

Leikarinn Danny Masterson sló í gegn í vinsælu unglingaþáttunum That ’70s Show sem voru í loftinu á árunum 1998-2006. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og leikarinn er nú betur þekktur sem nauðgari og situr á bak við lás og slá.
Sjá einnig: Danny Masterson dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir nauðganir
Masterson var árið 2023 dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir hrottaleg brot gegn tveimur konum skömmu eftir aldamótin. Nokkrum mánuðum síðar sótti eiginkona hans, Bijou Phillips, um skilnað. Skilnaðurinn er nú loksins frágenginn og hefur Phillips farið fram á nafnabreytingu á barni þeirra sem það beri hennar eftirnafn en ekki leikarans. Þetta mun hafa verið leikaranum mikið áfall og er hann nú talinn í sjálfsvígshættu.
„Þessi krafa kom Danny alfarið að óvörum. Hann hefði aldrei trúað því að Bijou yrði svo grimm að losa sig alfarið við hann með þessum hætti. Hann er nú þegar á mjög dimmum stað og á erfitt líf í fangelsinu,“ segir heimildarmaður Enquirer.
„Nú telja menn að hann sé svo niðurdreginn og þunglyndur að hann gæti gripið til örþrifaráða og reynt að svipta sig lífi. Hann hefur svo lítið, ef nokkuð, til að lifa fyrir núna og þetta seinasta bakslag virðist hafa hrint honum alveg fram af brúninni.“
Leikaranum þótti víst nógu erfitt að komast að því að Bijou væri tekin saman við nýjan mann, frumkvöðulinn Jamie Mazur.
„Hann átti þegar erfitt með tilhugsunina um að hún væri með einhverjum öðrum en nú þegar hún hefur farið fram á að hann verði strokaður út úr lífi dóttur þeirra þá er það mun verra högg. Líf hans er orðið að helvíti svo það kemur ekki á óvart að hann sé að missa lífsviljann.“
Sjá einnig: Hrottalegar lýsingar í kynferðisbrotamáli Danny Masterson og ógnvekjandi viðbrögð Vísindakirkjunnar
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.