Þann 15. mars næstkomandi er World sleep day sem er lokadagur Sleep Awareness vikunnar sem hefst í dag og fjölmiðlar um allan heim munu nýta vikuna í að vekja athygli á mikilvægi svefns. Af þessu tilefni gefur Betri svefn út fyrsta svefn smáforrit í heiminum sem er eingöngu sniðið að konum og þeirra þörfum.
SheSleep gerir konum kleift að kortleggja eigið svefnmynstur, sækja sér meðferð við svefnvanda í gegnum forritið, fylgjast með tíðahring sínum og áhrifum hormóna á svefn, heilsu ásamt því að bjóða upp á almennan fróðleik um svefn og tækni til að ná slökun.
Svefnleysi er 40% algengara meðal kvenna og konur finna frekar fyrir neikvæðum afleiðingum svefnskorts, s.s þreytu, kvíða og depurð.
Kvenheilsa hefur verið van rannsökuð í gegnum tíðina og áhrif hormóna, breytingaskeiðs og fleiri þátta á svefn hafa lítið verið skoðuð.
Streita er mun algengari meðal kvenna og um 70% þeirra sem leita til Virk starfsendurhæfingar eru konur. Ljóst er að svefn skiptir lykilmáli þegar kemur að heilsu og vellíðan og miðað við aukna áhættu kvenna á svefnvanda er löngu tímabært að koma með lausnir sem eru sérsniðnar að þeirra þörfum.