

Símon rekur að hér hafi leikstjórinn, Kolfinna Nikulásdóttir, reynt að setja Hamlet í nútímalegan búning. Niðurstaðan sé þó sú að nútíminn fái að kæfa allt það besta við leikverkið fræga. Hamlet sé ekki lengur efahyggjumaður með frestunaráráttu YouTube-er með ADHD sem byrjar stundum óvænt að tala á ensku eða rappa. Danaveldi er nú einhvers konar óræð staðleysa og atriðinu fræga – þar sem Hamlet heldur á höfuðkúpu og veltir fyrir sér hvort betra sé að lifa eða deyja – er sleppt. Persónur syngja um tilfinningar sínar með popplögum og dauði Ófelíu þróast í furðulegan teknódans.
„Lokauppgjörið, þar sem enginn virtist vita hvað hann átti að vera að gera, svo í staðinn mökuðu sig bara allir út í blóði og þóttust vera dauðir,“ skrifar gagnrýnandinn sem á tímum þótti sviðsetningin svo yfirdrifin að hann veltir því hreinlega fyrir sér hvort leikstjórinn hafi verið að gera grín að Shakespeare. Þema verksins um njósnir komist illa til skila því persónurnar eru sífellt að taka sjálfur og nektarmyndir til að birta á netinu.
Símon er þó ekki alfarið neikvæður. Hann hrósar Hilmi Snæ Guðnasyni og Sólveigu Arnardóttur fyrir frammistöðu þeirra í hlutverkum Kládíusar og Geirþrúðar. Þau hafi verið Shakespeare til sóma. Þeim takist þó ekki að bjarga heildarmyndinni.
„Hvorki Hilmir Snær né Sólveig ná hins vegar að bjarga heildarmyndinni, þau eru látin kjamsa á orðunum „að vera eða ekki vera“ í lokin – eins og aðrar persónur verksins. Orð sem verða fyrir vikið gjörsamlega merkingarsnauð.“
Lokaniðurstaða gagnrýnandans er að hér sé á ferðinni útvötnuð útgáfa af Hamlet sem eigi að höfða til yngri kynslóðanna. Hann hrósar leikstjóranum fyrir að þora þessu en líklega muni dyggir aðdáendur Shakepeare verða fyrir vonbrigðum. Hér hafi fínni blæbrigði fengið að víkja fyrir hamagangi.