„Við töluðum saman í marga daga og vildum fara á almennilegt stefnumót, Ísland virtist vera hentugur staður mitt á milli okkar,“ segir Ansa Edim, 35 ára, sem búsett er í Washington í Bandaríkjunum.
Leitin að hinum eina sanna leiddi hana alla leið til Íslands, þar sem hún fann loksins draumaprinsinn, ekki þó íslenskan víking, heldur Skota, en parið er nú í sambandi þrátt fyrir að 4500 kílómetrar eða þar um bil skilji þau að.
Edim kynntist eiginmanni sínum í skóla, þau giftu sig árið 2011, þá 22 ára gömul eftir að hafa verið saman í fjögur ár. Eftir sex ára hjónaband ákváðu þau að skilja og Edim prófaði stefnumótaöpp til að finna nýja ást í lífi sínu.
„Ég hafði aldrei prófað stefnumótaöpp áður, eða yfirhöfuð farið á stefnumót. En ég fór á fullt af stefnumótum,“ segir Edim við Metro, en stefnumótin voru það mörg að Edim kom sér upp Excel skjali til að halda utan um stefnumótalíf sitt.
Eftir tvö ár af stefnumótum kynntist Edim karlmanni á Bumble, 30 ára gömlum lögfræðingi. Hlutirnir gerðust hratt, sambandið varð alvarlegt og um það leyti sem kórónuveirufaraldurinn skall á í mars 2020 trúlofuðu þau sig og lokuðu sig af saman. Edim áttaði sig þó á því að hann var ekki maðurinn sem hún vildi verja ævinni með og sleit hún trúlofuninni árið 2021.
„Ég held bara að með heimsfaraldrinum og innrásinni á Capitol (bandaríska þinghúsið) hafi ég áttað mig á að lífið er stutt. Mig langaði ekki að verða eiginkona og móðir, ég vildi frekar vera í flæðinu. Og við áttuðum okkur á að við áttum bæði skilið að fá það sem við vildum,“ segir Edim sem sagði upp starfi sínu og hélt til Evrópu.
Á næstu tveimur árum ferðaðist Edim víða í Evrópu, meðal annars til Norður-Írlands, Íslands, Þýskalands og Bretlands og hélt hún áfram að nota stefnumótaöppin. „Ég naut þess að nota stefnumótaöpp í Evrópu.“
Á Tinder kynntist hún þrítugum tónlistarmanni, David Michael, sem búsettur er í Edinborg í Skotlandi. „Á þeim tíma var ég ekki spennt að hitta neinn, en hann er ótrúlegur og við áttum ævintýralegt fyrsta stefnumót,“ segir Edim.
Ákváðu þau að hittast í fyrsta sinn í Reykjavík.
„Við keyrðum um allt Ísland tímunum saman, enda ferðamenn. Við sáum Geysi, fossana og Reðursafnið. Við komumst að því að við erum bæði algjörir matgæðingar og prófuðum mikið af íslenskum mat, við borðuðum hval, lunda, hest og gerjaðan hákarl. Svo fórum við að horfa á lifandi djasstónlist,“ segir Edim, en þau leigðu í Airbnb í eina viku hérlendis.
Parið hélt hvort til síns heimalands 10. október og hafa þau sent hvort öðru skilaboð á hverjum degi síðan.
„Við höfum í rauninni ekki þekkst mjög lengi – og við höfum aðeins átt þrjú og hálft stefnumót, ef þú telur þetta fyrsta kvöldið með. Samband okkar er ekki alvarlegt, allavega ennþá, en ég hef lært að hafa gaman þar til það er ekki lengur gaman.. Ég er ekki viss um hvernig og hvort það er hægt að vera í alvöru sambandi þegar fólk býr í sitt hvorri heimsálfunni, en ég er á fullu að leita að vinnu í Evrópu.“