fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Fókus

Núna er hættulegasti tíminn til að setja sér markmið – „Þegar við erum á lægsta punkti í sálinni“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 9. ágúst 2023 12:00

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar í sínum nýjasta pistli á Facebook um það hvernig mörg okkar ætla strax að lokinni verslunarmannahelgi að sigra heiminn þegar kemur að heilsunni, ræktinni og nýjum venjum.

„Vikan eftir versló.

Við erum lítil í okkur.

Eins og þegar við vorum skömmuð í æsku eftir að hrinda Gulla frænda í poll á leikskólanum.

Móri frændi er í heimsókn eftir þokukenndar samræður við mann og annan um helgina.

Krónukrampi í buddunni. Samviskan þjökuð.

Hausinn á yfirsnúningi að plotta heimsyfirráð í mataræði og rækt.

Á meðan við göngum gegnum svipugöng sektarkenndar yfir innbyrtum kaloríum og óhlaupnum kílómetrum eru stórkostleg markmið að gerjast í undirmeðvitundinni

Við ætlum að takast á við allar áskoranir sem netið finnur upp á.

Sykurlaus mánuður. Djúsfasta í viku. Ekkert hveiti í 90 daga. Meistaramánuður. Enginn bjór fram að jólum.

Nú skal hefja nýtt líf.

Dagar víns og rósa að baki.

Við keflinu taka dagar vatns og brokkolí.

Bara salat það sem eftir lifir sumars.“

Mynd: Ragga nagli

Hættulegt að setja sér markmið núna

Segir Ragga nagli að tíminn núna sé hættulegasti tíminn til að setja sér markmið.

„Þegar við erum á lægsta punkti í sálinni.

Með kinnroða yfir trúnóferðum á tojlettinu.

Stífa efri vör yfir þunnri buddu og næsta júróreikningi.

Því yfirleitt fara markmiðin með himinskautum.

Gerum óraunhæfar væntingar um frammistöðu sjálfsins sem er úr öllum takti við aldur og fyrri störf.

Axlirnar sligaðar undan kröfunum.“

Segir Ragga nagli að ef viðkomandi hefur ekki verið að æfa sex sinnum í viku undanfarið ár sé  afar ólíklegt að hann hoppi áreynslulaust inn í slíkt mynstur aðra vikuna í ágúst.

„Vandinn við slíkt hugarfar er að þú sendir skilaboð til sjálfsins um að þú sért ekki nógu góður núna.

Þú verður betri þegar þú hefur náð öllum þessum markmiðum.

Ef þú setur þér markmið og nærð því ekki þá ertu misheppnaður.

Sjálfið svínað til og logar niðurrifs tendraðir.

Skömmin er eldiviðurinn.

Settu þér frekar markmið sem einblínir á ferlið.

Reyndu að haka við heilsuvenjur í lok dags.

Mæta á æfingar.

Drekka nóg vatn.

Borða meira grænmeti.

Setjast niður við hverja máltíð.

Borða 3-4 máltíðir á dag.

Muna eftir prótíni í hverri máltíð.

Fara snemma að sofa.

Markmið eru skammtímahugsun.

Ferli er langtímahugsun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt