur. Langoftast þegar ég er ekki í vinnunni þá er ég uppi á fjöllum. Útivist er aðaláhugamál mitt og konu minnar. Svo fer eftir veðri og vindum hvert við förum. Ég birti myndir á Facebook úr ferðum okkar og fólk spyr mig hvort ég sé alltaf í góðu veðri af því það er mikil sól á myndunum. Það er vegna þess að ég er búinn að stúdera veðurspána og er ófeiminn við að breyta ferðaáætlun í samræmi við sólarspár.“

Hvað gefur það þér að vera úti í náttúrunni?

„Það gefur mér gríðarlega orku. Ég er í starfi þar sem er mikið álag, ég vinn mikið og er á tíðum næturvöktum, oft þriðju eða fjórðu hverja nótt. Þess vegna er frábært að koma sér í allt annað umhverfi og helst að sofa í tjaldi. Ég kalla mig tjaldfíkil og sef aldrei betur en í tjaldi.

Oft erum við hjónin ekki að ferðast ein, heldur tökum með okkur vini og kunningja. Það má segja að ég fari að stunda trúboð þegar ég sýni fólki staði sem eru ekki alveg við þjóðveginn. Það gefur mér mjög mikið að vera með fólki á spennandi stöðum í íslenskri náttúru og skynja hrifningu þess.“

Hugsað í lengra samhengi

Nýleg ferð Tómasar til Vestfjarða rataði í fjölmiðla eftir að Tómas birti mynd af sér við Rjúkandifoss á Facebook og spurði: „Viljum við fórna svona perlu fyrir megavött til stóriðju? Það væri brjálæði… Við þurfum að skila svona perlum til næstu kynslóða, ekki HS Orku eða Vesturverks.“ Fjöldi deildi þessum pósti Tómasar, en ekki voru allir sáttir. Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, Hafdís Gunnarsdóttir, sagðist vera komin með upp í kok af fólki eins og Tómasi sem kæmi í heimsókna á Vestfirði í nokkra daga á ári og berðist gegn framkvæmdum.

Tómas segist aðspurður hafa miklar áhyggjur af stóriðjuframkvæmdum. „Á 70 árum hafa víðernin á Íslandi minnkað um 70 prósent. Í dag eru 40 prósent af yfirborði Ísland víðerni og sá hluti landsins er að mínum dómi hvað verðmætastur. Ég hugsa þessi mál í miklu lengra samhengi en bara fyrir mig og börnin mín. Ég er afi þriggja mánaða drengs og mig langar til að hann, hans börn og barnabörn upplifi ósnortna náttúru eins og er að finna á Ströndum og Hornströndum.

Alla mína tíð hef ég brunnið fyrir náttúruvernd og ég lít ekki á þá baráttu sem tapað spil. Ég kalla þá stóriðjustefnu sem við höfum verið að horfa upp á virkjanaáráttu. Ég skynja gríðarlega breytingu hjá ungu fólki í dag miðað við eldri kynslóðir. Þannig að það er kominn byr í seglin. Náttúruverndarsinnar hafa líka fengið góða hjálp með tilkomu ferðamannaiðnaðarins sem er orðinn mikilvægasta atvinnugreinin á Íslandi. Erlendir ferðamenn sækja í óspillta náttúru.“

Mynd sem vakti athygli

Þú hefur ekki áhyggjur af því að náttúruverndarsjónarmið verði undir hjá stjórnvöldum?

„Ég held að þetta eigi eftir að breytast með yngri kjósendum og breyttum áherslum. Unga fólkið hefur aðra forgangsröðun og staldrar meira við en mín kynslóð og þær eldri gerðu. Það kann betur að meta það sem er í kringum það. Ég fæ tækifæri til að skyggnast inn í þennan hugarheim því ég er prófessor við læknadeildina og er svo lánsamur að kenna tugum lækna- og hjúkrunarnema á hverju ári.“

Um orð varaþingsmanns Sjálfstæðisflokksins segir Tómas: „Hún segist vera búin að fá upp í kok af mér en hefur samt aldrei hitt mig. Hún tók mjög sterkt til orða og fyrir vikið varð til fjölmiðlamál. Ég var vissulega að vonast til að fá viðbrögð við ferð minni, það var að hluta til tilgangurinn með því að fara á þessum tímapunkti í góða veðrið sem var á Ströndum. Ég átti samt aldrei von á viðbrögðum eins og þessum. Í rauninni gerði hún mér greiða því ég vildi fá sjónarmið náttúruverndarsinna inn í umræðu þar sem mér fannst þeirra sjónarmið hafa orðið mjög undir. Umræðan breyttist eftir Facebookfærslu þar sem ég birti mynd sem ég tók af mér við rjúkandi foss sem ég var að koma að í fyrsta sinn á ævinni. Þessi mynd lýgur ekki og margir áhugaljósmyndarar hafa komið að máli við mig og lýst yfir áhuga á að koma þangað og skoða þennan foss og aðra á svæðinu. Nú eru aðrar áherslur í umræðu um virkjun á þessu svæði. Ég skynja að þeim sem eru virkjanamegin þyki sú umræða óþægileg.“

Ferð sem breytti miklu

Hvað viltu segja mér um samband þitt við Vestfirði?

„Mér þykir alveg sérstaklega vænt um Vestfirði. Ég hef hvergi á Íslandi ferðast jafn mikið og á Vestfjörðum og þekki þar hvern krók og kima. Þeir eru harðir í horn að taka Vestfirðingar. Ef þeim mislíkar eða eru ósammála, þá nota þeir aðeins sterkari orð en Íslendingar annars staðar. Á Vestfjörðum var fólk sem lét það í ljós að það væri ekki ánægt með það sem ég hefði skrifað. Sjálfur er ég ættaður úr Arnafirði og á ættmenni þar sem eru ekki öll endilega sammála mér en bera virðingu fyrir skoðunum mínum. Svo hef ég unnið þar sem læknir og kynnst þessu frábæra fólki og þeim flóknu áskorunum sem þessi smáu bæjarfélög á Vestfjörðum eru að fást við.

Mér þótti einstaklega vænt um að koma í Árneshrepp, þar er eitt vingjarnlegasta fólk sem ég hef kynnst á Íslandi. Jafnvel þau sem voru ekki sammála mér vildu allt fyrir mig gera. Bændur þökkuðu mér fyrir að hafa komið í sveitina og sögðust hafa átt erfitt með að tjá sig. Það er ósatt að þarna séu allir sammála. Þrír í sveitastjórninni er með virkjun og tveir harðir á móti. Í sveitinni er ungt fólk sem berst með kjafti og klóm gegn virkjanaáformum.

Mér finnst þessi ferð hafa breytt miklu í mínu lífi. Ég var í sumarfríinu mínu að berjast í góðri trú fyrir verndun þessa svæðis – sem ég tel algjöra náttúrperlu og þarna eru fossar og gljúfur á heimsmælikvarða. Ég hef fengið hörð viðbrögð, á Facebook hafa verið skrifaðir ótrúlegustu hlutir um mig, ég kallaður asni og fífl og þaðan af verra. En hörð viðbrögð hef ég fengið áður eins og þegar ég gagnrýndi aðstæður á Landspítalanum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gagnrýnir af góðum hug

Tekurðu gagnrýni inn á þig?

„Ég hefði gert það fyrir einhverjum árum, en ekki lengur. Ég er búinn að kynnast bæði jákvæðu sviðsljósi og líka því neikvæða. Ég er vanur gagnrýni og er kominn með þykkan skráp.“

Í fyrra birti Tómas myndir frá Landspítalanum sem báru vott um lélegan aðbúnað sjúklinga og starfsfólks. Fjölmiðlar tóku málið upp. Landlæknir sagði ástandið á Landspítalanum ekki slæmt og Tómas var jafnvel ásakaður um að vera að sviðsetja slæmt ástand til að fanga athygli fjölmiðla.

„Þeir sem þekkja mig og hafa unnið með mér vita hversu vænt mér þykir um Landspítalann en stundum fallast manni einfaldlega hendur þegar maður er þar. Tilgangur minn var að vekja athygli og breyta hlutunum,“ segir hann. „Ég gagnrýni af góðum hug. Ég er í þannig aðstöðu sem yfirmaður og prófessor að það er hlustað á mig. Það er hins vegar mjög snúin og erfið staða að gagnrýna eigin vinnustað. Ég gerði það að vel ígrunduðu máli, það var engin skyndiákvörðun. Ég var ekki að gagnrýna ástandið á spítalanum til að komast í fjölmiðla eða vegna athyglisýki. Þetta var nokkuð sem ég taldi nauðsynlegt eins og mál voru að þróast. Ég bar það undir nána vini áður en ég setti myndirnar inn á Facebook. Þá var ástandið þannig á deildunum að fólk var að missa móðinn.

Síðastliðið haust lýsti ég ástandi sem var óboðlegt og er að mörgu leyti óleyst ennþá. Það hefur til dæmis verið gríðarlega slæmt ástand á gjörgæslunni svo mánuðum skiptir og gangainnlagnir eru tíðar. Það sem einnig fékk mig til að bregðast mjög hart við var að lyfturnar á gjörgæslunni og skurðstofunni voru ítrekað að bila og starfsfólk og sjúklingar festust í henni, jafnvel mörgum sinnum á dag. Nú er allavega búið að endurnýja aðra lyftuna, þannig að eitthvað hefur þessi gagnrýni haft að segja.

Það er alveg ljóst að það voru ekki allir sáttir við að ég segði skoðun mína á þessu. Ég átti alveg von á því. Landlæknir setti ofan í við mig og sagði að ástandið væri alls ekki svona slæmt. Ég var samt að taka myndir sem sýndu allt annan veruleika en hann vildi halda fram.“

Tekinn á teppið

Fannstu fyrir áberandi reiði í þinn garð frá einhverjum á Landspítalanum?

„Það má segja að ég hafi fengið tiltal og verið tekinn á teppið, sem ég átti svo sem alveg eins von á. Deildarstjórum á deild þar sem sjúklingar voru á göngunum fannst ekki gott að láta þetta ástandið á þeirra deildum spyrjast út, sem er skiljanlegt. Ég fékk ábendingar um að umræðan væri spítalanum ekki til framdráttar og var beðinn um að hugsa mig aðeins um. Mér var bent á að þessar myndbirtingar mínar væru kannski ekki aðferðarfræði sem væri vænlegust til árangurs, en ég er ekki endilega sammála því. Í sjálfu sér sögðu menn þetta ekki í illu og ég tók þetta til greina. Það er hins vegar vandamál í sjálfu sér hvað við sem vinnum á Landspítalanum erum meðvirk með slæmu ástandi og höfum verið lengi.“

Þér finnst þú þá ekki hafa gengið of langt?

„Þegar ég horfi í baksýnisspegilinn þá stend ég við það sem ég gerði. Það er til marks um nokkuð breytta tíma að áður þorði starfsfólk yfirhöfuð ekki að tjá sig um málefni spítalans. Þá var sagt að menn væru ekki að róa í sama báti ef gagnrýni kom fram. Það ríkti viss þöggunar-kúltúr. Þetta hefur gjörbreyst og Páll Matthíasson er mjög sprækur forstjóri og góður leiðtogi. Það er jákvætt. Vandamálið er að hlutir breytast alltof hægt og ástandið á spítalanum er langt frá því að vera ásættanlegt.

Ég er ekki að segja að lausnirnar séu einfaldar. Við erum að drukkna í sjúklingum. Spítalinn er alltof lítill en ekkert er að gerast. Við erum eins og fullorðinn karlmaður sem er að reyna að troða sér í fermingarfötin.

Við erum með nýja ríkisstjórn en það er ekki hægt að segja að það sjáist mikil innspýting inn í heilbrigðiskerfið.“

Hvað finnst þér um störf nýs heilbrigðisráðherra?

„Ég hef alltaf haft mikið álit á Óttari Proppé, bæði sem tónlistarmanni og stjórnmálamanni, en hann er mjög varkár. Hann hugsar sig vel um og það er að sumu leyti kostur. Það verður samt eitthvað að fara að gerast fyrir alvöru og ég held að það geti gerst. Það eru auðvitað vonbrigði að það skyldi ekki vera meira sett í nýja spítalann og heilbrigðiskerfið en vonandi horfir betur þegar litið er lengra fram í tímann.“

Lakkið rispast stundum

Tómas ætti að vera vanur sviðsljósinu, svo oft hefur hann lent í því, en hvernig kann hann við sig þar? „Ég var nokkuð áberandi í félagslífinu í Hagaskóla, var inspector í MR og hef tekið að mér ýmis félagsstörf, hef verið forsprakki fjallgöngufélaga og skipulagt fjölda tónleika. Ég hef því farið í mörg viðtöl út af hinum ýmsu málum og það gefur mér ákveðið öryggi, enda viss þjálfun að koma fram og svara fyrir sig. Mér líður ekki illa í sviðsljósinu, en það rispast
stundum á manni lakkið og ég hef lent í erfiðum málum.“

