Allt er sagt loga innan Beckham-fjölskyldunnar og hafa helstu slúðurmiðlar heimsins verið duglegir að greina frá gangi mála bak við tjöldin. Hermt er að bræðurnir, Brooklyn og Romeo, talist ekki við útaf núverandi kærustu hins síðarnefnda, Kim Turnbull. Kim var áður að slá sér upp með Brooklyn áður en hún endaði í örmum yngri bróðursins og er Brooklyn sagður allt annað en sáttur með ráðahaginn.
Sjá einnig: Rígur milli Beckham-bræðra – Talast ekki við
Öllu alvarlegra er meint kalt stríð milli eiginkonu Brooklyn, Nicola Peltz og móður hans, Victoriu Beckham. Samband þeirra er sagt með afbrigðum vont og deilurnar gert það að verkum að Brooklyn hefur fjarlægst fjölskyldu sína, eitthvað sem veldur foreldrum hans hugarangri.
Í nýbirtri Instagram-færslu tók Brooklyn af öll tvímæli með hverjum hann stendur. Hann birti myndband af sér og Nicola á mótorhjóli og meðfylgjandi orð til eiginkonunnar:
„Allur heimur minn. Ég mun elska þig að eilífu. Ég vel alltaf þig, ástin. Þú ert ótrúlegasta manneskja sem ég hef hitt, ég veit það. Ég og þú að eilífu elskan“
Svo mörg voru þau orð og gera þau lítið til að slá á orðróma þess efnis að Victoria og David séu að missa elsta soninn frá sér.