Höfundar Áramótaskaupsins 2024 verða þau Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Friðgeir Einarsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Ólafur Ásgeirsson, Hugleikur Dagsson og María Reyndal sem einnig er leikstjóri og yfirhandritshöfundur. Kemur þetta fram í tilkynningu frá RÚV.
María Reyndal hefur verið með afkastamestu höfundum okkar á liðnum árum og skrifað handrit og leikstýrt fyrir leikhús, útvarp og sjónvarp. Hún skrifaði t.d. verðlaunaleikritin Sóley Rós ræstitæknir, Er ég mamma mín og Með Guð í vasanum, leikstýrði og skrifaði útvarpsleikritið og síðan sjónvarpsmyndina Mannasiði og var einn leikstjóra sjónvarpsþáttaraðarinnar Verbúðin. Jafnframt var hún meðal handritshöfunda grín- og gamanþáttanna Stelpurnar, Ástríður og Ríkið. Nú tekur María í annað sinn þátt í að skrifa skaupið og segist spennt fyrir verkefninu.
„Það er heiður að fá að tala beint við þjóðina í þessum vinsælasta sjónvarpsþætti landsmanna. Við erum búin að fara í gegnum margt á árinu og þarna höfum við tækifæri til að sameinast og spegla okkur sjálf og gleðjast saman. Skaupið á að vera fyrir alla aldurshópa, þverpólitískt og tikka í öll box sem er að sjálfsögðu ómögulegt. Og nú var náttúrlega allt að fara af stað í pólitíkinni sem við hlökkum til að takast á við í handritsvinnunni, hópurinn þarf heldur betur að vera á tánum þessa dagana,“ segir María og brosir. „Sem betur fer er ég að vinna með framúrskarandi fólki og við erum öll að vanda okkur í vinnunni og hlæjum mikið,“ bætir María við og skellihlær.
Skrifteymið er afar fjölbreytt og vandlega samsett af efnilegu hæfileikafólki í bland við annálaða reynslubolta í handritsskrifum, uppistandi og annars konar framleiðslu á gríni.
Friðgeir Einarsson er leikari, rithöfundur og leikskáld sem hefur bæði einn síns liðs og með hinum annálaða leikhópi Kriðpleir skrifað og leikið í fjölda verka fyrir leiksvið og Útvarpsleikhúsið. Hann er að taka þátt í gerð Skaupsins í annað sinn.
Hugleikur Dagsson skopmyndateiknari er Íslendingum að góðu kunnur en hann er vel þekktur fyrir uppistand og handritaskrif. Hugleikur er nú í sjötta sinn í handritsteymi skaupsins.
Katla Margrét Þorgeirsdóttir er ein ástsælasta gamanleikkona landsins. Hún hefur komið víða við og er nú í handritsteymi skaupsins í sjöunda skipti. Líkt og María var hún einn handritshöfunda Stelpnanna, gamanseríunnar Ástríður og sketsaseríunnar Ríkið.
Salvör Gullbrá útskrifaðist frá Sviðslistabraut LHÍ 2019 og hefur síðan komið víða við í leikstjórn, handritaskrifum og uppistandi. Þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í að skrifa skaupið margfræga.
Sveinn Ólafur Gunnarsson leikari og handritshöfundur hefur getið sér gott orð í leikhúsi og kvikmyndum. Hann hefur nú í auknum mæli snúið sér að handritaskrifum. Hann skrifaði m.a. handrit sýningarinnar Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar ásamt Ólafi Ásgeirssyni en þeir félagar eru báðir í handritsteymi skaupsins í ár. Ólafur er einnig leikari en hann hefur kennt spunatækni og starfað með Improv Ísland spunahópnum í mörg ár.
Framleiðandi skaupsins í ár er Ingimar Guðbjartsson en hann hefur meðal annars komið að framleiðslu kvikmyndanna Snerting og Northern Comfort auk annarra verka. Hann var framkvæmdarstjóri við tökur á Áramótaskaupinu 2018.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarpsins, er hæstánægður með hópinn sem gerir skaupið í ár. „Við finnum auðvitað fyrir pressunni sem fylgir því að búa til grín sem nánast allir landsmenn bíða spenntir eftir um hver áramót. Þess vegna leggjum við áherslu á að kalla árlega til okkar allra frambærilegasta fólkið á grín- og leiksviðinu, hæfileikafólk með eins breiðan og ólíkan bakgrunn og kostur er. Við erum þess fullviss að það hafi enn og aftur tekist í ár,“ segir Skarphéðinn.
Hópurinn er nú önnum kafinn við skriftir en tökur hefjast í nóvember og þá klipping og eftirvinnsla svo allt verði klappað og klárt þegar þjóðin sest fyrir framan sjónvarpið á gamlárskvöld.