Erfiðasta málið er eflaust svokallað plastbarkamál, en ítalskur læknir framkvæmdi nokkrar plastbarkaígræðslur á Karolinska sjúkahúsinu í Stokkhólmi og eftir að sjúklingar hans létust og hann var staðinn að því að hafa falsað upplýsingar var rannsókn hafin. Tómas var í hópi íslenskra lækna sem hafði aðkomu að málinu og þáttur þeirra er enn til rannsóknar. Tómas segist lítið geta tjáð sig um málið á þessu stigi. „Þetta mál er í ferli og hefur verið lengi. Við íslensku kollegarnir höfum talað við óteljandi nefndir og þar er farið í gegnum sömu hlutina aftur og aftur. Ég er með góða samvisku í þessu máli en óneitanlega hefur þetta tekið mjög á.“

Erfiðar aðstæður

Árið 2014 var Tómas kosinn maður ársins á Bylgjunni eftir að hafa unnið björgunarafrek á Landspítalanum eftir að karlmaður var stunginn með hnífi í gegnum hjartað. Þar tókst Tómasi að bjarga mannslífi.„Sem betur fer hefur það gerst oftar en þarna var til myndefni,“ segir hann. „Ég segi samt við nemendur mína að það sést hversu góður skurðlæknir maður er þegar fengist er við fylgikvilla eða óvæntar uppákomur, en ekki endilega þegar allt gengur vel. Við erfiðar aðstæður sýna menn hvað í þá er spunnið.“

En það fer ekki alltaf jafnvel. „Stundum missir maður sjúklinga. Það er mjög slæm tilfinning,“ segir Tómas. „Í fyrsta sinn sem ég missti sjúkling var það þegar ég var í námi í hjartaskurðlækningum í Svíþjóð. Þetta var í stór hjartaaðgerð og sjúklingurinn var þjóðþekktur sænskur maður og andlát hans var getið í blöðunum. Ég átti marga góða yfirmenn í mínu námi og einn þeirra, sem var einn færasti skurðlæknir í Svíþjóð, brýndi fyrir mér að skurðlæknir ætti aldrei að venjast því að missa sjúkling – enda mikilvægt að leggja sig alltaf 100 prósent fram. En að sama skapi má maður ekki taka svona hluti of mikið inn á sig og láta það trufla störf sín og einkalíf. Ég man samt að ég tók þetta fyrsta andlát andlát mitt eftir hjartaaðgerð nærri mér og leitaði til kollega sem bankaði bara á bakið á mér, bauð mig velkominn í hópinn og minnti á að þetta yrði ekki í síðasta skiptið sem ég myndi lenda í þessu. Það fannst mér lítil hjálp og fór ekki vel í mig.

Ég legg mikla áherslu á að ræða opinskátt við þá ungu skurðlækna sem ég er að mennta um það að eitthvað geti komið upp á í aðgerð. Mér þykir vænt um að nemendur koma til mín af eigin frumkvæði og vilja ræða þau mál og önnur. Ég er ekki sálfræðingur eða geðlæknir en ég hef mikinn áhuga á hinum mannlega þætti starfsins. Í skurðlækningum er komin fram ný kynslóð sem er ekki eins ferköntuð í mannlegum samskiptum, eins og var stundum hér áður fyrr og er enn víða vandamál erlendis. Í dag er góður skurðlæknir teymismaður, dálítið meira eins og hljómsveitarstjóri, en ekki einræðisherra.

Langoftast þegar skurðlæknar eru kærðir í starfi má rekja það til samskiptavandamála, en ekki út af atviki sem gerðist í sjálfri aðgerðinni. Ég hef alltaf átt auðvelt með að tala við fólk, þar á meðal sjúklinga mína. Það er mikilvægur hluti af starfinu að kunna á mannleg samskipti og legg áherslu á það við nemendur mína. Stór hluti af því að vera góður læknir snýst nefnilega um mannleg samskipti og ekki bara læknisfræðilega þekkingu og reynslu.“

Siðferðileg álitamál

Hvernig tekst þú á við álagið sem fylgir því að sjá fólk deyja, kemstu hjá því að taka vinnuna með þér heim?

„Þetta er mjög erfitt, sérstaklega þegar um er að ræða börn eða unglinga. Á sama hátt þarf maður að lifa með þessu álagi og það er ákveðin kúnst. Það getur verið snúið að taka hlutina ekki of mikið með sér heim. Það sama á við um að fara í næstu aðgerð og þurfa að standa sig vel. Þetta er samt þjálfun.

Sem skurðlæknir verður maður að vera jákvæður og trúa á það sem maður er að gera og láta sjúklingnum og hans nánustu líða vel. Það er margt í starfinu sem er mjög erfitt og krefjandi og þar koma upp siðferðileg álitamál.“

Tómas nefnir dæmi um hið síðastnefnda: „Stundum erum við með votta Jehóva í aðgerð sem vilja heldur deyja en að þiggja blóð. Oft kemur prestur frá söfnuðinum með sjúklingnum. Sjúklingurinn skrifar jafnvel undir skjal um að hann vilji undir engum kringumstæðum þiggja blóð. Þarna er gerður samningur og álagið á skurðlækninn er mikið. Ég hef tekið þátt í allmörgum svona aðgerðum í sérnáminu og þær hafa sem betur fer allar gengið vel.“

„Alla mína tíð hef ég brunnið fyrir náttúruvernd og ég lít ekki á þá baráttu sem tapað spil."
Ást á náttúrunni „Alla mína tíð hef ég brunnið fyrir náttúruvernd og ég lít ekki á þá baráttu sem tapað spil."

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Heldur til hægri

Tómas hefur verið óhræddur við að setja fram skoðanir sínar varðandi það sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu og er ötull talsmaður náttúruverndar. En er hann pólitískur?

„Ég myndi ekki segja að ég pólitískur eins og margir skilja orðið. En ég hef skoðanir á hlutum og sterka lífsskoðun. Ég hef til dæmis aldrei verið í flokki eða í framboði en hef stutt í prófkjöri vini í ýmsum flokkum,“ segir hann. „Ég hef talið mig vera heldur til hægri í pólitík. Afi minn var mikill Alþýðuflokksmaður og margar af lífsskoðunum mínum samræmast eflaust sósíaldemókratisma. Ég er klárlega þannig að ég aðhyllist jafnan rétt fólks til menntunar og heilbrigðisþjónustu en tel samt vera ákveðið rými fyrir einkarekstri.“

Líka í heilbrigðiskerfinu?

„Að hluta til. Ég get ekki sagt að mér hugnist einkasjúkrahús í samkeppni við Landspítalann en ég held að sumu leyti að einkarekstur á stofum úti í bæ sé kerfi sem hafi virkað ágætlega á Íslandi, en það þarf auðvitað að hafa eftirlit með þeim rekstri. Fólk á tiltölulega auðvelt með að komast til flestra sérfræðinga hérlendis, en í Svíþjóð þar sem ég þekki vel til eru víða mun lengri biðlistar eftir minni aðgerðum á göngudeildum sjúkrahúsa og kerfið þyngra í vöfum. Það er að mínu mati algjörlega óraunhæft að ætla að færa allan einkarekstur á stofum á Íslandi inn á göngudeildir Landspítala, því þar er hvorki pláss né aðstaða. Það er verið að byrja á vitlausum enda með því að ræða málið á þeim forsendum.

Ég er mjög á móti því að selja áfengi í búðum og það er vegna lýðheilsusjónarmiða. Ég er hins vegar fylgjandi því að lyfta höftum af innflutningi á matvöru og efla samkeppni.“

Nú er náttúruvernd venjulega meir kennd meir við vinstri en hægri stefnu sem þú fylgir.

„Já, það er flókið að staðsetja mig á hinu pólitíska rófi af því að ég er líka mikill náttúruverndarsinni. Sumir myndu ætla að ég væri vinstri-grænn og það er vissulega margt í stefnu þeirra í umhverfismálum sem höfðar til mín en svo er líka margt annað sem ég get ekki tekið undir.

Náttúruverndarmenn koma úr öllum flokkum og ég hef fengið mikil viðbrögð frá sjálfstæðismönnum sem skrifa mér og segja: Ég er sjálfstæðismaður og styð þig heilshugar.“ Það þykir mér vænt um og það hefur glatt mig mjög hversu margir hafa þakkað mér fyrir baráttu mína fyrir verndun íslenskrar náttúru.

Þú virðist alltaf óhræddur við að taka slaginn.

„Ég er ekki hræddur við að taka slaginn en ég er ekki að fara í slaginn bara til að fara í slaginn. Þegar ég beiti mér er það vegna mála sem ég hef hugsjónir til og þar eru málefni heilbrigðiskerfisins og mikilvægi náttúruverndar efst á blaði. Þar vil ég beita mér og vonandi hafa sem mest og best áhrif.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir