fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Virðingarríkir foreldrar óánægðir með óþekka Láru – „Fékk illt í hjartað að lesa þetta“

Fókus
Mánudaginn 6. nóvember 2023 10:03

Birgitta Haukdal er höfundur vinsælu Láru bókanna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Foreldrar í Facebook-hópnum Rie/Respectful/Mindful Parenting á Íslandi gagnrýna nýjustu bókina um Láru og Ljónsa – Lára fer á jólaball.

Hópurinn er fyrir foreldra sem „stunda, hafa áhuga á eða vilja fræðast meira um virðingarríkt uppeldi, Respectful parenting og RIE aðferð Mögdu Gerber.“

Yfir þrettán þúsund manns eru í hópnum. Í gær skapaðist umræða um vinsælu Láru bækurnar eftir tónlistarkonuna og rithöfundinn Birgittu Haukdal.

„Ég vildi bara láta ykkur vita sem kaupið Láru bækur eins og ég, að önnur bókin sem kom út núna fyrir jólin: Lára fer á jólaball, byrjar á því að Lára hafi verið óþekk og hafi fengið kartöflu í skóinn en ekki litli bróðir hennar.

Ég skoðaði hana ekki áður en ég keypti hana en þegar ég byrjaði að lesa hana þá var þetta alls ekki eitthvað sem mig langaði að lesa fyrir mínar stelpur,“ kemur fram í færslunni, en manneskjan sem skrifaði hana kaus að koma fram nafnlaus.

Aðilinn sem skrifaði upphafsinnleggið birti myndir úr bókinni.
Aðilinn sem skrifaði upphafsinnleggið birti myndir úr bókinni.

„Fékk illt í hjartað“

„Það er bara ekkert annað,“ sagði ein og bætti við tjákni (e. emoji) sem ranghvolfir augunum.

„Já og skil vel ef þér finnst það skrýtið, við sem erum hér inni vorum sennilega öll alin upp við það að börn væru óþekk og þeim kennt að skammast sín o.s.frv. En mæli með frábærri bók eftir Janet Lansbury sem skýrir þetta vel ef þú vilt, hún heitir “No Bad Kids,““ svaraði ein henni.

Fjöldi foreldra, sem tileinka sér virðingarríkt tengslauppeldi, skrifuðu við færsluna og tóku undir sama streng og aðilinn sem skrifaði upphafsinnleggið.

„Vá, hvað ég er sammála. Fékk illt í hjartað að lesa þetta og breytti textanum einmitt… Síðan lét ég bókina bara hverfa,“ sagði ein.

Önnur sagði að hún geri það sama, breytir textanum. „Stelpan mín hefur alveg gaman af þeim, en við höfum alveg pínu ritskoðað sumar, sérstaklega varðandi kynjavinkil.“

Einn meðlimur hópsins sagði að þetta væri ekki eina Láru bókin sem hún vilji ekki lesa fyrir börnin sín.

„Þetta er eins boðskapur og í Jól með Láru bókinni. Þar sem hún verður pirruð og mamman skammar hana fyrir að vera neikvæð og ómöguleg og Ljónsi verður hissa á því hvernig hún lætur. Svo biðst hún afsökunar á því að hafa hagað sér illa og skrifar bréf til jólasveinsins um að þetta komi ekki fyrir aftur og að hún lofi að vera þæg og góð stelpa.

Þetta fer í taugarnar á mér, en ég nýtu tækifærið og tala við mína stelpu um að þetta sé nú kannski ekki alveg rétt og að við eigum öll rétt á tilfinningum okkar. Að það hefði kannski verið betra ef mamma Láru hefði reynt að sýna henni smá skilning og hjálpa Láru að átta sig á því af hverju hún brást svona við. Og að það sé ekkert samasem merki á milli þess að bæla tilfinningar sínar og að vera góð stelpa.“

Fyrir þá sem ekki skilja, af hverju ekki má nota orðið „óþekk“ útskýrir einn meðlimur hópsins: „Samkvæmt virðingaríku og meðvituðu uppeldi, þá eru engin börn óþekk. Þau eru bara með misstórar og mismunandi tilfinningar.“

Hjúkrunarkona í pilsi

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Birgitta er gagnrýnd fyrir bækurnar. Bókin Lára fer til læknis, sem kom út árið 2018, olli talsverðu fjaðrafoki.

Hjúkrunarfræðingar gagnrýndu hvernig starf þeirra birtist í bókinni en Birgitta notaði orðið „hjúkrunarkona“ og var persónan klædd í pils í vinnunni. Fór af stað mikil umræða í kjölfarið.

Birgitta baðst afsökunar á sínum tíma og sagði að henni hafi þótt miður að hafa sært hjúkrunarfræðinga. Þegar bókin fór í endurprentun var orðinu breytt í „hjúkrunarfræðingur“ og var persónan þá komin í buxur.

Á þeim tíma virtist umræðan vera Birgittu í hag þar sem salan jókst, frekar en að það hafi dregið úr henni, og margir lýstu yfir stuðningi við rithöfundinn.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt