Hljómsveitin Austurland að Glettingi gaf út nýtt lag um helgina. Nýverið gáfu þeir út sitt fyrsta lag í rúma þrjá áratugi þannig að það er mikið að gerast hjá sveitinni um þessar mundir eftir langt hlé.
,,Það er gaman að gefa þetta lag út núna á þessum tíma árs af því þetta lag var samið snemmsumars fyrir nokkrum árum þegar ég var um tvítugt og manni fannst maður vera ósigrandi. Ég býst við því að margir ungir menn um tvítugt tengi við það. Í minningunni var alltaf gott veður, alltaf gaman og allt spennandi og skemmtilegt. Allt lífið framundan og fullorðinsárin í raun rétt að byrja, endalausir möguleikar,” segir Björgvin Harri Bjarnason en auk hans eru í sveitinni þeir Björn Hallgrímsson og Valgeir Skúlason.
,,Við sem búum á Íslandi erum svo heppin að við höfum í langflestum tilfellum raunverulega möguleika á því að gera það sem okkur langar (sbr. texti lagsins). ,,Hvað ætla ég að gera við líf mitt ?“ er í raun spurningin sem maður stendur frammi fyrir en samt hefur maður smá break þarna á þessum tímapunkti til að hafa bara gaman, verða skotinn í einhverri stelpu einu sinni á dag, en fara svo bara á kvöldin í eitthvað ótrúlega skemmtilegt aktivitet með vinum sínum og sleppa sér og hafa ekki áhyggjur af neinu í lífinu. Þetta er svoleiðis lag, bara orka út í eitt. Þetta lag er í rauninni óður til síðustu augnablika æskunnar og allrar gleðinnar sem fylgir þessum tíma. Þess vegna heitir lagið Springa,” segir Björgvin Harri.