fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Héldu skuldaball til höfuðs Met Gala

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 7. maí 2024 15:30

Skjáskot Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær fór fram hið svokallaða Met Gala í New York í Bandaríkjunum. Þar er um að ræða sannkallað gala-kvöld en gestir klæða sig í sitt allra fínasta púss og miðar á samkomuna kosta tugi þúsunda dollara. Samkoman vekur iðulega mikla athygli en það er ekki á færri annarra en hinna ríku og frægu að kaupa miða og mæta í nægilega dýrum og fínum fötum en miðarnir eru mjög eftirsóttir. Met Gala er haldið í fjáröflunarskyni fyrir búningastofnun Metropolitan-listasafnsins en hlutverk hennar er að varðveita búninga og tískufatnað. Síðasta sunnudag, daginn fyrir Met Gala, var hins vegar haldin önnur samkoma til höfuðs hinni dýru samkomu, svokallað Debt Gala, sem líklega mætti kalla Skuldaballið á íslensku, sem ætlað er að safna fé til handa þeim sem eru í skuldavanda vegna veikinda og slysa.

Þetta er annað árið í röð sem Skuldaballið er haldið.

Gestir á Skuldaballinu klæddust ekki rándýrum hátískufatnaði úr smiðju fremstu tískuhönnuða heims eins og gestir Met Gala heldur náttfötum, samkvæmt þema ballsins í ár, og öðrum flíkum sem teljast ekki til hátískufatnaðar og ýmsum aukahlutum eins og til dæmis svefngrímum og hálspúðum. Skuldaballið var haldið í Brooklyn í New York og voru 200 gestir viðstaddir en alls söfnuðust 15.000 dollarar (2,1 milljón íslenskra króna) en sú upphæð myndi ekki duga fyrir einum miða á Met Gala.

Í umfjöllun AP kemur fram að skuldaballið sé ein af mörgum nýstárlegum gala-samkomum sem hafa sprottið upp í New York undanfarin misseri í því augnamiði að færa þann viðhafnaranda sem upplifa má á Met Gala nær hinum almenna borgara en einnig til að varpa ljósi á aðra málaflokka þar sem fjár er þörf.

Eigi ekki að vera bara fyrir ríka og fræga

Einn stofnenda Skuldaballsins, Molly Gaebe, segir í samtali við AP að viðburður eins og Met Gala sem snúist um að vera skapandi í fatavali og sýna sig og sjá aðra eigi ekki að vera eingöngu fyrir hina auðugu elítu. Það séu svo margir skapandi New York búar sem eigi það alveg skilið að fá að ganga eftir rauða dreglinum.

Eins og áður segir var í ár safnað fé á skuldaballinu fyrir samtök sem styrkja fólk sem lent hefur í fjárhagsvanda vegna veikinda eða slysa en eins og oft hefur komið fram er ekki óalgengt að einstaklingar sem lenda í slíkri stöðu í Bandaríkjunum endi í miklum fjárhagsvanda.

Talið er að fjórir af hverjum tíu fullorðnum einstaklingum í landinu glími við skuldir eftir að hafa þurft að nýta sér heilbrigðisþjónustu en hlutfallið er hærra meðal svartra, fólks af rómönskum uppruna, þeirra sem eru ekki sjúkratryggðir og kvenna.

Fé var aflað á skuldaballinu með sölu aðgöngumiða og uppboði á handtöskum en gestir voru hvattir til að klæðast einhverju með rauðum ferningum til að sýna samstöðu og minna á skuldastöðu þeirra sem lent hafa í heilsufarsvanda.

Skuldaballið var auglýst sem viðburður fyrir þau sem munu aldrei eiga efni á að kaupa hús og einnig sem rauði dregill alþýðunnar. Gestir klæddust meðal annars ósköp venjulegum inniskóm og teppum og mótvægið við hefðbundin klæðnað á Met Gala því talsvert.

Auk þess að afla fjár fyrir þau sem glíma við skuldir vegna heilsufarsvanda er Skuldaballið ekki síst nýtt til að varpa ljósi á þá kima menningarlífs New York sem teljast vera á jaðrinum. Boðið var upp á uppistandsýningar grínista, sem þóttu á köflum í grófari kantinum, og líflegar dragsýningar. Listamennirnir sem halda slíkar sýningar eru einmitt dæmi um hóp sem oft er ekki vel tryggður og því í hættu á að steypast í skuldir lendi þeir í slysi eða glími við veikindi.

Á heimasíðu Skuldaballsins var það, eins og hér hefur komið fram, kynnt sem ódýrari valkostur við Met Gala og möguleiki fyrir alla að vera með eða eins og segir á síðunni:

„Skuldaballið er tækifæri fyrir þig til að fá þitt augnablik í sviðsljósinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ástæðan fyrir að Friends eru enn vinsælir 20 árum eftir lok þáttanna

Ástæðan fyrir að Friends eru enn vinsælir 20 árum eftir lok þáttanna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“