

Tónleikarnir sem um ræðir voru haldnir í Boston þann 16. júlí síðastliðinn. Á tónleikunum var notuð svokölluð kossavél (e. kiss cam) til að varpa upp myndum af ástföngnum tónleikagestum.
Þegar myndavélin beindist að Kristin og yfirmanni hennar, Andy Byron, krossbrá þeim. Þau höfðu verið í innilegu faðmlagi en þegar myndavélin beindist að þeim sneri Kristin sér hratt við og Andy nánast kastaði sér til hliðar. Enda voru þau bæði gift, og það ekki hvort öðru.
Hingað til hefur Kristin ekki tjáð sig um málið en það gerir hún hins vegar í dag í viðtali við New York Times. Hún segir að um mistök af sinni hálfu hafi verið að ræða, þau hafi verið undir áhrifum áfengis og þau hefðu aldrei átt í kynferðislegu sambandi.
„Ég tók slæma ákvörðun, drakk nokkra High Noon-drykki og dansaði og hegðaði mér óviðeigandi með yfirmanni mínum,“ sagði hún í viðtalinu. Hún bætir við að hún hafi axlað ábyrgð, hætt störfum í fyrirtækinu og hálfpartinn fórnað ferli sínum.
Hún segir að málið og öll athyglin sem á eftir fylgdi hafi reynst henni erfið. Bendir hún á að hún hafi ítrekað verið niðurlægð á netinu, frægir einstaklingar hafi gert grín að henni og hún kölluð „hórkona“ (e. adulterer) af ókunnugum einstaklingum sem hún hefur rekist á á almannafæri. Þá segist hún hafa fengið yfir 60 líflátshótanir.
Í viðtalinu viðurkennir hún að hafa verið skotin í Byron og verið spennt að kynna hann fyrir vinum sínum, en fullyrti að þau hefðu ekki einu sinni kysst hvort annað áður en þetta örlagaríka kvöld rann upp. Þau kysstust á VIP-svölum á tónleikunum og segir Kristin að það hafi verið í fyrsta og eina skiptið sem það gerðist.
Hún og eiginmaður hennar, Andrew, voru skilin að borði og sæng en skilnaðurinn var ekki formlega genginn í gegn. „Ég vil að börnin mín viti að þú getur gert mistök, jafnvel klúðrað hlutunum illilega, en það á enginn skilið að vera hótað lífláti fyrir þau.“
Kristin og Byron voru bæði starfsmenn gervigreindarfyrirtækisins Astronomer og var þeim eðlilega mjög brugðið þegar myndin af þeim birtist á risaskjánum. Strax í kjölfarið hefðu þau farið á barinn á tónleikastaðnum og rætt saman um hvernig væri best að bregðast við málinu. Úr varð að þau fóru heim til hennar og sömdu tölvupóst sem þau sendu svo stjórn Astronomer morguninn eftir.
En þá var skaðinn skeður og myndband af þeim farið sem eldur í sinu á TikTok. Bæði Byron og Cabot voru þegar í stað send í leyfi af Astronomer á meðan fyrirtækið rannsakaði málið. Skömmu síðar sagði Byron af sér sem forstjóri og Kristin sagði síðan upp störfum.