fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Stórfurðulegt háttalag þeirra sem leituðu eilífs lífs – 9 einstaklingar sem reyndu að svíkja dauðann

Fókus
Laugardaginn 4. nóvember 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mörgum dreymir um eilíft líf og ódauðleika. Að lífsins ferðalag taki aldrei enda. Líklega má rekja ótal kenningar um afdrif okkar eftir að við segjum skilið við þessa tilviljun, sem flestar felast í því að við lifum áfram þó við deyjum, bara í breyttri mynd.

Svo eru þeir sem vilja ekki taka áhættuna. Treysta því ekki að einhverjar þessar kenningar séu réttar. Þeir sækjast því eftir ódauðleika í þessum heimi. Á öldum áður, og jafnvel enn í dag, trúa sumir að með alkemíu megi leysa gátuna um dauðann og öðlast ódauðleika. Sögusagnir hafa gengið um að hinum og þessum hafi tekist ætlunarverk sitt, en enginn hefur þó stigið fram til þessa og gengist við því að vera eilífur.

Heimssagan geymir margar sögur af fólki sem reyndi að vísa manninum með ljána á dyr.

1 Keisarinn sem vildi lifa að eilífu

Qin Shi Huang var fyrsti keisarinn í Kína. Fyrir rúmlega 2.200 árum síðan leitaði hann lífselexírs sem gæti gefið honum ódauðleika. Hann kallaði eftir því að þegnar sínir liðsinntu leitinni. Árið 2002 fundust tugir þúsunda viðar strimla ofan í brunni í Kína. Á strimlum þessum mátti finna svör frá þegnum Qin Shi við hjálparbeiðni hans. Meðal annars greindu þegnar frá því að hafa leitað út um allan bæ en ekkert fundið. Aðrir greindu frá því að tilteknar jurtir gætu mögulega verið lykillinn að elexírnum.

Þessar tilraunir keisarans báru ekki árangur. Þvert á móti, mætti segja, því talið er að keisarinn hafi gripið á það ráð að innbyrða sinnóber í von um að lifa í kjölfarið lengur. Það bar ekki árangur því sinnóber er kvikasilfur og keisarinn lét lífið aðeins 49 ára gamall.

2 Páfinn sem drakk blóð úr börnum

Margar goðsagnir ganga um ódauðlegar verur. Spilar blóð gjarnan stórt hlutverk í þeim sögnum. Til dæmis um blóðsugur sem drekka blóð úr þeim sem lifa og öðlast þar með lífskraft þeirra. Það kemur sumum því væntanlega óvart að heyra sögurnar um páfann Innocentíus VIII.

Þrátt fyrir að vera æðsti maður kaþólsku kirkjunnar á 15. öld var Innocentíus ekki páfanna bestur. Hann gat af sér fjölda óskilgetinna barna og gagntekinn af græðgi í peninga og völd. Hann var líka gráðugur í tíma. Þegar hann fór að eldast og heilsu hans hnignaði var hann tilbúinn að gera hvað sem er til lengja jarðvistina. Eftir heilablóðfall var hann orðinn skugginn af sjálfum sér og fékk hann því lækni að reyna sitt ítrasta til að koma honum aftur á fætur, sama hvað það kostaði.

Læknirinn hefur haft einhverjar hugmyndir um að lækningin fælist í því að yngja líkama páfans upp. Til þess greip hann á það hrottalega ráð að bana þremur ungum drengjum. Hann lét drengjunum blæða út, safnaði því saman og reyndi að koma því yfir í páfann. Sumir segja að hann hafi dælt blóðinu inn í æðar páfans, en aðrar heimildir segja páfann hafa drukkið blóðið.

Áður en einhver fær hugmyndir um að leika þetta eftir er rétt að taka fram að þessi blóðuga læknismeðferð bar ekki árangur. Páfinn lét lífið örfáum dögum síðar.

3 Konan sem drakk sig til dauða

Við upphaf 16. aldar hafði franska hefðarkonan Diane de Poitiers komist til mikilla áhrifa við hirð konungsins Hinriks II. Hún var ástkona hans og hafði betri tök á konungi heldur en drottningin. Diane nýtti sér stöðu sína spart hvað varðaði málefni Frakklands. Heldur beitti hún ítökum sínum til afla sér og sínum nánustu eignum og munaði.

Hún var sannkölluð dekurdrós og hégómagjörn. Þegar hún tók að eldast tjaldaði hún öllu til að halda í fegurð sína. Meðal annars drakk hún lausn sem innihélt gull, e. gold chloride. Tilraunir hennar virðast hafa borið einhvern árangur, því hún náðu að halda í unglegt útlit sitt langt fram eftir aldri. Hún lét þó lífið 66 ára og við skoðun á líkamsleifum hennar öldum síðar kom í ljós að hár hennar innihélt mjög há gildi af gulli. Líklega hefur hún því látið lífið úr málmeitrun.

4 Lífeðlisfræðingurinn sem trúði á mátt naggrísa

Lífeðlisfræðingurinn Charles-Édouard Brown-Séquard þótti furðufugl. Hann var uppi á 19. öld, og hafði stóra drauma. Meðal annars að hann gæti barist gegn öldrun og dvínandi kynhvöt með lausn sem hann vann úr eistum hunda og naggrísa. Á þriggja vikna tímabili sprautaði hann sig með þessari lausn og hélt því fram að einbeiting hans hefði batnað, hann væri sterkari, með betra úthald og reglulegri hægðir.

Ótrúlegt en satt var þetta ekki það furðulegasta sem hann gerði í lífinu. Hann hafði áður dælt blóði sínu inn í glæpamenn sem höfðu verið afhöfðaðir. Hann drakk uppköst úr sjúklingum með kóleru og reyndi að viðhalda unglegri húð sinni með því að lakka sig. Lakkið þurftu nemendur hans að slípa af honum eftir að Charles missti meðvitund.

Ekki virðist pung-lausnin hafa borið árangur því lífeðlisfræðingurinn lét lífið nokkrum árum síðar.

5 Sértrúarsöfnuðurinn og draumur um ódauðleg börn

Það sækjast ekki allir eftir ódauðleika fyrir sig sjálfa. Stundum er ódauðleika leitað fyrir málstað. Það átti við um James Schafer sem var leiðtogi sértrúarsafnaðar sem kallaðist konunglegt bræðralag frumspeki meistara. Söfnuðinn stofnaði James á þriðja áratugi tuttugustu aldar. Hann kallaði sig „Sendiboðann“ og söfnuður hans hafði það óeigingjarna markmið að hjálpa öðrum að hjálpa sér sjálfum.

James hafði tröllatrú á sjálfum sér. Hann hélt því fram að hann gæti látið bæði fólk og hluti hverfa stæðu þau í vegi fyrir honum. Hann sagði dauðann og veikindi vera afleiðingu neikvæðni. Söfnuðurinn tilkynnti árið 1939 að þau ætluðu að framkvæma hið ómögulega. Þau ætluðu að ala upp ódauðlegt barn. Téð barn var fósturbarnið Jean Gauntt. Móðir hennar var fátæk og gat ekki séð fyrir henni.

Til að takast þetta verkefni þurfti James að hafa stíft eftirlit og stjórn á kornabarninu. Hún mátti ekki komast nærri neinu sem gæti leitt til neikvæðrar eða mannskemmandi hugsunar. Hún var alin upp sem grænmetisæta, haldið frá áfengi, tóbaki, kaffi, te, sinnepi, ediki og öllum kryddum. Með þessu vildi James sanna að ódauðleikinn væri raunverulegur en ekki goðsögn.

Miklar vonir voru bundnar við Jean. Hún átti að taka við af James sem leiðtogi söfnuðarins ef hann skildi nú falla frá. Til þess kom þó aldrei þar sem tilraun þessi var á enda eftir rétt rúmt ár þegar móðir stúlkunnar krafðist þess að fá hana til baka.

6 Nicolas og viskusteinninn

Markmið alkemíu er búa til gull úr öðrum verðminni frumefnum. Einn þekktasti alkemistinn var Nicolas Flamel. Hann hélt því fram á 14. öld að hafa fundið leynihráefnið í gullgerð. Fágætt efni sem kallaðist viskusteinn, eða lífselexírinn. Svo segir í samhengislausum skrifum sem fundust löngu eftir tíma Nicolas. Það var annar alkemisti sem fann þessi skrif, Vincenzo Cascariolo, en hann taldi sig geta fetið í spor Nicolas og búið til viskustein sem gæfi honum eilíft líf.

Það er þó bara eitt vandamál við þetta. Nicolas Flamel var vissulega til, en hann var ekki alkemisti. Hann var ritari sem hafði stórgrætt á fasteignabraski og notaði svo auð sinn til að byggja spítala og húsnæði fyrir bágstadda.

Fyrir óskiljanlega ástæðu fóru bækur, sem sagðar voru skrifaðar af Nicolas, að birtast á 17. öld. Samsæriskenningasmiðir töldu augljóst hvernig útskýra mætti þessar bækur sem áttu að vera skrifaðar af manni sem dó öldum áður. Nicolas hafi fundið viskusteininn, varð við það ódauðlegur og hafði því nógan tíma til að henda í nokkrar bækur þessar aldir sem hann hafði lifað. Líklega hafi hann sviðsett dauða sinn til að fela þetta afrek sitt.

Vincenzo var einn þeirra sem trúði á ódauðleika Nicolas og ætlaði að endurtaka leikinn. Það tókst honum því miður ekki, en engu að síður eru tilraunir hans sagðar hafa skilað sér í fyrsta efninu í heimi sem glóir í myrkri.

 

7 Snillingurinn sem vildi lengja lífið, en lét lífið í staðinn

Alexander Bogdanov var gífurlega hæfileikaríkur. Hann var afburðagreindur, menntaður læknir og gegndi herskyldu í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann skrifaði heilu ritgerðirnar um efnahagspólitík á stríðstímum og í frítíma sínum skrifaði hann vísindaskáldskap og ljós.

Eftir stríðið heillaðist hann af hugmyndum um blóðinngjöf sem lífslengjandi læknismeðferð. Á þriðja áratug 19. aldar gerði hann tilraunir á sjálfum sér. Hann taldi sig hafa öðlast betri sjón, stöðvað hárþynningu og unglegra útlit. Hann hélt því ótrauður áfram sem varð honum að falli. Árið 1928 tók hann blóð úr nemanda sínum og gaf nemandanum sitt eigið. Nemandinn var með bæði malaríu og berkla. Svo fór að nemandinn náði sér að fullu en Alexander veiktist alvarlega og lét í kjölfarið lífið.

8 Viðgerðarmaðurinn með frerageymslur á heilanum

Robert Nelson gerði við sjónvörp. Það var hans ævistarf eftir að hann hætti í skóla. Hann var þar að auki með frerageymslur á heilanum, en frerageymslur byggja á þeirri hugmyndafræði að manneskjur megi djúpfrysta eftir að þær deyja og svo lífga við í framtíðinni þegar búið er að finna lækningu við elli.

Hann sagðist í viðtali hafi orðið gagntekinn af frerageymslum eftir að hafa lesið bók þar sem því er haldið fram að dauðinn sé ekki óumflýjanlegur. Dauðinn sé sjúkdómur og því megi lækna hann eins og annað. Með því að frysta fólk í dag mætti lækna það af dauðanum í framtíðinni þegar læknavísindin eru lengra komin.

Robert var svo gagntekinn að hann gerðist formaður í samtökum áhugamanna um frerageymslur og árið 1967 fengu þau sjálfboðaliða sem samþykkti að vera djúpfrystur eftir dauðann. Sálfræðikennarinn James Bedford lét lífið 73 ára gamall. Hann var umsvifalaust færður í frystikistu á meðan frerageymsla hans var útbúin. Verst var þó að Robert og flestir í samtökunum höfðu enga læknisfræðimenntun og þurftu að spila þetta eftir eyranu. Því var eins konar frystikista útbúin, dauði prófessorinn sprautaður með frostlegi og svo bakkað ofan í kistuna með þurrís.

9 Múmíaðir munkar

Á tæplega þúsund ára tímabili gengust 30 lifandi Shingon munkar undir ferli sem kallast sokushinbutsu, eða sjálfmúmíun. Japönsku munkarnir þurftu í því skyni að taka upp trjáfæði og lifa aðeins á rótum, berki, könglum, hnetum og berjum. Þetta átti að undirbúa líkamann undir líffræðilega múmíun með því að losa munkana við fitu og vöðva. Þetta hjálpaði líkamanum einnig að forðast rotnun.

Þessi kúr gat tekið allt að þúsund daga. Eftir það tók næsta stig við, sanrō, sem gat tekið 4.000 daga. Í þessu stigi fólst að munkarnir einangruðu sig ofan á fjalli.

Næst var munkurinn settur í kistu úr furu og grafinn ofan í jörðu ásamt löngu bambusröri sem hann gat svo andað með. Munkurinn hringdi bjöllu reglulega til að láta vita að hann væri enn lifandi, en þar fyrir utan gerði hann ekkert annað en að hugleiða þar til hann dó úr hungri.

Þegar bjallan hætti að hringja fjarlægðu fylgjendur munksins bambusrörið og innsigluðu gröfina í þúsund daga. Loks var munkurinn grafinn upp og tekinn til skoðunar. Ef hann sýndi merki um rotnun var hann hreinlega grafinn að nýju. Ef hann væri heill þá taldist hann sannur sokushinbutsu og var klæddur upp og stillt upp á stall.

Í dag má finna 21 sokushinbutsu munka til sýnis í Japan. Svo segja má að þeim hafi tekist að verða ódauðlegir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís
Fókus
Fyrir 2 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum