Gleðilegan sólríkan laugardag kæri lesandi. Af því tilefni hefur Fókus tekið saman algjörlega óáhugaverðar dægurmálaupplýsingar sem gætu þó verið gaman að deila í næsta pönnukökuboði – sérstaklega ef þar eru staddir aðdáendur söngleikja.
„Fyrst þegar hitti ég Frank Mills,
þá var 15. september.
Ég hitti hann einmitt hér.
Hann sagði mér hvar hann býr.
Svo gleymdi ég því.“
Svona hefst lagið Frank Mills í íslenskri þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar á söngleiknum Hárið. Söngleikurinn fjallar um hippahreyfinguna á sjöunda áratug síðustu aldar, frjálsar ástir, fíkniefni og mótmæli við Víetnam-stríðinu. Höfundar verksins voru leikarar, þeir James Rado og Gerome Ragni. Þeir hittust árið 1964 og byrjuðu fljótlega að semja verkið og byggðu það á kynnum sínum og vináttu.
Þeir fengu innblástur úr samtíma sínum, fólkinu sem þekktu og frá umfjöllun fjölmiðla. Þessi nálgun birtist kannski hvað best í sögunni á bak við lagið Frank Mills sem Emilíana Torrini gerði frægt í íslensku þýðingu verksins. Lagið er hjálparkall frá konu sem hitti draumaprinsinn á förnum vegi en tapaði heimilisfangi hans. Hún óskar eftir að þeir sem kannist við lýsinguna komi þeim aftur í samband. Textinn hljómar frekar mikið eins og persónuleg auglýsing í blaði og ekki að furða, enda byggir textinn alfarið á auglýsingum sem birtust í dálki fyrir tapað/fundið í tímaritinu Rave árið 1966.
Hér hafa auglýsingarnar sem rötuðu í textann verið þýddar.
„Ég hitti strák sem er kallaður Frank Massey þegar ég var í fríi í Rhyl, en því miður tapaði ég heimilisfangi hans. Hann sást síðast með vini sínum, trommara í bandinu Sidewalkers. Hann býr í Manchester og fer á Twisted Wheel flesta laugardaga. Vinsamlega hjálpið mér að finna hann“
„Við viljum ná sambandi við dreng sem við sáum í plötudeildinni í Exeter-búðinni, þann 22. janúar á þessu ári. Hann var í hermannajakka með gullkeðju að aftan og á baki jakkans voru letruð nöfn á borð við Sheila og Mary.“
„Þann 1. desember þegar Stones komu fram í Vancouver, á sviðinu í Agrodome, sá ég tiltekinn strák í annað sinn. Hann var með sítt hár, var í brúnum corduroy jakka og dökkri póló-peysu. Honum svipar í sjón til George Harrison. Vinkona mín og ég eru stelpurnar sem hann veifaði. Hér er önnur vísbending – ég var með sítt hár, og vinkona mín með stutt, og hann var með hendurnar um háls hennar þegar hann reyndi að komast fram fyrir girðinguna. Vinsamlegast reynið að komast í samband við hann! Ég yrði mjög þakklát ef þið gætuð það.“
„Gæti einhver hjálpað mér að finna John Cristers. Ef einhver þekkir til hans, vinsamlegast segið honum að Angela vill ekki pundið sitt til baka, hún vill bara sjá hann aftur. Hún er enn með sama heimilisfangið.“
Á annarri síðu í tímaritinu mátti finna vísun í ástarsamband þar sem stúlkan sagðist skammast sín að ganga um með elskhuga sínum á almannafæri, en það rataði eins inn í textann.
Hér fyrir neðan má svo finna texta lagsins og íslensku þýðinguna:
„Fyrst þegar hitti’ég Frank Mills
þá var fimmtándi september.
Ég hitti hann einmitt hér.
Hann sagði mér hvar hann býr.
Svo gleymdi ég því.
Síðan hef ég ekki séð hann aftur
honum svipar í sjón til George Harrisonar
nema’að hárið á honum er alltaf greitt aftur í tagl.Ég elska’hann mjög heitt en samt vil ég síður
sjást með hann mér við hlið.
Ég held hann búi í Brooklyn.
Hann er með hjálm á hausnum
og í gatslitnum gallabuxum
og leðurjakka sem letrað er á:
„María“, „Mamma“ og „Hells Angels“.Mikið þætti mér nú vænt um ef þið
mynduð sjá hann að þið
segðuð við hann að hann hitti mig hér
og mig langi ekki’ í aurinn
aftur sem hann sníkti af mér
heldur hann.“
„I met a boy called Frank Mills
On September twelfth right here
In front of the Waverly
But unfortunately
I lost his address
He was last seen with his friend, a drummer
He resembles George Harrison of The Beatles
But he wears his hair tied in a small bow at the backI love him but it embarrasses me
To walk down the street with him
He lives in Brooklyn somewhere
And he wears his white crash helmet
He has golden chains on his leather jacket
And on the back are written the names
„Mary“ and „Mom“ and „Hell’s Angels“I would gratefully appreciate if you see him tell him
I’m in the park with my girlfriend and please
Tell him Angela and I don’t want the two dollars back just him“
„Það var svo mikil spenna úti á götum og í görðum og á svæðum þar sem hipparnir héldu sig, að við töldum að ef við gætum dregið þessa stemningu fram á sviðinu þá yrði það dásamlegt. Við héngum með þessum hópum, fórum á samkomur þeirra og leyfðum hárinu okkar að vaxa,“ sagði Rado í viðtali eitt sinn. Í gegnum þessa rannsókn fundu þeir félagar meira að segja leikara til að taka að sér hlutverkin.
Þeir sömdu leikritið og textana, en ekki tónlistina. Það kom í hlut Galt MacDermot sem á þessum tíma hafði þegar getið sér gott orð og meðal annars unnið til Grammy verðlaunanna. MacDermot sagði síðar að hann hafi verið eins og álfur úr hól enda vissi hann varla hvað hippi var. Hann var ráðsettur maður, með stutt hár, eiginkonu og átti fjögur börn. Hann deildi þó áhuga höfundanna á rokktónlist.