fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Linda var barin nakin með blautu handklæði eftir hvern leikfimistíma: Vó 40 kíló á fermingardaginn

Auður Ösp
Föstudaginn 12. febrúar 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Skarphéðinsdóttir var lögð í grimmúðlegt einelti í grunnskóla sökum þess að hún þótti feit. Í kjölfarið þróaði hún með sér átröskun og segir hún að þær hugsanaskekkjur sem fylgi sjúkdómnum sé nær ómögulegt að losna við. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á lífsleiðinni hefur henni þó aldrei dottið hug að líta á sig sem fórnarlamb og hefur alltaf fundið leið til að halda áfram.

Lærði í 9 klukkutíma á dag

„Ég á einhverfan bróður og þegar ég var yngri var erfitt að hafa stjórn á heimilisaðstæðunum. Ofan á það bættist svo eineltið. Ég þurfti þess vegna að geta haft stjórn á einhverju og mínu tilfelli var það matur og líkamsþyngd,“ segir Linda í samtali við blaðamann DV.is.

Hún segist varla muna eftir sér öðruvísi en með kvíða og þunglyndi og það megi að miklu leyti rekja til nánast sjúklegrar fullkomnunaráráttu. „Ég fékk að sleppa við að taka próf á miðstigi í grunnskóla vegna kvíða sem olli andlegum og líkamlegum veikindum mest allan veturinn. Fullkomnunaráráttan var hræðileg, mér gekk illa að læra en ef ég lærði í tíu klukkustundir á dag eða 30 klukkustundir yfir helgina þá reddaðist þetta. Ég var alltaf mjög pirruð og óánægð með mínar sjöur og níur. Ég vildi alltaf vera betri,“ segir Linda en hún var ekki greind með lesblindu og sérstæka námserfiðleika fyrr en hún var að ljúka framhaldssskóla.

Uppnefnd rjómaterta

Hún segir að eftir að einelti af hálfu skólafélaganna hófst í þriðja bekk þá hafi kvíðinn og þunglyndið snaraukist. Eineltið hélt áfram næstu árin eða þangað til í áttunda bekk. Ástæðan var meðal annars sú að Linda var með nokkur aukakíló utan á sér. Hún minnist þess meðal annars að hafa verið kölluð „rjómaterta.“ Eineltið var miskunnarlaust að hennar sögn. „Það var hreytt í mig ógeðslegum orðum. Það var hent í mig snjókúlum, rusli, möl og sandi í frímínútunum og ég var barin nakin með blautu handklæði fyrir framan allar stelpurnar í nánast hverjum leikfimi og sundtíma.“

Linda var tæp 60 kíló og 164 cm á hæð. Haustið fyrir fermingu var hún orðin 40 kíló. „Ég man gleðina sem fyllti mig þegar ég sá þessa tölu á vigtinni. Ég hélt mér í þessari tölu í þrjú ár. Æfði fótbolta fimm sinnum í viku, fór í ræktina fimm til sjö sinnum í viku, skíði, skauta og stundaði hlaup.“ Hún segir mataræðið hafa að mestu leyti verið samsett af seríos, gulrótum og öðru smálegu. „Ég borðaði aldrei neitt eftir klukkan sex og það var mjög mikilvægt að ég færi alltaf svöng að sofa.“

Hún segir að í kjölfar þess að kílóin láku af henni hafi viðbrögð allra í kringum hana ekki látið á sér standa. „Enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig ég fór að þessu þar sem ég borðaði varla. Það fyndnasta við þetta allt var að strax um fermingu varð ég vinsæl, ég heyrði suma strákana tala um hversu vel ég liti út. Aðrir sögðu mér að kaupa mér nýjan sundbol þar sem ég væri eins og beinagrind og minn væri við það að detta niður um mig. Stelpan sem barði mig eftir tíma hætti og vildi vera vinkona mín.“

Eignaðist vini í VMA

Þegar grunnskólagöngu lauk fór Linda í Verkmenntaskólann á Akureyri og segir það hafa verið einhverja bestu ákvörðun ævi sinnar. „ Ég eignaðist fullt af vinum þar þrátt fyrir að vera ekki í bekkjarkerfi og vera félagsfælin. Fór í partí, djammaði og útskriftarferð með þeim. Núna,fimmtán árum seinna er ég að fara í sumarbústaðarferð með fimm af þeim stelpunum sem ég kynntist þar.“

Hún segir að í kjölfar þess að hún byrjaði í Verkmenntaskólanum hafi átröskunin tekið á sig nýja mynd. „Ég hætti að hugsa um mataræðið og fór að borða eins og hinir. Í kjölfarið þróaði ég með mér ofát og þyngdist mikið. Ég eignaðist kærasta sem vann á pizzastað þannig að það var stutt í freistingarnar. Mér leið betur að mörgu leyti en sjálfsmyndin var ennþá í algjöru rusli.“ Hún bætir við að enn í dag sé oft stutt í þá sjúku hegðun og hugsanir sem fylgi átröskuninni. Rétt eins og margir leiti hún í mat til að bæla slæmar tilfinningar og einnig þegar að tilefni er til að gleðjast. „Ég hef rokkað mikið til í þyngd í gegnum árin og þetta er eilíf barátta. Ég ferðaðist mikið á tímabili í tengslum við námið mitt og fór meðal annars til Asíu og Afríku. Þar var mjög auðvelt að rokka upp og niður.“

Gat ekki litið í spegil

Linda er í dag í sambandi og á litla dóttur. „Ég flutti til Íslands árið 2010 og léttist þá um 40 kíló. Ég ætlaði aldrei að verða ólétt því þá yrði ég svo feit. Ég þyngdist gríðarlega og hef ekki enn náð þeim kílóum af mér. Á meðgöngunni leið mér einsog ógeði. Ég gat varla litið í spegil, innst inni vissi ég að það var barn að þroskast og stækka en ég vildi helst ekki láta mynda mig. Nánast um leið og stelpan mín var fædd var ég farin að hugsa um hvernig ég gæti losnað við öll þessi óléttukíló með hinu og þessu lágkolvetnafæði og kúrum.“

Það var síðan nýlega að Linda sá að sér og ákvað að breyta hugsunarhætti sínum. Dóttir hennar var orðin eins árs og Linda ákvað að hún ætlaði að vera góð fyrirmynd fyrir hana. „Ég ákvað að reyna hugsa ekki um þetta fyrr en ég væri búin að eiga þau börn sem ég ætla að eiga. Reyna að hætta kúrum, borða hollan og fjölbreyttan mat, borða kjöt, grænmeti og þessi hræðilegu kolvetni sem ég hef forðast einsog heitan eldinn síðstu ár. Ég óska þess að dóttir mín geti alist upp með eðlilegar hugmyndir um mat og matur muni ekki stjórna hennar lífi,“ segir hún. „Það er í sjálfu sér fáránlegt að ég gefi henni kjöt og kartöflur á meðan hún horfir upp á mömmu sína borða eintómt kál.“

Linda er ennþá í dag að vinna úr fortíðinni. Sumir dagar ganga ágætlega að hennar sögn en svo koma dagar sem einkennast af álagi og áhyggjum og þá er auðvelt að láta hlutina fara úr böndunum. „Það hefur hjálpað mér mikið að sækja í reglulega hreyfingu og að hafa rútínu. Hjá mér er það crossfit. Eins er gott að skrifa sig frá hlutunum og koma tilfinningum og líðan á blað. Það er mjög hreinsandi.“

Hún segist aldrei hafa litið á sig sem fórnarlamb eða óskað eftir samúð eða vorkunn frá fólki. „Sama hvað þú ert að ganga í gegnum þá skiptir máli að gefast ekki upp og bara „keep going.“ Það er alltaf von.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir