fbpx
Fimmtudagur 11.desember 2025
Fókus

Kommentakerfi Jerusalem Post logar eftir Eurovision-ákvörðun Íslendinga

Fókus
Fimmtudaginn 11. desember 2025 10:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að sprengju hafi verið varpað í Eurovision-samfélagið í gær þegar tilkynnt var að Ísland muni ekki taka þátt í keppninni á komandi ári.

Var það ákvörðun framkvæmdastjórnar RÚV að taka ekki þátt, en samkvæmt tilkynningu hennar hefur þátttaka ísraelska ríkissjónvarpsins, KAN, í keppninni valdið óeiningu, bæði á meðal aðildarstöðva Samtaka evrópskra útvarpsstöðva, EBU, og almennings.

Ísraelski fjölmiðillinn Jerusalem Post fjallaði um þessa niðurstöðu í gær og vísaði meðal annars í orð Stefáns Eiríkssonar í umfjöllun sinni.

Sjá einnig: Ísland ekki með í Eurovision 2026

Margir hafa lagt orð í belg við frétt miðilsins, en miðað við tóninn má ætla að þar séu Ísraelsmenn, eða stuðningsmenn þeirra, í meirihluta þeirra sem láta í sér heyra.

Ætlar ekki til Íslands

Hér að neðan má sjá brot úr umræðunni en margir eru þeirrar skoðunar að Íslands verði ekki sérlega sárt saknað úr keppninni.

„Vá, Ísland. Við munum sakna ykkar. Núll stig til landsins sem hefur aldrei unnið neina alþjóðlega keppni,“ segir einn.

„Ég heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum. Fallegt land og stórbrotin náttúra og fólkið var mjög vingjarnlegt. Augljósa vandamálið er að ríkisstjórn þess er ekki með bein í nefinu. Eins og svo mörg önnur lönd. Ísrael mun aðeins verða sterkara og sterkara,“ segir annar.

„Hvað með það? Ísrael er þarna en ekki Ísland,“ segir svo enn annar.

Annar segist síðan hafa séð Eurovision-myndina með Will Ferrell sem var tekin að stórum hluta upp á Íslandi. „Hún var ekki fyndin þá og Íslands verður ekki saknað.“

„Eftir því sem fleiri lönd sem eru fjandsamleg Ísrael draga sig úr keppni, aukast líkurnar á sigri Ísraels. Annars vegar vegna þess að andstæðingarnir verða færri, og hins vegar vegna þess að þeir sem bera andúð til Ísraels munu ekki hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna,“ segir svo í einni athugasemd.

„Þetta er frábært! Ísland er augljóslega að draga sig úr keppni vegna þess að þeir vita að þeir geta ekki unnið þessa keppni,“ segir svo annar.

„Hef aldrei ferðast þangað og mun aldrei gera það. Ætla að eyða peningunum mínum annars staðar,“ segir svo enn annar og aðrar athugasemdir í svipuðum dúr.

Viðbrögðin allt önnur á Íslandi

Miðað við viðbrögð á samfélagsmiðlum hér á landi eru Íslendingar almennt mjög sáttir við ákvörðunina.

Rímar það við niðurstöður skoðanakönnunar Prósents frá því í október þar sem fram kom að tveir þriðju svarenda vildu að Ísland myndi hætta við þátttöku í Eurovision ef Ísrael yrði meðal þátttökuþjóða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt