fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fókus

Notar óleyst íslenskt morðmál frá 1968 sem stef – „Jú. Þetta er fyrsta morðmálið mitt“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 2. nóvember 2023 14:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maðurinn frá São Paulo tilheyrir ekki lengur mér einum,“ segir Skúli Sigurðsson rithöfundur kominn með eintak af annarri bók sinni í hendurnar. „Það er einstök tilfinning að fá fyrsta eintakið af bókinni sinni í hendurnar. Ánægja, stolt og spenna, maður verður jafnvel dálítið meyr. Gleði og léttir yfir að verkinu sé endanlega lokið.

Svo er eins og maður standi á brún þverhnípis; bókin er tilbúin og á leið fyrir sjónir miskunnarlausra lesenda. Eins og hún er. Ekki fleiri yfirlestrar eða lagfæringar, kaflastokkanir eða umorðanir eða tilfærslur á greinarmerkjum. Bókin er og verður svona og það verður ekki aftur snúið. Þetta er úr mínum höndum.“

Skúli var í helgarviðtali DV síðustu helgi sem lesa má hér: „Lífið allt er rannsóknarvinna“

Útgáfuhóf bókarinnar fer fram á morgun, föstudaginn 3. nóvember kl. 17 á Kjarval, en bókinni verður dreift í verslanir í dag og á morgun.

Hér á eftir fer þriðji kafli bókarinnar, en um hann segir Skúli í viðtalinu: „Ég held að margir sem lesa á bakhlið bókarinnar: „Árið 1977 finnst leigubílstjóri skotinn í hnakkann“ muni muna eftir óleystu morðmáli frá 1968. Bókin er ekki um það morð, heldur nota ég morðið sem einskonar stef í bókinni. Ég nota líka Íslending sem skapalón fyrir leigubílstjórann í bókinni en þó að í dag séu líklega fáir sem muna eftir því máli. Það er til að framkalla þessa sögulegu tilfinningu umfram önnur mál sem ég nota,“ segir Skúli.

Ísland 1977

Leigubílstjórinn hafði verið skotinn í hnakkann.

Fyrri byssukúlan hafði sprengt gat í höfuðkúpuna, rifið sér leið gegnum heilann og komið út um vinstra augað. Augað hafði, ásamt blóði, heilaslettum og beinflísum, frussast út um tóftina og yfir mælaborðið og framrúðuna. Kúlan fór ekki í gegnum þak bílsins, dældaði það  aðeins og gerði gat í klæðninguna. Þar sat hún föst. Seinni kúlan fór inn á sama stað en stöðvaðist á ennisbeininu.

Íbúi við Lynghaga hafði verið á leið til vinnu þegar hann kom auga á bílinn, skammt frá horninu við Ægisíðu. Þetta var svartur BMW, fremur nýlegur. Ljósin voru kveikt og vélin í gangi. Maðurinn hafði séð að bílstjórinn hengdi haus og gat sér þess til að eitthvað væri að. Þegar hann kom að bílstjóradyrunum sá hann að ökumaðurinn var særður, það blæddi úr andliti hans. Maðurinn bankaði á glerið en ökumaðurinn brást ekki við, hélt bara með vinstri hendinni um stýrið. Maðurinn opnaði dyrnar.

„Góðan dag, er allt í sómanum?“

Bílstjórinn svaraði engu og illur grunur læddist að manninum. Hann snerti vinstri hönd ökumannsins á stýrinu. Hún var köld og maðurinn kippti að sér hendinni. Kannski er hann aðeins handkaldur, hugsaði hann en vissi betur. Engin lifandi hönd var svona köld. Maðurinn tók á rás í átt að heimili sínu til að hringja á lögregluna en hægði svo á sér. Leigubílstjóranum lá ekkert á.

Þegar Héðinn Vernharðsson kom á vettvang skömmu síðar höfðu nokkrir íbúar safnast saman í grennd við leigubílinn. Lítið var að sjá en fólkið góndi og skrafaði, virtist ekki hafa neitt þarfara að gera þennan fallega maímorgun. Hann lagði Ford Consulnum og sá tvo einkennisklædda lögreglumenn sem gættu bílsins og gættu þess að enginn kæmi of nálægt. 

Fyrir utan þá var Héðinn fyrstur á staðinn, hann bjó á Fálkagötu og hafði farið út um leið og símtalið barst, kaffibollinn stóð ósnertur á eldhússkenknum og kólnaði. „Blessaður,“ sagði yngri lögregluþjónninn. Þeir Héðinn voru kunningjar.

Héðinn svaraði kveðjunni og kinkaði kolli til eldri lögregluþjónsins. Sá svaraði í sömu mynt en kuldalega. „Hvers hafið þið orðið varir?“ spurði Héðinn og nikkaði að leigubílnum.

„Það er ekki mikið,“ sagði yngri lögregluþjónninn og gaf Héðni bendingu um að koma með sér að bílnum. „Við staðreyndum að hann væri látinn en líkið var orðið kalt þegar vitnið kom að því.“

Þeir komu að bílstjóradyrunum sem voru opnar til hálfs. Héðinn virti fyrir sér blóðsletturnar á rúðunum. „Hann var skotinn í höfuðið,“ sagði lögregluþjónninn og benti.

„Líklega í hnakkann miðað við sletturnar,“ sagði Héðinn.

„Já, ætli það ekki,“ sagði lögregluþjónninn. „Vitnið opnaði dyrnar til að athuga ökumanninn, þess vegna eru þær opnar. Við höfum ekki snert á neinu.“

Án þess að koma við hurðina leit Héðinn inn um bíldyrnar. Vinstri höndin hélt um stýrið, á baugfingri var hringur sem virtist úr gulli. Ermin á peysu hins látna var dregin upp á miðjan framhandlegginn og Héðinn sá ljóst far þar sem úr hafði skýlt húðinni fyrir sólarljósi.

„Úrið var mögulega tekið, bendir til ráns. Hringurinn þó skilinn eftir,“ sagði Héðinn og hugsaði að kannski hefði morðinginn ekki viljað snerta frekar á líkinu og pilla hringinn af fingrinum. Hann leit á mælinn og sá að hann var í gangi.

„Mælirinn gengur,“ sagði hann. „Við ættum að geta fundið út hvenær hann tók síðasta farið upp í.“

Hann fiskaði agnarsmáa vasabók og blýant upp úr vasanum og nótaði hjá sér upphæðina á mælinum og tímann. Bætti við atriðum varðandi mögulegt rán og annað sem hann hafði orðið áskynja.

„Liggur fyrir hver þetta er?“ spurði Héðinn.

„Nei, við sáum engin skilríki en þeir niðri á stöð eru að athuga númerið og upplýsingar um bílinn. Ætti að kom í ljós fljótlega.“

„Einmitt,“ sagði Héðinn. Hann kom auga á dældina í þaki bílsins, rétt við framrúðuna. Skrifaði hjá sér að þetta gæti verið kúlan.

„Ekki snerta á neinu, Héðinn,“ kallaði eldri lögregluþjónninn, nógu hátt til að áhorfendurnir heyrðu.

Héðinn veifaði honum og kinkaði kolli. Hann var vanur því að eldri lögregluþjónar agnúuðust út í hann. Þeir gerðu sér rellu út af því að Héðinn hafði verið gerður að rannsóknarfulltrúa aðeins 27 ára gamall eftir nokkurra ára feril í almennu lögreglunni. Þetta var ekki beinlínis afbrýði heldur frekar almenn andúð á framgangi yngri manna og óánægja með breytta tíma.

Yngri lögregluþjónninn hnussaði.

„Hann er óþolandi,“ sagði hann.

„Við tölum kannski við vitnið á meðan við bíðum eftir tæknimanninum,“ sagði Héðinn og kom sér undan að svara.

Maðurinn sem fann líkið stóð með krosslagða handleggi aðeins afsíðis frá hópnum sem fylgdist með. Héðinn gaf sig á tal við hann og spurði um aðkomuna. Maðurinn svaraði greiðlega en vissi fátt sem ekki lá ljóst fyrir eða gæti gagnast rannsókninni.

Hann hafði engan séð á ferli. Á meðan þeir töluðu saman bar annan lögreglubíl að og tveir lögregluþjónar í viðbót tóku sér stöðu á vettvangnum. Skömmu síðar kom tæknimaðurinn. Hann ók rauðri Volkswagen-bjöllu og það var dálítið sjónarspil að sjá langan og slánalegan manninn stíga út úr litlum bílnum.

„En varðstu var við eitthvað í nótt eða fyrr í morgun?“ spurði Héðinn vitnið og leit af tæknimanninum.

„Hvernig þá?“

„Hvað sem er, eitthvað sem gæti tengst þessu.“

„Nei, það held ég ekki.“

„Þú hefur ekki heyrt neitt?“

„Þú meinar skothvell?“ sagði vitnið og hafði skilist eftir hverju Héðinn var að fiska. „Nei, ég varð ekki var við slíkt. Þetta var bara hver annar morgunn þar til ég kom auga á bílinn.“

„Einmitt það,“ sagði Héðinn.

Þeir yrðu að spyrja íbúa við götuna hvort einhver hefði heyrt skothvell, það gæti gagnast við að tímasetja morðið. Héðinn þakkaði vitninu fyrir og sagði að verið gæti að haft yrði samband að nýju. Þeir kvöddust og Héðinn fór aftur að bílnum þar sem tæknimaðurinn hafði hafið vinnu sína. Héðinn ætlaði að heilsa honum þegar yngri lögregluþjónninn kom til hans.

„Þeir á Hverfisgötu létu fletta bílnum upp, Páll Ósvaldsson er skráður fyrir honum. Hann er leigubílstjóri og býr hér rétt hjá, á Birkimel 4. Eða ég ætti kannski að segja bjó.“

Héðinn brosti út í annað. „Við þurfum að staðfesta að þetta sé eigandinn undir stýri.“

Lögregluþjónninn samsinnti þessu en báðir þóttust þeir vissir um að hinn látni og eigandinn væru einn og sami maðurinn, ekkert benti til annars.

Héðinn fór til tæknimannsins, manns að nafni Önundur. Með filterslausa Camel hangandi í munnvikinu hafði hann nú þegar tekið myndir af vettvangnum og þeir ræddu hvernig skyldi fara að og hvers væri leitað. Héðinn var ekki lágvaxinn maður en þurfti samt að reigja sig til að horfa upp til Önundar.

„Ég á eftir að skoða það nánar,“ sagði Önundur niður til Héðins, „en ég sé ekki betur en að hann hafi verið skotinn tvisvar.“

„Bæði skotin í hnakkann?“ Héðinn hafði ekki aðgætt skotsárin sérstaklega.

„Já, á svo til sama stað.“

„Þetta er hrein og klár aftaka,“ sagði Héðinn og strauk yfirvaraskeggið með þumli og vísifingri.

„Svo virðist vera,“ sagði Önundur og dró að sér reyk. „Er þetta ekki fyrsta morðmálið þitt?“

Héðinn kipraði varirnar, kinkaði svo kolli.

„Jú. Þetta er fyrsta morðmálið mitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Baldvin Z man nákvæmlega daginn sem hann varð vitni að flugslysi

Baldvin Z man nákvæmlega daginn sem hann varð vitni að flugslysi
Fókus
Í gær

Karlmenn lýsa skelfilegri aukaverkun af Ozempic – „Þú getur sagt bless við kynlíf“

Karlmenn lýsa skelfilegri aukaverkun af Ozempic – „Þú getur sagt bless við kynlíf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla“

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mistök að veita Britney frelsi, segir geðlæknir – „Hún er stjórnlaus“

Mistök að veita Britney frelsi, segir geðlæknir – „Hún er stjórnlaus“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sextug kona sigraði í fegurðarsamkeppni

Sextug kona sigraði í fegurðarsamkeppni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sigríður Dögg í óheppilegum árekstri við hunangsflugu – Á lífi en særð eftir atganginn

Sigríður Dögg í óheppilegum árekstri við hunangsflugu – Á lífi en særð eftir atganginn