Doja Cat, sem heitir Amala Ratna Zadile Dlamini, er ein vinsælasta tónlistarkona heims um þessar mundir en í skjölum sem móðir hennar lagði fyrir dómstól í Los Angeles á dögunum – og Page Six vitnar til – kemur fram að eldri bróðir hennar hafi beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi að undanförnu. Hún þurfi því á vernd að halda frá bróður sínum sem er tveimur árum eldri en hún.
Í skjölunum segir að bróðirinn, Raman Dalithando Dlamini, hafi „slegið tennur“ úr söngkonunni og veitt henni aðra áverka. Þá hafi hann talað með mjög niðrandi hætti til hennar, skemmt eigur hennar og hún óttist um öryggi sitt.
Móðir þeirra systkina, Deborah Elizabeth Sawyer, segir að Raman hafi einnig sýnt henni ógnandi tilburði og hótað henni lífláti í nokkur skipti. Hefur þetta ástand staðið yfir í nokkurn tíma og er nýjasta atvikið frá þessu ári, að því er fram kemur í skjölunum.
TMZ greinir frá því að Deborah hafi fengið tímabundið nálgunarbann á son sinn en Doja Cat þurfi að leggja sjálf fram slíka beiðni. Það hefur hún ekki gert eftir því sem næst verður komist.