fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Dagur í lífi Þrastar Leó Gunnarssonar: „Ætli ég sé ekki svona grannur út af þessu?“

-fiskibollur, kjöt, kapall og einfaldleikinn sem reynist yfirleitt bestur

Margrét Gústavsdóttir
Þriðjudaginn 26. desember 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þröstur Leó Gunnarsson fæddist þann 23. apríl árið 1961 á Bíldudal. Hann er sonur Vilborgar Kristínar Jónsdóttur ljósmóður og Gunnars Knúts Valdimarssonar sem var lengi þekktur sem bíóstjórinn í þorpinu. Þröstur átti fimm systkini en elsti bróðir hans, Rúnar, lést úr hrörnunarsjúkdómi árið 2012. Þröstur lauk níunda bekk frá gagnfræðaskólanum á Selfossi og hélt þá aftur til Bíldudals þar sem hann vann á sjó og við beitingar til nítján ára aldurs. Þá fór hann til Reykjavíkur og hóf nám við Leiklistarskóla Íslands sem hann lauk svo árið 1985. Síðan hefur Þröstur Leó misst töluna á þeim verkum og kvikmyndum sem hann hefur tekið þátt í. Á annan dag jóla verður Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson frumsýnt í Þjóðleikhúsinu en þar verður hann í aðalhlutverki. Þröstur býr í Álftamýri ásamt eiginkonu sinni, Helgu Sveindísi Helgadóttur rithöfundi, og dóttur þeirra Maríu, tólf ára. Fyrir á hann fjögur börn úr fyrra hjónabandi; Vilborgu, Silju, Pálínu og Guðmund og svo fósturdæturnar Sólveigu og Gauju.

07.00

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Mamma lagði ríka áherslu á það við mig að vera alltaf stundvís. Ég var í fjögur ár í leiklistarnámi og kom bara einu sinni of seint, það var þegar fyrsta dóttir mín fæddist. Stundvísin hefur reynst mér mjög vel í starfinu enda verulega óheppilegt að vera óstundvís leikari.

Besta ráð sem þú getur gefið öðrum?

Bara að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra. Koma heiðarlega fram, sleppa leyndarmálum og feluleikjum. Koma hreint til dyra.

Hvað vildir þú að þú hefðir vitað fyrr?

Ég vildi að ég hefði vitað að leiklistin er ekki eins flókin og ég hélt í fyrstu. Maður var allaf að rembast við að gera of mikið en einfaldleikinn reynist yfirleitt bestur.

Venjulegur dagur byrjar um klukkan sjö eða hálf átta, ég vek dóttur mína og keyri hana í Vesturbæjarskóla. Sjálfur borða ég engan morgunmat en ég gef henni yfirleitt bara það sem hana langar í, það er oftast einhver grautur eða svoleiðis. Yfirleitt fer ég beint niður í leikhús þegar ég er búinn að skutla henni en æfingar byrja um klukkan tíu á morgnana. Á fyrstu æfingum er bara setið og lesið en eftir einhvern tíma byrjum við að æfa litlar senur og samtöl. Þess á milli er maður að læra textann sinn, það er að segja ef maður er með einhvern texta að ráði. Þessa dagana erum við á lokametrunum fyrir Hafið en þar leik ég Þórð, útgerðarstjórann sem er kominn með heilablæðingu og kallar börnin til sín til að opinbera eitthvað fyrir þeim sem svo kemur í ljós. Nú hafa verið rennsli öll kvöld fram að Þorláksmessu frá klukkan átta til ellefu því verkið verður frumsýnt annan í jólum.

12.00

Stundum er ég ekkert svangur í hádeginu og get þá bara sleppt því að borða þangað til um kvöldið. Borða sem sagt ekkert yfir daginn sem mörgum hefur þótt undarlegt. Það fer alveg eftir því hvað er í matinn í mötuneytinu hvort mig langar í það eða ekki. Fiskibollur og slíkt, ég nenni ekki að borða það. Ef ég fæ mér fisk þá þarf ég oftast að fá mér kjöt svona klukkutíma síðar. Ætli ég sé ekki svona grannur út af þessu? Ég borða eiginlega bara kjöt.

16.00

Æfingar eru vanalega búnar um fjögur og þá fer ég heim að taka á móti dóttur minni sem kemur úr skólanum um það leyti. Ég sé vanalega um matinn á heimilinu og það er ekki óvanalegt að við séum að borða kvöldmatinn um klukkan fimm síðdegis. Þótt ég borði frekar kjöt en fisk þá finnst mér ótrúlega gaman að elda fisk. Sólkola, skötusel og þess háttar. Það er samt auðvelt að eyðileggja fisk með því að klúðra eldamennskunni. Aðallega með ofeldun, þá verður hann eins og einhver þurr og bragðlaus pappi.

18.00

Við klárum oftast að borða svona um klukkan sex og ef ég er ekki að fara í leikhúsið aftur þá er bara eitthvað venjulegt afslappelsi sem tekur við um. Kannski horfum við á mynd eða einhverja þætti sem við getum öll dottið inn í. Síðast voru það Stranger Things sem dóttir mín er mjög hrifin af, og reyndar ég líka. Þetta voru ágætir þættir.

01.00

Mér finnst yfirleitt ekki taka því að fara inn í rúm að sofa fyrr en eftir miðnætti svo oft hangi ég í tölvunni fram eftir, legg kapal, skoða vídeó og eitthvað. Vinnutíminn hjá mér er líka svo skrítinn að það er enginn sérstök regla á lífinu. Lífsstíllinn ræðst af leikhúsinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 13 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?