Hlustaðu á þáttinn á Spotify eða öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Hafdís kemur úr stórri, blandaðri og samheldinni fjölskyldu. Hún flutti á Blönduós þegar hún var 11 ára og lá leiðin í Menntaskólann á Laugarvatni.
„Ég er rosaleg íþróttamanneskja og mig langaði á íþróttabraut, fór þangað beint eftir grunnskóla og þetta kom mér svo á óvart því þetta var mesta djammsukkógeð sem ég hef á ævinni upplifað. Ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum þannig ég entist þar bara í hálft ár,“ segir hún. Hafdís var sérstaklega öflug í fótbolta og æfði af kappi.
Hafdís flutti til ömmu sinnar í Borgarnes og keyrði á Akranes í Fjölbrautaskólann á Vesturlandi. Hún eignaðist fljótlega kærasta og stuttu síðar breyttist lífið. Sautján ára gömul varð hún ólétt og hún man ennþá eftir deginum þegar hún fékk jákvætt próf.
„Ég var að drepast í maganum og fór úr tíma til að fara til læknis. Þar kom í ljós að ég var ólétt og ég grét úr mér augun. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, en ég fór beint aftur í skólann. Ég fór í eitthvað blakkát, ég grét ógeðslega mikið, labbaði síðan bara út í bíl og fraus einhvern veginn. Fór í skólann, ætlaði að fara í næsta tíma en svo fann ég að það væri eitthvað að gerast inn í mér. Ég labbaði út, hljóp upp til skólastjórans, settist niður hjá honum og fór að grenja,“ segir Hafdís.
Skólastjórinn var frekar hissa og spurði hvort hann ætti að hringja í einhvern fyrir hana. „Ég sagði grátandi: „Nei, þetta er ónýtt, ég er ólétt.“ Ég bara grét,“ segir Hafdís kímin.
Hafdís viðurkennir að hún og barnsfaðir hennar hafi verið alltof ung fyrir þessa ábyrgð en þau ákváðu að eiga barnið. „Við eigum bæði mjög góðar fjölskyldur og það voru allir tilbúnir að hjálpa okkur. Hræðslan var þá miklu minni. Við vorum með mjög góðan stuðning,“ segir hún.
Þau byrjuðu að búa og undirbúa sig fyrir foreldrahlutverkið. Þetta var sérstakur tími, vinkonur Hafdísar voru að gera það sem sautján og átján ára unglingar gera; voru í skóla, stunda íþróttir og félagslíf. Enginn tengdi við það sem hún var að ganga í gegnum og upplifði hún sig eina.
„Mjög, alveg svakalega mikið. Ég reyndi að halda mér á æfingum og hitta stelpurnar en ég var í áhættumeðgöngu því ég var alltaf að fá fyrirvaraverki, þannig ég mátti ekki æfa og þurfti að hætta öllu og varð mjög þung. Síðan eignaðist ég hann á átjánda aldursári og fékk ótrúlegt fæðingarþunglyndi.“
Á þessum tíma vissi Hafdís ekki hvað fæðingarþunglyndi væri, hafði aldrei heyrt um það og fann fyrir mikilli skömm að líða svona.
„Þetta er ótrúleg skömm, sérstaklega hjá manni sjálfum, því þetta á að vera fallegasti tíminn og þú átt að tengjast barninu þínu svo mikið. Það eru gerðar svo miklar væntingar og þegar maður finnur ekki þetta þá einhvern veginn, fer maður í svo mikið niðurrif og vindur upp á þunglyndið og skömmina og maður er ekkert að segja frá þessu.“
Sem betur fer fékk Hafdís góða hjálp og mikinn stuðning. „Það sem hjálpaði mér eiginlega mest var að byrja að hreyfa mig aftur,“ segir hún.
Hafdís byrjaði að stunda líkamsrækt og fann mikinn mun á sér andlega, sjálfstraustið kom aftur og fljótlega fór hún að sýna einkaþjálfun og fitness áhuga. Boltinn byrjaði að rúlla og á Hafdís að baki glæsilegan feril í atvinnufitness.
Hafdís og barnsfaðir hennar eignuðust tvo drengi til viðbótar, fædda 2007 og 2010. Sá elsti fæddist árið 2005. „Það var smá pakki en ég hef aldrei upplifað að ég sjái eftir eða uppgjöf með börnin mín. Þetta er svo góð rútína. Þetta er bara borða rétt, hreyfa sig og sofa, þá eru allir góðir,“ segir hún.
Þau skildu árið 2015 og kynntist Hafdís seinni barnsföður sínum ári síðar. „Við ætluðum að koma með eitt barn í viðbót, en það komu tveir strákar með sextán mánaða millibili,“ segir hún brosandi. Yngsti drengurinn var að byrja í fyrsta bekk og sá elsti er tvítugur. Hafdís segir að drengirnir gefi henni orku og halda henni ungri. „Þetta er yndislegt,“ segir hún.
Síðustu tvö árin hafa verið erfið fyrir Hafdísi. Hún missti bestu vinkonu sína, Hrönn Sigurðardóttur, í júní 2023 og hafa fleiri erfiðleikar komið upp sem fólk veit ekki af, enda deilir Hafdís ekki öllu lífi sínu á samfélagsmiðlum heldur aðeins brotabroti af daglegu lífi.
Hafdís segir að það sé búið að vera strembið að vera þekkt og að ganga í gegnum svona erfitt tímabil, því fólk leyfir sér að segja ótrúlegustu hluti um hana á samfélagsmiðlum.
„Eins og þegar ég var að ganga í gegnum sambandsslitin, þetta var ógeðslegasti tími sem ég hef á ævinni upplifað. Ég fór ekki út úr húsi nema tilneydd í tvo mánuði, svo að sjá fólk gera grín og hlæja og bara tilhlökkun í þeim yfir þessu öllu saman. Mér fannst þetta ljótt. Þetta var ógeðslegt og ég fékk ótrúlegt ógeð af fólki, því það var sama hvað ég reyndi að hunsa þetta, þá fékk ég send skjáskot eða sá eitthvað þegar ég var að skrolla á Facebook eða Instagram,“ segir hún.
„Það sem ég vil er að fólk hugsi sig aðeins um, því ég var þarna á mjög svörtum stað. Ég viðurkenni það alveg, og að fá þetta síðan ofan á það. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki börnin mín og fjölskyldu mína og vini, því þetta var ógeðslega ljótt. Fólk hugsar ekkert, maður er mannlegur. Maður er alveg að díla við sama viðbjóð og næsti.“
Hafdís er að koma sér aftur á ról. „Ég er að njóta með strákunum mínum og koma fótum aftur undir mig. Ég týndi mér alveg, en ég er hægt og rólega farin að æfa aftur og koma mér í gírinn.“
Hlustaðu á þáttinn með Hafdísi á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgdu Hafdísi á Instagram.