Svona hefst pistill Nínu Guðrúnar Arnardóttur á Vísi þar sem hún skrifar um upplifun sína af heilbrigðiskerfinu á Íslandi og þeim ótal mörgu læknisheimsóknum sem enduðu í vonbrigðum.
„Ég fann það strax tveimur til þremur árum eftir að ég fór fyrst á túr að ekki væri allt með felldu. Ég tók mikið af verkjalyfjum, grét mig í svefn, átti erfitt með að mæta í skólann og stundirnar þar sem ég lá í fósturstellingu á gólfinu eru þónokkrar. Ég leitaði því til læknis sem setti mig á pilluna. Mér var ráðlagt að taka pilluna samfellt í þrjá mánuði í senn, til þess að fara ekki á túr. Með stjörnur í augunum hélt ég að þetta yrði töfralausnin sem ég var búin að leita að lengi. Annað kom þó á daginn. Aukaverkanirnar fóru strax að segja til sín og í upplifði mikið þunglyndi og kvíða á þeim árum sem ég var á pillunni. Ég var sett á þunglyndislyf og upplifði miklar sjálfsvígshugsanir. Ég tengdi það þó ekki við pilluna, þar sem hún var jú töfralausnin og losaði mig við það að vera í verkjahelvíti einu sinni í mánuði. Þegar ég loksins hætti á pillunni var eins og dregið væri frá gardínum í huganum á mér og þunglyndið snarlagaðist. En verkirnir komu þá aftur, einu sinni í mánuði og mér fannst þeir versna í hvert skipti sem ég fór á túr.“
Nína Guðrún er með endómetríósu en það liðu mörg ár þar til hún fékk viðeigandi læknisaðstoð.
„Mér hefur verið sagt upp störfum vegna veikinda frá fjórum vinnustöðum og auk þess fengið að upplifa mótlæti og vanskilning frá yfirmönnum. Á þeim árum leitaði ég til heimilislækna og kvensjúkdómalækna en ekkert virtist að hafa upp úr því. Ég hélt því áfram að berjast við að „harka þetta af mér“, mæta til vinnu á sterkjum verkjalyfjum og að reyna að halda lífinu gangandi. Ég var alltaf opin við mína yfirmenn um verkina sem ég upplifði en fékk oftar en ekki að heyra að „allar konur færu nú á túr“ og að „það væri ekki hægt að treysta á mig í starfi“.
Árið 2022 fékk Nína nóg eftir að hafa fengið áminningu frá þáverandi yfirmanni hennar vegna fjarvista úr starfi.
„Ég skrifaði lista af þeim einkennum sem ég hafði upplifað frá því að ég fór fyrst á túr og hélt full vonar til nýs kvenskjúkdómalæknis. Ég sagði henni að ég héldi að ég væri með endómetríósu. Hún tók mig í allsherjarskoðun, sagði að ég væri með blöðrur á eggjastokkum og sendi mig í blóðprufu. Þegar heimsókn minni til hennar var að ljúka sagði hún þó við mig orðrétt „þú getur nú alveg líka misst svona 10 kíló og þá ættu verkirnir þínir að hætta“. Ég varð agndofa, gat ekki svarað henni en gekk bara út. Þess má geta að þegar ég fór til hennar var ég um 68 kg, 170 cm á hæð og því hæpið að ofþyngd væri að há mér nokkuð. Þess má einnig geta að verkirnir höfðu þá verið að hrjá mig í 12 ár og á þeim tíma var ég í kjörþyngd. Ég beið þó spennt eftir að heyra frá henni hvað hefði komið út í blóðprufunni, en ekkert heyrðist frá henni. Á endanum, u.þ.b. 10 dögum síðar fékk ég nóg af biðinni og hringdi í hana. Hún sagði þá stuttaralega við mig að ekkert hefði komið út úr blóðprufunni. Eftir þetta upplifði ég mikla uppgjöf og mér virtist eins og ég gæti hvergi fengið aðstoð.“
Hálfu ári síðar ákvað Nína að reyna aftur og pantaði tíma hjá öðrum lækni. Hún taldi sig á leið í öruggar hendur þar sem Endósamtökin mæltu með honum. Því miður varð hún aftur fyrir vonbrigðum.
„Ég sagði sömu ítarlegu sögu við hann, bætti því við að blöðrur hefðu fundist á eggjastokkum í síðustu skoðun og að ég vildi vita fyrir víst hvort ég væri með endómetríósu, sem einungis er greinanleg í aðgerð. Eftir að hann skoðaði mig sagði hann, orðrétt „þetta er nú svolítið endó-legt, en iss það fara allt of margar konur í svona aðgerð“. Aftur varð ég agndofa. Hann bætti því einnig við að eina ráðið væri að fara á pilluna, en þegar ég sagði að ég hefði slæma reynslu af pillunni nefndi hann aðrar hormónagetnaðarvarnir. Ég fór gjörsamlega niðurbrotin úr þessum tíma og mér leið eins og engin von væri að ná tökum á verkjunum sem ég var enn að upplifa mánaðarlega.“
Nínu var sagt upp úr draumastarfinu vegna fjarveru og framtíðarsýnin var dimm. Loks sást vonarglæta eftir að henni var bent á að fara til kvensjúkdómalæknis sem væri tiltölulega nýkominn til landsins og með mikla reynslu í aðgerðum á svæsinni endómetríósu. Nína var strax send í kviðarholsspeglun.
„Eftir hana sagði læknirinn mér að hann hefði fundið mjög mikla og svæsna endómetríósu sem hafði dreift sér um kviðarholið, á ristil og þvagblöðru. Hann náði að fjarlægja hana í aðgerðinni. Við þessar fréttir brast ég næstum í grát og ég hef aldrei upplifað annað eins þakklæti í garð læknis. Loksins er framtíðin björt og ég sé fyrir endann á verkjunum sem hafa háð mér svo lengi. Endómetríósa getur þó alltaf vaxið aftur og ég gæti þurft að fara í aðra aðgerð til þess að fjarlægja hana eftir einhvern tíma. En ég legg það glöð á mig.“