Karitas Harpa Davíðsdóttir tónlistarkona samdi nýjan texta við hið vel þekkta lag Ekkert mál með Grýlunum. Lagið flutti hún svo með nýja textanum á samstöðufundi kvenna og kvára í Neskaupstað í gær.
Í færslu á Facebook segist Karitas hafa hugsað um og samið textann á mánudagskvöld, degi fyrir kvennaverkfall.
„Í gærkvöldi meðan ég var að svæfa dóttur mína var ég að hugsa um lögin sem við höfðum skoðað og íhugað, eitt þeirra var „Ekkert mál“ með Grýlunum. Eins mikið og ég elska það lag, og þá sveit, langaði mig meira að syngja um okkur á þessum degi. Hausinn minn fór á fullt og ég settist niður eftir að Bogey sofnaði og skrifaði upp það sem mér þótti geta verið jafnvel enn meira viðeigandi á þessum mikla degi.“
„Mikið væri gaman ef þið Ragnhildur Gísladóttir mynduð taka lagið upp með þessum texta! Ég skora á ykkur tvær að taka höndum saman og endurútgefa lagið með þessum texta!,“ segir Íris Hólm Jónsdóttir, söngkona og förðunarfræðingur.
Ekkert mál – Grýlurnar
(texti Karitas Harpa Davíðsdóttir)
Hvað er svona merkilegt við það
að vera kvenmaður?
Hvað er svona merkilegt við það
að “passa” börn?
Hvað er svona merkilegt við það,
að sinna heimili?
Passa’ð allir fái rétta stærð í jólagjöf?
Að vinna’á leikskóla?
Ekkert mál
Að vera kennari?
Ekkert mál
Að veita umönnun?
Ekkert mál?
Að sinna þjónustu?
Ekkert mál
Það er ekkert mál
Er nokkuð merkilegt við það, að vera óörugg?
Að geta ekki gengið ein um nótt, með heyrnatól
Ef það er ekkert merkilegt við það,
að vera kvennmaður.
Afhverju má ég ekki fara út, í stuttum kjól?
Að plana sumarfrí?
Ekkert mál
Að plana vikuna?
Ekkert mál
Að plana máltíðir?
Ekkert mál
Fara yfir barnaföt?
Ekkert mál
Ef það er ekkert merkilegt við það,
að vera kvennmaður
Hvernig erum við þá svona mörg að brenna út?
Ef það er ekkert merkilegt við það að sinna þriðju vakt,
fara stórir menn þá í fýlu’ og setj’upp stút?
Að vinna’á leikskóla?
Ekkert mál
Að vera kennari?
Ekkert mál
Að veita umönnun?
Ekkert mál?
Að sinna þjónustu?
Ekkert mál
Það er ekkert mál