Nú hefur lokaþátturinn verið sýndur í þáttaröðinni The Curious Case of Natalia Grace: Natalie Speaks, en um er að ræða aðra þáttaröð þar sem mál dvergvöxnu stúlkunnar frá Úkraínu er rakið. En segja má að stærstu sprengju málsins hafi verið varpar þar í blálokin og veit fólk nú ekkert hvað því á að finnast. Rétt er að taka fram að þeir sem ætla að horfa á þættina vilja að líkindum síður lesa áfram.
Natalia Grace var árið 2010 ættleidd til Bandaríkjanna til Barnett hjónanna. Var þá talið að stúlkan væri sex ára gömul, líkt og fæðingarvottorð hennar gaf til kynna. Þremur árum síðar þrömmuðu Barnett hjónin þó til Þjóðskrár Bandaríkjanna og kröfðust þess að vottorðinu yrði breytt til að endurspegla það sem þau töldu vera raunverulegan aldur stúlkunnar – 22 ár. Fengu þau þetta í gegn og flúðu svo frá dóttur sinni yfir til Kanada, og eftir sat Natalia ein í leiguíbúð og var ætlað að sjá um sig sjálf, enda formlega skráð fullorðin.
Málið var rakið í fyrri þáttaröðinni þar sem Barnett hjónin og fyrrum nágrannar þeirra lýstu því hvernig stúlkan hafi gert líf þeirra að martröð. Hún hafi lagt líffræðileg börn Barnett hjónanna í einelti, viðhaft kynferðislega tilburði við táningsdrengi og almennt ekki komið fram eins og sex ára barn ætti að gera. Hún hafi ítrekað hótað hjónunum sem hafi hreinlega byrjað að óttast um líf sitt og hinna barna sinna. Loks hafi þau afráðið að flýja eftir að hafa vaknað við að stúlkan stóð yfir þeim með hníf í hendi.
Natalia ákvað að svara fyrir sig og steig fram í síðari þáttaröðinni. Þar fengu áhorfendur að kynnast Nataliu og hjónunum sem tóku hana að sér eftir að hún var yfirgefin. Ekki gátu þessi hjón, Mans-hjónin, þó löglega ættleitt stúlkuna þar sem dómari þverneitaði að skrá stúlkuna aftur í samræmi við upprunalegt fæðingarvottorð.
Mans-hjónin sögðust ekki skilja frásögn Barnett-hjónanna. Natalia hafi verið með þeim núna árum saman og verið ekkert nema ljúflegheitin. Talað var við sérfræðinga í erfðarannsóknum sem og tannlækna í þáttunum sem sögðu allt benda til þess að stúlkan væri í dag um 22 ára sem þýddi að hún hafi vissulega verið um sex ára þegar hún kom til Barnett-hjónanna.
Natalia sjálf sagðist telja að móðir hennar, frú Barnett, hafi hreinlega ekki áttað sig á hvaða ábyrgð fylgdi því að ala upp barn með sérþarfir, en Natalia er með dvergvöxt og glímir við ýmsa kvilla sökum þess. Hafi frú Barnett verið spennt fyrir þeirri aðdáun sem hún fengi að taka að sér barn með sérþarfir, en ekki kært sig um vesenið sem því fylgdi. Þegar hún hafi ekki nennt þessu lengur hafi það verið auðveld lending að láta breyta fæðingarvottorði stúlkunnar til að losna undan ábyrgð, enda líffræði einstaklings með dvergvöxt slík að með tilteknum rannsóknum með halda því fram að um eldri einstakling sé að ræða út frá beinabyggingu.
Mans-hjónin lýstu því að leggja fæð á Barnett-hjónin sem hafi skilið varnarlaust barn eftir eitt og ósjálfbjarga. Það virtist svo vera útslagið í þessari þáttaröð þegar Mans-hjónin gengu loks formlega frá ættleiðingu Nataliu. Það var falleg stund þar sem féllu gleðitár og útlit fyrir farsæl endalok.
En öllum að óvörum lauk þáttunum ekki þar. Það hafði þó verið ætlun framleiðenda, allt þar til þeim barst undarlegt símtal frá Mans-hjónunum hálfu ári eftir að tökum lauk.
„Það er eitthvað ekki í lagi við Nataliu. Þessi stelpa er úti að aka. Ég upplifi hana sem óvin hér á heimilinu. Hún sakaði okkur um að halda sér í gíslingu á heimilinu. Lét okkur virka eins og óvin hennar. Natalia er að stinga fjölskyldu sína í bakið yfir helberum lygum“
Antwon Mans sagði dóttur sína hafa gengið yfir strikið. Hún hafi gert ýmislegt vafasamt, en framkoma hennar hafi nú náð nýjum lægðum.
„Natalia hefur ekki tilfinningar gagnvart neinu nema sjálfri sér. Við erum komin með nóg. Við erum komin með nóg af henni.“
Og þannig lauk sjóferðinni. Ekki kom nákvæmlega fram hvað kom upp á þessu hálfa ári, en eitthvað hefur það verið. Framleiðendur höfðu sagt skilið við Mans-fjölskylduna í blússandi gleði og hamingju en af símtalinu mátti ráða að staðan væri orðin önnur og myrkari. Ljóst er að enn er spurningum ósvarað og hafa framleiðendur boðað frekari umfjöllun.
Barnett-hjónin neituðu lengi vel að hafa vanrækt stúlkuna. Michael Barnett steig þó fram í seinni þáttaröðinni og sagði Kristine Barnett vera vera höfuðpaurinn að þessu öllu saman. Hún hafi beitt bæði Nataliu og hann ofbeldi.
Natalia hefur þó tjáð sig um eftirmálanna á samfélagsmiðlum.
„Ég er í góðu lagi og hef það fínt, takk fyrir stuðninginn og bænirnar. Ég vildi að ég gæti sagt ykkur meira um þættina en ég hef skrifað undir samning þar sem ég heiti því að virða trúnað sem stendur. Ég læt ykkur vita hvenær ég má segja meira, en þið megið þó vera örugg um að ég hef það fínt. Elska ykkur.“
Natalia hefur blásið til söfnunar á GoFundMe til að safna sér fyrir húsnæði og fyrir lækniskostnaði. Þar kemur fram að hún er flutt út af heimili Mans-fjölskyldunnar og stefnir á að sjálfstæða búsetu. Tími sé kominn fyrir hana að standa eigin fótum og eins vill hún gerast ljósmyndari með eigin rekstur. Hún segist staðráðin í því að láta fortíð sína ekki skilgreina sig heldur horfa til framtíðar með björtum augum.