Keppnin verður haldin á skemmtistöðunum Exit Club og B5, sem eru einnig í eigu Sverris. Glamúrfyrirsætan Ásdís Rán Gunnarsdóttir mun sjá um að þjálfa keppendur og sagði hún við DV fyrr í janúar að markmiðið væri að endurvekja „gömlu Hawaiian Tropic stemninguna.“
Sjá einnig: „Við erum að leita af flottum bikiní fyrirsætum og valkyrjum“
Nú er Miss Bikini Iceland að leita að keppendum og hefur Sverrir auglýst keppnina á samfélagsmiðlum. Á einni auglýsingunni var notuð mynd af Lilju Sif Pétursdóttur, Ungfrú Ísland 2023, Hrafnhildi Haraldsdóttur, Ungfrú Ísland 2022, og Elísu Gróu Steinþórsdóttur, Ungfrú Ísland 2021.
Ljósmyndarinn Arnór Trausti tók myndina og gaf hvorki hann né Manuela þeim til að nota myndina.
„Sko fyrir mína parta þá fannst okkur öllum mjög leiðinlegt að sjá þetta,“ segir Manuela í samtali við DV.
„Mér, Arnóri Trausta sem tók myndina og Elísu Gróu, Lilju Sif og Hrafnhildi sem eru á myndinni. Ekkert okkar gaf leyfi fyrir þessari notkun myndarinnar og í mínum huga getur þetta verið mjög villandi fyrir stúlkur sem vita ekki betur og halda að það sé einhver tenging milli þessara keppna – sem er alls ekki,“ segir hún og bætir við:
„Stelpurnar sem vinna Ungfrú Ísland eru í raun brandið sjálft, þær eru allavega mjög stór partur af því, og það er ömurlegt að sjá þetta notað í að auglýsa eitthvað sem fer þvert gegn þeim gildum sem Ungfrú Ísland stendur fyrir. Án þess þó að ég viti mikið um Miss Bikiní, en það sem ég veit er ekkert í takt við Ungfrú Ísland. Að bera fyrir sig að um mistök hafi verið að ræða finnst mér furðulegt, og skrýtið að auglýsing með þessari mynd hafi yfir höfuð verið búin til.“
Sverrir Einar ítrekaði að um mistök hafi verið að ræða og sendi DV eftirfarandi yfirlýsingu:
Fyrir mistök fóru á samfélagsmiðla tvær færslur með rangri mynd þegar verið að greina frá Miss Bikini Iceland keppninni. Ranga myndin var uppkast frá því verið var að leggja drög að kynningu á Miss Bikini Iceland. Færslurnar voru að sjálfsögðu teknar úr birtingu um leið og mistökin uppgötvuðust. Ekki var á nokkurn hátt ásetningur um að nota myndir frá keppninni Ungfrú ísland sem ég ber mjög mikla virðingu fyrir og hef stutt í gegnum tíðina, meðal annars með samstarfi við Þrastalund.
Leitin stendur yfir af stúlkum fyrir Miss Bikini Iceland sem fer fram í mars. Áhugasamar stúlkur 18+ geta haft samband asdisran@gmail.com.“
Manuela vakti fyrst athygli á málinu á samfélagsmiðlum um helgina og sagðist hafa haft samband við forsvarsmann Miss Bikini Iceland þegar hún sá auglýsinguna.
„[Hann] sagði við mig að ég væri bara með drama út af þessu,“ sagði hún. „Ég hélt að allir sem hafa rekið fyrirtæki af þessum (eða í raun bara einhverjum) toga ættu að vita að þetta er brot á höfundarrétti og er ólöglegt.“
Það er rétt hjá Manuelu að myndanotkun Miss Bikini varði við brot á höfundalögum.
Um notkun á ljósmyndum gilda lög um höfundarrétt nr. 73/1972. Réttur höfundar er tvíþættur. Annars vegar hefur höfundurinn venjulegan eignarrétt á myndinni, eins og réttinn til að selja myndina. Hins vegar hefur höfundurinn einnig rétt sem er gjarnan kallaður sæmdarréttur. Hann felst í því að höfundurinn getur látið til sín taka um hvernig myndin er notuð.
Þessi réttur varðar hugverkið en ekki hlutinn og er óháður því hvort höfundur hefur látið hann af hendi. Þannig segir í lögum:
3. gr. Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.
4. gr. Skylt er, eftir því sem við getur átt, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt.
Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. […]
Aðspurð hvort hún eða Arnór Trausti, ljósmyndarinn, muni grípa til aðgerða og rukka Sverri fyrir að nota myndina án leyfis segir Manuela:
„Mér finnst alltaf best að leggja svona mál í hendur fagaðila. En það skiptir mig vissulega máli að passa mjög vel upp á brandið mitt.“
Það er spurning hvort Sverrir fái líka sekt frá sundfatafyrirtækinu PHAX en á hinni auglýsingunni sem fór í loftið notaði hann mynd af bikinífyrirsætu á vefsíðunni Chilla.