

Auglýsingin sýnir föður og ungan son velja „leynilega“ gjöf handa móðurinni fyrir að vera góð og umhyggjusöm. Myndbandið endar á því að móðirin opnar gjöfina, steikarpönnu, sem hún virðist vera mjög ánægð með.
Óhætt er að segja að viðbrögð netverja hafi verið blendin. Sumir segja auglýsinguna viðhalda staðalmyndum um hlutverk mæðra og að gjöfin sé óviðeigandi, á meðan aðrir verja hana og segja hagnýtar heimilisgjafir bæði nytsamlegar og eftirsóknarverðar.
„Steikarpanna?!! Mamma vill skilnað,“ segir til dæmis í einni athugasemdinni.
„Kæri John Lewis. Engar mæður vilja fá steikarpönnur frá ástvinum sínum um jólin. Kveðja, allar konur,“ sagði í annarri.
Í frétt Daily Mail kemur fram að Will Warr hafi verið hugmyndasmiðurinn á bak við auglýsinguna en hann nýtur talsverðrar virðingar í sínu fagi á Bretlandseyjum. Stungu einhverjir upp á því að næst ætti fyrirtækið að fá konu í auglýsingateymið.
Ekki eru þó allir sammála þessari gagnrýni.
„Jólagjöfin mín í fyrra var Ninja-loftsteikingarpottur sem ég valdi og ég elska hann,” sagði einn. „Ég vildi óska að einhver keypti handa mér dýrt sett af pönnum,“ sagði svo annar.