Allt er gott sem endar vel. Þetta orðatiltæki rifjuðu margir upp þegar söngkonan Jennifer Lopez og leikstjórinn Ben Affleck létu pússa sig saman. Þau ætluðu fyrst að gifta sig skömmu eftir aldamótin en áður en af því varð fjaraði undan fæti. Áhugi almennings og ágangur fjölmiðla reyndist þeim ofviða og héldu þau í sitt hvora áttina þar sem þau fundu sér nýja maka og stofnuðu sitt hvora fjölskylduna.
Það hitti svo á að árið 2021 voru þau bæði einhleyp og náðu að tendra neistann að nýju. Paranafnið þeirra frá því um aldamótin, Bennifer, lifði aftur góðu lífi. Aðdáendur voru í skýjunum og svo virtist sem að kötturinn væri að koma sér kirfilega fyrir í mýrinni. Það þýðir þó ekki að fagna of snemma, kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Nú fer sögum af því að Bennifer séu aftur að sigla í strand.
Fjölmiðlar hið ytra greina frá því að söngkonan sé flutt út af sameiginlegu heimili hennar og Ben og stefni allt í skilnað.
„Þau stefna í skilnað og til tilbreytingar er það ekki Ben að kenna,“ segir heimildarmaður InTouch.
Aðdáendur tóku eftir því að hjónin sáust varla saman lengur. Leikstjórinn mætti ekki með konu sinni á hátíðina Met galakvöldið, þrátt fyrir að hún spilaði þar stórt hlutverk. Hjónin gáfu þá skýringu að Ben væri hreinlega of upptekinn en samkvæmt heimildarmanni er þó leiðinlegri skýring hér á ferðinni. Ben sé kominn með nóg af konu sinni.
„Þau munu aldrei hætta að elska hvort annað, en hún getur ekki stjórnað honum og hann getur ekki breytt henni. Það er bara ómögulegt að þetta geti gengið upp.“
Hjónin nálgast frægðina með ólíkum hætti, en það mun hafa valdið núningi. Jennifer fagnar allri athygli á meðan Ben vill láta lítið fara fyrir sér. Þrátt fyrir djúpa ást þeirra á milli hafi þau ekki fundið neina málamiðlun. Þau byrjuðu aftur saman eftir að hafa þroskast mikið í gegnum árin, en á sama tíma bæði farin að standa fastar á sínu. Lengi hafi þau talið að ágangur fjölmiðla hafi komið á milli þeirra fyrir tuttugu árum síðan. Nú er að koma á daginn að það var ekki athyglin sem slík sem var vandamálið heldur afstaða þeirra til athyglinnar.
Hjónin hafa ekki formlega tilkynnt samvistaslit eða meintan skilnað. Jennifer sást þó á dögunum í fasteignaleit, sem þykir renna stoðum undir frásögn heimildarmanna. Ben hefur aftur á móti sést með fyrrverandi eiginkonu sinni Jennifer Garner, en hún missti nýlega föður sinn. Samkvæmt heimildum mun Ben ætla að einblína á feril sinn og verja meiri tíma með börnum sínum eftir meintan skilnað.