Brasilíska fyrirsætan Gisele Bündchen sagði frá Íslandsheimsókn sinni í sjónvarpsþætti Jimmy Fallon, The Tonight Show, síðastliðinn fimmtudag. Fallon, Bündchen og fjöllistamaðurinn Wayne Brady spiluðu leikinn „True Confessions“ sem er einn fastra liða í þættinum.
Spilendur eiga að velja á milli tveggja umslaga, annað inniheldur lygasögu um keppandann og hitt staðreynd um hann. Sá sem dró umslagið þarf síðan að blekkja hina keppendurna og láta lygina hljóma sem staðreynd og staðreyndina sem lygi.
Bündchen dró umslag þar sem fram kom að hún hefði verið við myndatöku á Íslandi þar sem hún þurfti að stilla sér upp á ísjaka í sjó, og við það hefði hún næstum dottið í ískaldan sjóinn.
Bündchen rifjaði upp myndatökuna og sagði hana hafa farið fram árið 1997 eða 1998. Og henni hefði sannarlega verið stillt upp á gerviísjaka innan um þá alvöru. „Ég hefði dáið, þið vitið hvað gerist ef þú dettur í ískalt vatnið? Þú deyrð innan örfárra sekúndna!“
Fallon og Brady voru báðir á því að Bündchen væri að ljúga að þeim, en sagan er sönn. Bündchen mætti hingað til lands fyrir myndatöku fyrir auglýsingaherferð ilmvatnsins Oxygène. Þó sjáist ekki á myndum hvar myndatakan fór fram má sjá það í myndbandi auglýsingarinnar.