fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Heimatilbúin sprengja kostaði Anton Frey næstum því lífið

Afmyndaðist eftir flugeldaslys – Fyrstu dagana var tvísýnt um hvort hann fengi sjón aftur – Þrátt fyrir alvarlega áverka hefur Anton náð undraverðum bata

Kristín Clausen
Sunnudaginn 19. febrúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég veit að ég er orðinn blindur,“ voru fyrstu orðin sem Anton Freyr Gunnarsson sagði eftir að heimatilbúin sprengja sprakk beint í andlitið á honum þann 4. janúar síðastliðinn. Anton, sem er nýorðinn 16 ára, gerði sprengjuna úr sjö tertum, þar á meðal einni sýningartertu, sem hann keypti sjálfur fyrr um daginn. Margar klukkustundir fóru í að útbúa sprengjuna sem nærri kostaði hann lífið. Foreldrar hans lýsa aðkomunni að slysstað svo hryllilegri að þau eigi aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar þau sáu fyrst framan í son sinn þar sem hann skvetti vatni framan í sig afmyndaður eftir sprenginguna.

Andlitið afmyndað

„Augun voru brunnin, andlitið svart og afmyndað af sóti, brunasárum og blóði. Það lak úr eyrum hans og hægri höndin var svo tætt að kjöttægjur fóru út um allt,“ segir Gunnar Þór Magnússon, faðir Antons Freys, og bætir við að fyrstu viðbrögð hans hafi verið að reyna að forða móður Antons, Helgu Ísfold Magnúsdóttur, frá því að horfa framan í drenginn af ótta við viðbrögð hennar við að sjá barnið þeirra í þessu ástandi.

Betur fór en á horfðist í fyrstu en Anton Freyr hefur náð undraverðum bata á þeim rúmlega sex vikum sem liðnar eru frá kvöldinu örlagaríka. Sjónin er að megninu til komin til baka og brunasárin hafa gróið svo vel að læknarnir sem séð hafa um Anton frá slysinu segja það kraftaverki líkast.

Augun sködduðust mikið í slysinu.
Smyrsl kældu brunasárin fyrstu dagana Augun sködduðust mikið í slysinu.

Mynd: Úr einkasafni

Blaðamaður DV settist niður með Antoni og foreldrum hans á heimili þeirra í Þorlákshöfn í vikunni. Öll eru þau sammála um að margir hefðu gagn af því að lesa um skelfilega lífsreynslu þeirra svo hægt sé að draga lærdóm af henni. Anton segir mjög algengt að „krakkar“ séu að útbúa og sprengja heimatilbúnar sprengjur dagana í kringum áramótin. Faðir hans tekur í sama streng og telur sig hafa ofmetið getu sonar síns til að umgangast flugelda.

„Það verður að passa miklu betur upp á börn og unglinga á þessum árstíma. Ég ofmat aldur hans og þroska og tel að söluaðilar flugelda geri það líka með því að hafa aldurstakmarkið aðeins 16 ára. Ég ætla aldrei að horfa upp á svona aftur.“

Tók terturnar í sundur

Miðvikudaginn 4. janúar síðastliðinn gerðu þeir feðgar sér ferð í höfuðborgina til að kaupa flugelda sem fjölskyldan ætlaði að sprengja saman á þrettándanum. Með í för voru yngri bræður Antons en samtals eru systkinin sex talsins. Anton og bræður hans hafa mikinn áhuga á flugeldum og því hafa þeir, til þessa, verið mjög spenntir fyrir þessum árstíma.

Fyrstu dagana eftir slysið var óvíst hvort Anton fengi sjónina aftur.
Bataferlið var sársaukafullt Fyrstu dagana eftir slysið var óvíst hvort Anton fengi sjónina aftur.

Mynd: Úr einkasafni

„Á meðan við vorum að kaupa flugeldana keypti Anton sér sjálfur sex tertur og eina sýningartertu sem var töluvert stærri. Ég setti ekkert sérstakt spurningarmerki við það enda hafði ég enga hugmynd um hvað hann ætlaði sér með þær,“ segir Gunnar. Anton bætir við að dagana á undan hafi hann ásamt vinum sínum notað bílskúrinn til að taka tertur í sundur og búa til heimatilbúnar sprengjur.

„Krafturinn er aðalmálið þegar maður er að sjálfur að gera sprengjur. Sprengingin verður miklu stærri, sterkari og öflugri,“ segir Anton en eftir að hann kom heim úr flugeldabúðinni ákvað hann að útbúa stærðarinnar sprengju með því að safna púðrinu úr tertunum saman í stóran glervasa. Dagana á undan hafði hann verið að búa til sprengjur með því að setja púður inn í tómar klósettpappírsrúllur en nú var komið að því að taka sprengjugerðina á næsta stig. Foreldrar hans voru grunlausir um hvað hafði gengið á í bílskúrnum.

„Þessi sprengja var samt ekki plönuð fyrirfram. Við ætluðum bara að prófa að gera eitthvað nýtt.“

Á meðan læknar og hjúkrunarfólk gerði að sárum Antons var honum haldið sofandi.
Á spítalanum Á meðan læknar og hjúkrunarfólk gerði að sárum Antons var honum haldið sofandi.

Mynd: Úr einkasafni

Eftir að Anton og vinir hans höfðu dundað sér í rúmar fimm klukkustundir við að taka allar terturnar í sundur og búnir að útbúa nokkrar stórar sprengjur var komið að stóru stundinni.

Heppinn að vera á lífi

„Við fórum með sprengjurnar út og ég sagði strákunum að fara í burtu áður en ég kveikti á þræðinum á fyrstu sprengjunni. Á sama augnabliki og ég bar eldinn að sprengjunni sprakk hún yfir alla höndina þar sem ég náði ekki að kippa henni upp úr glervasanum. Hún sprakk líka yfir allt andlitið. Það næsta sem ég man er að ég sá hvítt, missti heyrnina og náði ekki andanum.“

Glerbrotum og sprengjuögnum rigndi yfir Anton. Auk þess sem hann fékk glerbrot inn í annað augað brunnu hornhimnurnar af báðum augunum og andlitið var svart og blóðugt. Hljóðhimnurnar sprungu og úr þeim vall blóðugur, þykkur vökvi. Hægri handleggur Antons skaddaðist jafnframt töluvert og hann hlaut annars og þriðja stigs bruna í slysinu.

Púðuragnir eru um allt andlit Antons.
Litlir gráir deplar eru í húðinni Púðuragnir eru um allt andlit Antons.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Eftir á var okkur sagt að ef Anton hefði gert sprengjuna rétt þá hefði hann dáið í slysinu. Það sem bjargaði honum var að hann þjappaði ekki púðrinu eins og er yfirleitt gert. En sem betur fer hafði hann ekki vit á því,“ segir Helga móðir hans og hryllir sig.

Hún segir að þau Gunnar hafi verið heima þetta kvöld þegar vinur Antons hringdi og bað þau um að koma strax þar sem Anton hefði lent í slysi. Þau höfðu ekki minnsta grun um hvað biði þeirra á slysstað. Þau töldu að hann hefði kannski brennt sig á puttanum og Helga tók sér því tíma til að þrífa og fylla tveggja lítra gosflösku af köldu vatni til að kæla brunasárið áður en hún fór af stað.

Héldu að Anton væri blindur

Eftir slysið ráfaði Anton inn í nærliggjandi blómabúð og vinur hans hringdi, áður en hann hafði samband við foreldra Antons, í Neyðarlínuna. Fyrir tilviljun var eigandi blómabúðarinnar staddur í versluninni og gat hleypt þeim inn og Anton komst strax að vaski þar sem hann kældi andlitið.

„Það fyrsta sem ég hugsaði og sagði upphátt eftir slysið var að ég væri orðinn blindur. Ég var alveg viss um það,“ segir Anton en þegar pabbi hans kom hlaupandi stóð hann við vaskinn og var að skvetta vatni framan í sig.

„Mér brá svakalega þegar ég sá hann. Ég stoppaði mömmu hans af, hún var rétt fyrir aftan mig, og sagði að þetta væri alltof mikið. Ég vildi hlífa henni við því að sjá hann svona. En hún hlustaði auðvitað ekki á það. Það fyrsta sem ég spurði Anton að var hvort að hann sæi eitthvað. Þó svo að hann hafi verið mjög illa farinn og skaðbrenndur skiptu augun mestu máli á þessum tímapunkti. Áfallið kom svo þegar hann sagði: „Nei, ég sé ekkert“.“

Skömmu síðar kom sjúkrabíll í forgangsakstri frá Selfossi. „Þeir fleygðu honum upp í bílinn og brenndu síðan beint í bæinn. Mamma hans fór með í bílnum en áður en þau lögðu af stað greip ég í hann og spurði: sérðu pabba? „Já, ég sé ljós,“ sagði hann en ég vissi að það gat ekki verið rétt.“

Haldið sofandi í tvo sólarhringa

Kæli- og verkjameðferðin byrjaði í sjúkrabílnum og um leið og komið var á bráðamóttökuna fór hreinsunarferlið af stað. Í fyrstu höfðu læknarnir mestar áhyggjur af því að öndunarfærin hefðu brunnið en svo var ekki.

Fljótlega eftir komuna á bráðamóttökuna byrjaði Anton að segja brandara. Hann sagði að þar sem hann liti út eins og gaurinn í Deadpool þyrfti litli bróðir hans að sjá hann. „Nú er ég fín forvörn fyrir hann.“

Gunnar segir að kvöldið og nóttin hafi, þrátt fyrir létta lund sonarins þessa fyrstu klukkustund eftir slysið, einkennst af yfirþyrmandi ótta um framtíð Antons en á þessum tímapunkti var óvíst hvort hann myndi ná sér að fullu.
Morguninn eftir var Anton svæfður. Honum var haldið sofandi i öndunarvél í tæpa tvo sólarhringa á meðan teymi lækna og hjúkrunarfólks gerði að sárum hans.

„Hann var aðallega svæfður til að hlífa honum fyrir sársaukanum. Ystu lögin af húðinni voru fjarlægð og hún hreinsuð upp. Þá var gerð aðgerð á auganu sem glerbrotið fór í og fósturfylgjur settar yfir augað þar sem hornhimnurnar höfðu verið,“ segir Helga en fyrstu dagana var mjög tvísýnt um hvort Anton fengi sjónina aftur.

Langar að verða flugmaður

Fyrstu vikuna mátti Anton ekki opna augun nema þegar augnlæknarnir settu dropa í þau. Hann segir þessa fyrstu daga vera í mikilli móðu þar sem hann var gríðarlega kvalinn þrátt fyrir að vera á sterkum verkjalyfjum.

„Ég hugsaði stöðugt um það hvort ég væri orðinn blindur. Ég þorði samt ekki að spyrja en hafði miklar áhyggjur af því að hugsanlega myndi ég aldrei fá bílpróf. Mig langar líka að verða flugmaður og á þessum tímapunkti var ég handviss um að það yrði aldrei. Ég hugsaði mikið um þetta þegar ég var að reyna að sofna á kvöldin. Þetta var ömurleg tilfinning.“

Hér er húfan sem Anton var með þegar slysið átti sér stað. Krafturinn í sprengingunni var mjög mikill.
Gríðarlegur kraftur Hér er húfan sem Anton var með þegar slysið átti sér stað. Krafturinn í sprengingunni var mjög mikill.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Líkt og fram hefur komið var ástandið tvísýnt fyrstu dagana. Yngri systkini Antons fengu ekki að hitta hann fyrr en nokkrum dögum eftir slysið sökum þess hversu illa hann var farinn í andlitinu. „Þau hittu prest áður en þau fóru inn á sjúkrastofuna. Litli bróðir hans, sem er níu ára, fór að hágráta og var mjög hræddur. Hann hljóp aftur út þar sem honum þótti Anton svo hræðilegur í framan,“ segir Helga en þau Gunnar vöktu yfir Antoni fyrstu sólarhringana eftir slysið.

„Hann var svo kvalinn og þetta með sjónina var okkur öllum gríðarlega þungbært. Á einu augnabliki umturnaðist veröldin eins og við þekktum hana. Það er ekki hægt að lýsa með orðum hvernig manni líður þegar barnið manns lendir í svona. Það fer allt á hvolf. Þá reyndist þrettándinn honum gríðarlega erfiður. Þann dag var mikið sprengt og við heyrðum það á Barnaspítalanum.“

Bataferlið sársaukafullt

Á sjöunda degi opnaði Anton annað augað í fyrsta skiptið eftir slysið. Þá sá hann bróður sinn sitja við rúmgaflinn. „Ég var mjög glaður en hélt því samt leyndu í smástund af því að ég mátti tæknilega séð ekki opna augun strax.“

Og eftir það fór batinn að ganga hraðar. Verkirnir minnkuðu samhliða því að sárin greru hratt og örugglega. Hægri höndin á Antoni, sem fór mjög illa í brunanum hefur gróið svo vel að lýtalæknirinn hans kveðst varla hafa séð annað eins.

„Þetta var annars og þriggja stigs bruni og það sér varla á henni í dag. Þetta er alveg ótrúlegt,“ segir Helga og bætir við að sjúkraþjálfari Antons hafi sömuleiðis verið furðu lostinn yfir því að hann væri búin að ná upp færni sem tekur alla jafna lengri tíma á aðeins nokkrum dögum.

Helga Ísfold Magnúsdóttir hefur staðið þétt við bakið á syni sínum.
Vilja að fólk læri af þessari erfiðu reynslu Helga Ísfold Magnúsdóttir hefur staðið þétt við bakið á syni sínum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Fyrst sá hann mjög óskýrt. En í dag er hann er kominn með 100 prósent sjón á hægra auganum og 70 prósent á vinstra. Þetta hörmulega slys mun því ekki hafa áhrif á hvort Anton komist í flugnám. Hann er samt undir miklu eftirliti og við bindum vonir við að sjónin á vinstra auganu eigi eftir að batna. Það er samt óvíst. En miðað við hvað hann hefur verið fljótur að ná sér hingað til þá leyfum við okkur að vona.“

Síðastliðinn föstudag voru saumarnir teknir úr auganu sem glerbrotið skarst í og í dag, föstudag, fer Anton í fyrstu lýtaaðgerðina af fjölmörgum þar sem læknirinn ætlar að freista þessa að fjarlæga púðuragnirnar sem eru grónar inn í húðina í andlitinu á Antoni.

Versti óttinn varð að raunveruleika

Fjölskyldan er sammála um að allir hafi lært mikið af þessari skelfilegu lífsreynslu. „Ég á örugglega eftir að sprengja aftur en aldrei taka neitt í sundur,“ segir Anton. Gunnar segir að hann muni héðan í frá vera meira vakandi fyrir flugeldanotkun barna sinna. „Ég ofmat þroska hans til að umgangast flugelda og héðan í frá mun ég aldrei sofna á verðinum. Ég ætla aldrei að horfa upp á svona slys aftur.“

Þá segir Gunnar að það sé mjög fjarlæg hugsun að svona erfið lífsreynsla geti bankað upp á fyrirvaralaust.

„Það sem ég óttaðist mest var að koma að barninu mínu svona. Og svo gerist það. Ég man varla eftir fyrstu fjórum sólarhringunum. Svefnleysi, ótti og hugsanir um það hverjar afleiðingarnar af slysinu yrðu. En þetta gerist og ég bið fólk um að gæta vel að börnunum sínum og ræða við þau um þessa hluti. Það er svo mikið í húfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir