fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

„Enginn kvartað eins mikið og Biskupsstofa“

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 19. ágúst 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt hefur verið sagt um Þorkel Mána Pétursson og mörgu hægt að bæta við. Í nærri því áratug hefur vélbyssukjaftur Mána ómað í útvarpstækjum landsmanna í gegnum þáttinn Harmageddon á X-inu 977 sem hann stýrir ásamt Frosta Logasyni. Þeim Harmageddonbræðrum er fátt heilagt og ekkert óviðkomandi. Ásamt því að vera í útvarpi nánast á hverjum degi þá starfar Máni einnig sem umboðsmaður og hefur starfað sem knattspyrnuþjálfari. Ari Brynjólfsson hitti Mána og fór yfir stöðuna á honum og samfélaginu öllu.

Harmageddon hefur verið í loftinu í nærri tíu ár og hefur náð miklum vinsældum fyrir beinskeytt viðtöl, harða gagnrýni þeirra Frosta og Mána á Þjóðkirkjuna og undarlegar uppákomur í beinni útsendingu. Máni hefur starfað á X-inu frá árinu 1997 þegar hann var rétt skriðinn yfir tvítugt og nýkominn úr meðferð. Hann lýsir sjálfum sér sem frjálshyggjusósíalista, femínista og Garðbæingi. „Lengi vel hataði ég Garðabæ, helst af því að ég elst upp í ömurlegu skólakerfi í Garðabæ og að mörgu leyti skrýtnu samfélagi. Æskan var ævintýralega skemmtileg fyrir utan erfiðleikana í skólakerfinu, foreldrar mínir voru frábærir. Þegar ég var ungur þá var þetta algjör plebbastaður og þegar ég var tvítugur þá var Garðabær ekki þekktur fyrir neitt nema að þar byggju bara pabbastrákar. Svo seinna nær maður sátt við sjálfan sig. Ég er mótaður af bænum, ég er Stjörnumaður, maður á að elska það sem mótar mann og ég væri ekki ég nema út af Garðabæ. Nú lít ég á bæinn og sé stóran hóp af afreksíþróttamönnum, tónlistarmönnum og rithöfundum frá Garðabæ, það er merkileg staðreynd að allt þetta hæfileikaríka fólk er yfirleitt ekki í Sjálfstæðisflokknum.“

Fyndin upplifun í forsetakjöri

Máni fer ekki í launkofa með það hvar hann stendur í pólitík og viðurkennir fúslega að vera kallaður „eini kommúnistinn í Garðabæ“, viðurnefni sem hann segir ekki alveg rétt en hann beri samt með stolti. Hann fer hörðum orðum um rekstur Garðabæjar: „Garðabær er alveg stórkostlega illa rekið sveitarfélag, en menn reyna að telja sér trú um, með debetkortareikningnum, að það sé allt í lagi með rekstur bæjarins. Það segir ýmislegt þegar þú ákveður að borga æðstu stjórnendum bæjarfélagsins 2,2 milljónir í mánaðarlaun, sem er auðvitað út úr kortinu.“

Máni þvertekur fyrir að vera illa við sjálfstæðismenn, margir vinir hans eru í flokknum og ósætti um stjórnmálastefnu sé ekkert sem taka eigi persónulega. Hann segir það hafa verið fyndna upplifun þegar hann, vinstrimenn og hægrimenn sem hann þekkir í Garðabæ, hafi verið sammála um að kjósa Guðna Th. Jóhannesson sem forseta. „Við gátum þá sameinast um eitthvað meira en að styðja Stjörnuna. Mér er ekki illa við Sjálfstæðisflokkinn að nokkru öðru leyti en því að hann er enginn flokkur frjálslyndis og enginn flokkur einstaklingsframtaks. Meira að segja afturhaldskommatittir í Vinstri grænum eru frjálslyndari en sjálfstæðismenn. Sjálfstæðismenn eru að stórum hluta íhaldssamir, þeirra pólitík er misskipting þar sem allir hafa ekki sama frelsið og möguleika til þess að ná langt eða verða ríkir.“

Máni fer á flug þegar talið berst að heilbrigðiskerfinu sem er honum mjög hugleikið. Hann segist hafa upplifað mikinn hrylling í kringum heilbrigðiskerfið: „Á sama tíma og lánið hjá mér var að lækka um 3,6 milljónir fyrir fasteignina mína í Garðabæ þá lá móðir mín í þrjá mánuði á spítala í handónýtu heilbrigðiskerfi. Það eina sem ég gat hugsað var að þeir gætu tekið þessar þrjár komma sex milljónir og troðið þeim þar sem sólin skín ekki.“ Hann segir misskiptingu kerfisins meðal annars felast í því að kennarar og hjúkrunarfræðingar þurfi að berjast fyrir launahækkunum við ríkið þegar ríkisstjórnin lækkar skatt á þá efnameiri: „Nú stíga þessir snillingar fram og tala hver af öðrum um hvar best væri að reisa nýjan spítala. Það vantar fleiri rúm, fleiri salerni og fleira starfsfólk á spítalana. Það er verið að eyða orku í algert kjaftæði. Maður skammast sín fyrir að vera partur af samfélagi sem finnst svona hlutir eðlilegir. Það er auðvelt að kenna einhverjum stjórnmálamönnum um en auðvitað er þetta okkur kjósendum að kenna.“

Stefndi á þing

Máni hefur þurft að glíma við kerfið oftar en einu sinni, sérstaklega sem faðir tveggja drengja, 11 og 16 ára. Hann hallar sér fram og segir með alvarlegum tón: „Það er hvergi eins mikil misskipting og í heilbrigðiskerfinu. Þetta er óhugnanlegur viðbjóður. Ég á dreng sem er ofvirkur og með kvíðaröskun. Það tók fimmtán mánuði að koma honum í greiningu. Það var biðtíminn. Eftir fimmtán mánuði fær hann greininguna um að hann sé með kvíðaröskun og ofvirkni. Þá er okkur tilkynnt að hann geti komist á námskeið til að vinna með þessa hluti. Það kosti tólf þúsund krónur. Biðtíminn í það er hins vegar tólf mánuðir. En ef við viljum og höfum efni á þá kemst hann á þetta námskeið í næstu viku ef við borgum níutíu þúsund krónur. Ég og móðir hans litum hvort á annað og það var á þessum tímapunkti sem ég ákvað að fara í þingframboð.“ Hann segir uppeldið oft erfitt en alltaf skemmtilegt þar sem ofvirk börn séu sérstaklega skemmtileg.

Máni var orðinn staðráðinn í því að yfirgefa fjölmiðlaheiminn og snúa sér að pólitík. „Ég er búinn að vera óvirkur alkóhólisti í tuttugu ár, hef kynnst alls konar drengjum og mönnum sem hefðu með smá hjálp á einhverjum tímapunkti náð að verða afreksmenn, frumkvöðlar og frábærir samfélagsþegnar. Í þessu samfélagi eiga þeir ekki séns. Einstætt foreldri eða tekjulágar fjölskyldur hafa ekkert efni á borga níutíu þúsund krónur til að senda barnið sitt á námskeið, sem er ekkert vitað hvort virki eða ekki. Það fólk þurfi að bíða í tvö ár á meðan barnið þeirra dregst aftur úr í skóla, finnst einhverjum þetta í lagi? Auðvitað þarf að setja pening á hina og þessa staði en þegar ég sá Bjarna Ben og Sigurð Inga taka víkingaklappið fyrir afreksíþróttasjóð þá gubbaði ég. Því það er fjöldi afreksmanna sem situr núna og bíður. Fólk sem verður aldrei afreksfólk því það er á einhverjum biðlistum eða hefur ekki efni á að sækja sér heilbrigðisþjónustu sjálft. Það er kannski gott fyrir þessa menn sem tala fyrir flötu skattkerfi hafi það í huga.

Það væri gaman ef einhver auðmaðurinn myndi fylgja fordæmi Óla Arnalds og styðja geðheilbrigðiskerfið okkar. Ég held að mörgu leyti sé skiljanlegt að auðmenn á Íslandi séu ekki neitt rosalega viljugir að greiða skatta hérna. Þegar tekjublaðið kemur út sjáum við aldrei neinn tala vel um þá sem greiða hæstu skattana. Það er eins og ríkt fólk sé vont fólk. Það er stórkostlegur misskilningur, efnað fólk er vanalega gott fólk. Það vill flest greiða til samfélagsins og greiða miklu meira en það gerir. Samfélagið virðist bara ekkert vera hrifið af þeim sem leggja mikið til samfélagsins. Auðvitað eigum við að birta lista á hverju ári yfir þá sem greiða hæsta útsvarið. Undir fyrirsögninni „Þetta er topp fólk“. Þá myndu kannski fleiri vilja komast á þann lista og greiða skattana sína með bros á vör.“

Þolir ekki feðraveldisfemínismann

Máni á rætur að rekja í Framsóknarflokkinn þrátt fyrir að sumir fjölskyldumeðlimir neiti að kannast við slíkt í dag: „Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar verið hertekinn af mjög skrítnu fólki. Við verðum samt að horfast í augu við það að við sem samfélag berum ábyrgð á því að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa skipt með sér auðæfum landsins. Aðalvandamálið við íslenskt samfélag er að það er búið að mynda svo fáar vinstristjórnir, það þurfti alltaf að fá inn Framsóknarflokkinn. Mér er annars ekkert illa við framsóknarmenn.“

Máni er heldur ekki að farast úr hrifningu á stjórnarandstöðuflokkunum: „Katrín Jakobsdóttir er félagi minn, ég er stuðningsmaður hennar þrátt fyrir að ég sé ekkert endilega hrifinn af öllu hjá Vinstri grænum. Það sem VG og Samfó gerðu í þeirra ríkisstjórn var margt gott og margt ömurlegt, en menn þurfa að gera sér grein fyrir því í hvaða aðstöðu menn voru að stjórna. Ég þoli ekki feðraveldisfemínismann sem er oft ráðandi í Vinstri grænum. Þetta mál með kynjakvóta lætur þá hljóma eins og kjósendur þeirra séu heimskir.“

Aðspurður hvort þeir Harmageddonbræður taki létt á Pírötum segir Máni: „Það eru klárlega allir að taka létt á Pírötum, það er bara rosalega erfitt að finna höggstað á þeim því þeir eru samkvæmir sjálfum sér. Þegar við erum að tala við sjálfstæðiskonurnar Ragnheiði Ríkharðs eða Þorgerði Katrínu þá er mjög erfitt að finna á þeim höggstað því þær segja bara satt og rétt frá hlutunum. Það eru tvær týpur sem koma vel út úr viðtölum, það er fólkið sem segir alltaf satt og fólkið sem svífst einskis,“ segir Máni og hlær.

Máni gengst við því að vera femínisti og fer fögrum orðum um konur á Alþingi sem hann segir fylla að minnsta kosti 9 af 10 sætum yfir bestu þingmennina. Engar konur starfa hins vegar á X-inu 977, Máni segir ástæðuna einfalda. Peningaleysi. „Ég man þegar við vorum að byrja þá settum við það sem markmið að tala alltaf við að minnsta kosti eina konu á dag. Í dag er veruleikinn að breytast til hins betra, það er alveg þekkt dæmi úr fjölmiðlum að það er erfiðara að fá konur í viðtal en þetta er allt að þokast í rétta átt. Það er ekki síst út af þessari kynslóð af konum sem þora að stíga fram og tala. Okkar markhópur er karlar þó að það sé eitthvað að breytast, við erum fjórir sem vinnum á stöðinni. Við höfum allir unnið í útvarpi í mörg ár, ef ég fæ pening til að ráða inn fimmtu manneskjuna þá yrði það kona, ef hún myndi þola þessi lágu laun. En það kemur ekki til greina að reka einn til að fá inn konu, jafnrétti verður ekki náð með ofbeldi.“

Ekki alltaf auðvelt samstarf

Þorkell Máni Pétursson lýsir sjálfum sér sem ofvirkum, tveggja drengja föður með bullandi athyglisbrest. Máni segir athyglisbrestinn oft vera erfiðan en það reyni frekar á fólkið í kringum hann. Nú um helgina er hann búinn að vera edrú í tvo áratugi, í desember fagnar hann fertugsafmæli sínu og á næsta ári verða þeir Frosti búnir að vera í loftinu í tíu ár. Máni segist skána með hverju árinu sem líður frá því að edrúmennskan hófst. Nú hefur hann slegið draumum sínum um stjórnmál á frest og eru þeir Frosti nú að taka yfir Miði.is. Ásamt því starfar Máni sem umboðsmaður fyrir Friðrik Dór, sem er sjaldan eða aldrei spilaður á X-inu sem sérhæfir sig í rokki. Hversu lengi á hann von á að Harmageddon verði í loftinu?

„Við erum búnir að semja við 365 um að halda áfram, ætli við endumst ekki fram yfir næsta kjörtímabil. Held að það henti ágætlega, tvær hægristjórnir og tvær vinstristjórnir. En það er ekki nein föst dagsetning. Við höfum talað um það að kannski hættum við þegar markmiðum okkar er náð, Þjóðkirkjan verður lögð niður og RÚV hverfur af auglýsingamarkaði,“ segir Máni og hlær: „Ef RÚV fer af auglýsingamarkaði þá get ég lofað öllum að ég skal ráða konu í vinnu.“

Nú er Frosti Logason í fríi, en hann var að eignast sitt fyrsta barn í byrjun vikunnar. Frosti og Máni hafa verið vinir og samstarfsfélagar í aldarfjórðung, þeir eru ólíkir að mörgu leyti: „Daginn sem Frosti var að eignast barn var ég úti í búð að kaupa rakvélablöð fyrir eldri drenginn minn, það er skemmtileg staðreynd. Ég hlakka verulega til að fylgjast með Frosta takast á við þetta merkilega starf. Við erum búnir að vinna saman mjög náið í tíu ár, nánast upp á dag. Fólk getur rétt ímyndað sér hvað það getur tekið á, líka af því að við erum þannig karakterar. Þetta hefur reynt alveg gríðarlega á oft og tíðum.“

Hann segir þá Frosta alltaf hafa getað rætt saman um hluti og það skipti mestu máli að fara aldrei reiður að sofa: „Við höfum gengið í gegnum alls konar skringilega hluti í gegnum árin, en við höfum alltaf getað rætt málin. Það sem heldur þessu saman er kærleikurinn. Við erum hálf ónýtir án hvor annars. Við erum lengsta tvíeyki í sögunni í íslensku útvarpi, við vinnum mikið saman við að reka X-ið, erum nú að taka að okkur Miði.is og gerum alls konar hluti saman, það hafa komið upp atvik. Við höfum rifist, í alvörunni rifist í loftinu og svo erum við fúlir og pirraðir og hlustendur hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. En Frosti er allra besti vinur minn og það eru forréttindi að fá að vinna með besta vini sínum á hverjum degi.“

FM957 er ruglaði frændinn

Aðspurður um ástandið á 365 miðlum spyr Máni á móti hvort einhver myndi vilja vinna á sama stað í 15 ár ef það væri ekki gaman í vinnunni: „Fjölmiðlar flögguðu um daginn bréfi stjórnarformanns 365. Þar sagði hún að 365 væri fjölskyldufyrirtæki. Nú þekki ég ekki hana eða manninn hennar en ég er alveg sammála. Það er ekki mikið verið að knúsa okkur á ganginum eða þakka okkur fyrir vel unnin störf alla daga en þegar við lendum í klandri þá fáum við alltaf hjálp og það er staðið þétt við bakið á okkur, þannig eru stundum fjölskyldur. Þetta er þannig fjölskyldufyrirtæki, Þorgeir Ástvalds er afinn og FM957 er ruglaði frændinn.

Á 365 vinna líka stórir karakterar og eiga að gera það. Ef það verða ekki árekstrar þá er þetta fyrirtæki í mínum huga að ráða vitlaust starfsfólk. Ég hef margoft öskrað á yfirmann minn á útvarpssviðinu. En hann er samt alger toppmaður og við erum miklir vinir.“

Þeir Harmageddonbræður eru óhræddir við að taka umræðuna um hvað sem er við hvern sem er: „Fólk kemur oft til okkar hneykslað og vill meina að sumir sem við tölum við séu ekki með allar skrúfur fastar, það getur í sumum tilvikum verið rétt. Við lítum þannig á að við séum að endurspegla samfélagið sem við búum í og sumt af þessu fólki vill bara koma í viðtöl. Sumir taka því persónulega ef við höfnum því að fá þá í viðtal, þó svo við tölum við marga sem við erum á öndverðum meiði við þá lítum við á það fólk sem góða félaga okkar. Við hleypum öllum röddum í loftið, líka þessum rasistaröddum Útvarps Sögu, þær komast líka í loftið hjá okkur. Okkur finnst það auðvitað siðlaust að það eigi að forðast einhverja umræðu, við getum ekki búið í rétttrúnaðarsamfélagi þar sem við getum ekki átt umræðu um hlutina,“ segir Máni.

Hann er mjög stoltur af þættinum sem hann og Frosti hafa gert að föstum punkti í degi þúsunda Íslendinga. Beinskeytt framkoma þeirra við viðmælendur hefur oft vakið athygli, þeir hafa hnakkrifist við Hannes Hólmstein Gissurarson og frægt er orðið þegar Máni spurði séra Bjarna Karlsson hvort Ólafur Skúlason biskup heitinn væri nú í helvíti. „Harmageddon er „one of a kind“, við ættum að vera löngu komnir í sjónvarp. Það sjá allir með greindarvísitölu yfir meðallagi. Íslenskur fjölmiðlamarkaður er því miður ekki orðinn það þroskaður að hann þoli að við séum að ráðast á ákveðna elítu í þessu landi. Það hefur enginn kvartað eins mikið yfir okkur og Biskupsstofa. Harmageddon er ekki að reyna að vera eitthvað sem hann er ekki, við erum ekki Tvíhöfði, við erum ekki Reykjavík síðdegis, við tökum okkur ekki of alvarlega, við erum bara fyrst og fremst að berjast fyrir réttlátu samfélagi. Við erum á móti öllu ranglæti í samfélaginu. Síðan er það fólks að dæma hvort okkar réttlæti sé ranglæti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór

Sjaldséð sjón – Börn Matthew McConaughey orðin svo stór
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður