Tinna var um tíma annar umsjónarmanna hlaðvarpsins Það er von og framkvæmdastjóri samnefndra samtaka. Hún sagði skilið við samtökin í lok árs 2021 og sagði að það hafi verið farið vel yfir hennar velsæmismörk í starfi. Það var það eina sem hún sagði opinberlega á sínum tíma og hefur – til þessa – ekki tjáð sig frekar um málið.
Hún rýfur þögnina í samtali við Götustráka og segist hafa verið beitt andlegu og fjárhagslegu ofbeldi.
Hlynur Kristinn Rúnarsson er stjórnarformaður samtakanna og stofnaði þau árið 2019, þá nýorðinn edrú. Hann hlaut fimm ára fangelsisdóm í Brasilíu vegna fíkniefnasmygls árið 2016 og var látinn laus árið 2017. Hlynur varð edrú í maí 2019 og stofnaði samtökin tveimur mánuðum síðar. Í kjölfarið fóru sögur að ganga og ásakanir um ofbeldi á hendur hans. DV hafði samband við Hlyn sem sagði stjórn samtakanna ekki svara „um einstök mál.“
Sjá einnig: Hlynur bregst við ásökunum um ofbeldi: „Þetta kemur mér í uppnám“
„Þetta var ekki góður tími,“ segir Tinna um tíma sinn í Það er von við Götustráka.
„Til að byrja með var þetta fínt, ég náttúrulega fór inn í þetta af þeirri mjög einföldu ástæðu, að mig langaði að hjálpa fólki. Þetta er svona eitt af því sem ég fæ hnút í magann að tala um,“ segir hún og bætir við að hún sé með áfallastreitu eftir þetta.
Aðspurð hvort það hafi verið eitthvað sérstakt sem orsakaði það segir Tinna: „Já, bara mikið ofbeldi.“
„Andlegt og fjárhagslegt ofbeldi,“ útskýrir hún.
Það er von eru góðgerðasamtök sem styðja við fólk með fíknisjúkdóma og aðstandendur þeirra.
„Ég var mjög mikið að taka viðtöl og var með símann. Ég var náttúrulega framkvæmdastjóri, við skulum hafa það á hreinu að ég var bara framkvæmdastjóri að nafninu til. Það lúkkar mjög vel þegar þú ert með þannig orðspor að það sé kona framkvæmdastjóri einhvers staðar. Það lúkkar líka vel þegar einhver er með þannig stimpil á sér, með ofbeldisbakgrunn eða eitthvað þannig, ég veit ég mun fá skít yfir mig fyrir að segja þessa hluti,“ segir Tinna.
Báðir þáttastjórnendur Götustráka segjast hafa heyrt úr ýmsum áttum að það sé eitthvað „sketchy“ í gangi hjá samtökunum.
Annar spurði hvernig samtökin hafi verið rekin og hvernig andlega ofbeldið hafi lýst sér.
„Það var gagnvart mér. Ég til dæmis fékk skilaboð frá einni konu þar sem hún fékk hótun um að sonur hennar yrði laminn því hann skrifaði einhverja ljóta athugasemd á Facebook-síðu. Svona hlutir sem eiga ekki að gerast, svo náttúrulega þorir fólk ekki að koma fram því það er hrætt við 22 þúsund manna fylgi. Sem ég skil mjög vel,“ segir Tinna.
„Ég fékk reglulega skilaboð þegar ég var inni í þessu: „Það er verið að segja ljótt um mig hérna, farðu og kommentaðu.“ Og núna sér maður ef einhver er á móti því sem pistlahöfundur skrifar, þá kemur [núverandi maki] honum til varnar. Þannig ég sé að þetta er nákvæmlega sama andrúmsloft,“ segir Tinna og lýsir þessu sem „frekjustjórnun.“
Götustrákarnir sögðust ólmir vilja ræða við Hlyn en hann hafði neitað að koma í þáttinn til þeirra.
Þau ræða þetta nánar í þættinum sem má nálgast á streymisveitunni Brotkast.
DV hafði samband við Hlyn og óskaði eftir viðbrögðum við ásökunum Tinnu.
„Eðli máls samkvæmt þá svarar stjórnin ekki um einstök mál en viðtalið kom vissulega stjórnarmönnum í opna skjöldu.
Við vísum á árskýrslu okkar sem eru opnar almenning hvað varðar fjárhag félagsins, sem unnin er af Fastland.
Mbk.
Stjórn Það er von“