Tónlistarkonan Noah Cyrus hefur fundið sig í furðulegum aðstæðum, en þær sögusagnir ganga að hún sé föst í ástarþríhyrning með móður sinni og manni hennar, leikaranum Dominic Purcell.
Það var miðillinn People sem greindi í mars frá því að Noah hafi átt í fríðindavinskap við Purcell áður en hann fór að slá sér upp með móður hennar, Tish Cyrus. Noah var sögð ósátt við að móðir hennar, sem vissi vel að hún ætti sögu með Purcell, hafi ákveðið að byrja með hennar fyrrverandi. Til að bæta gráu ofan á svart hafi móðir hennar svo á leifturhraða dregið Purcell upp að altarinu, án þess að gera hreint fyrir sínum dyrum við dóttur sína. Þess vegna hafi Noah ekki verið viðstödd brúðkaupið.
Cyrus-fjölskyldan hefur lítið tekið þessa frétt inn á sig og aldrei staðfest að nokkuð sé þar hæft. Nú virðist Noah þó komin með nóg.
Noah skrifaði nýlega á Instagram: „Kæri drottinn, þegar ég kem til himna þá máttu gjarnan afhenda mér manninn minn.“
Einn fylgjandi hennar stóðst ekki mátið og skrifaði í athugasemd: „Til dæmis þessi gaur sem bæði þú og mamma þín eruð að eiga náin kynni við?“
Þessu svaraði söngkonan: „Afsakið, en værir þú vinsamlegast til í að kafna á stærsta delanum. Bara í smá stund. Frábært, takk.“
Í kjölfarið deildi Noah mynd af unnusta sínum, fatahönnuðinum Pinkus. Þau trúlofuðu sig seinasta sumar, eða tveimur mánuðum eftir að móðir Noah, Tish Cyrus, trúlofaðist Purcell.