Bandarísku leikarahjónin Ryan Reynolds og Blake Lively eru vön að stríða hvort öðru í færslum á samfélagsmiðlum og liðin helgi var engin undantekning.
Lively skellti sér til London á frumsýningu Renaissance kvikmyndar tónlistarkonunnar Beyoncé. Með Lively í för var vinkona hennar, tónlistarkonan Taylor Swift, en þær hafa verið vinkonur í yfir áratug.
Vinkonurnar stilltu sér upp saman og birtu mynd af sér á samfélagsmiðlum þar sem þær sjást sitja saman í bláum flauelssófa, glæsilega klæddar.
„Mér finnst eins og ég ætti að muna eftir þessu,“ skrifaði Reynolds undir mynd sem hann birti en þar hafði hann breytt mynd vinkvennanna og sett andlit sitt á líkama Lively og andlit Travis Kelce, kærasta Swift á hennar.