Æviminningar söngkonunnar Britney Spears, The Woman In Me, er komin út og hefur vakið mikið umtal. Nýjustu fréttir upp úr bókinni greina frá því að faðir söngkonunnar, James Spears, hafi þvingað dóttur sína í meðferð árið 2014 þegar hún var í föstu starfi í Las Vegas.
Kærasti söngkonunnar á þeim tíma var Charlie Ebersol, en hann kynnti söngkonuna fyrir orkugefandi bætiefnum án þess að bera það undir lögráðamann hennar, James. Þetta voru svokölluð pre-workout bætiefni sem innihalda mikið koffín ásamt hinum ýmsu vítamínum. Charlie byggði ráðgjöf sína á næringarannsóknum og taldi sig vera að hjálpa Britney sem var undir miklu álagi.
„Faðir minn kunni ekki að meta það. Hann vissi hvað ég borðaði; hann vissi meira að segja hvenær ég fór á klósettið. Svo þegar ég fór að taka þessi orkugefandi bætiefni þá sá hann að ég var líflegri á sviðinu og í betra formi en áður.“
Britney var lukkuleg með bætiefnin og taldi þau gera sér gott. Faðir hennar hafi þó fljótt ákveðið að hún væri orðin háð efnunum, þó hér væri um að ræða lögleg efni sem voru seld í heilsuverslunum.
„Hann sagði mér að ég yrði að hætta og sendi mig í meðferð.“
Þannig endaði Britney á meðferðarstofnun í Kaliforníu ásamt fólki sem glímdi við alvarlegan fíknisjúkdóm.
„Það hræddi mig að vera þarna ein,“ segir söngkonan í bókinni og sagði föður sinni hafa komið hryllilega fram að henda henni þangað inn ásamt fólki sem glímdi við krakk og heróín fíkn. Þegar hún losnaði svo úr meðferðinni þá ætlaðist faðir hennar til að hún héldi áfram að koma fram í Las Vegas eins og ekkert hefði í skorist. Britney hafi orðið við því þar sem á þessum tíma hafi hún enn viljað gera öllum til geðs og halda öllum í kringum sig góðum.
Þremur árum síðar var hún aftur rekin í meðferð þegar faðir hennar fann bætiefni í veski hennar.
„Ég var neydd til þess að fara. Ég var rekin inn í öngstræti og hafði ekkert val. Þau læstu mig þarna inni mánuðum saman gegn mínum vilja.“
Þarna hafi Britney áttað sig á því að þetta gengi ekki lengur. Hún yrði að fá frelsið sitt aftur. Hún beindi þeim orðum til aðdáenda sinna að þeir sem tóku þátt í að tala hennar máli á þessum tíma, þegar hún gat það ekki sjálf, eigi þakkir skilið.
„Frá rótum hjarta míns, takk“
Britney er sem stendur að skilja við eiginmann sinn, Sam Asghari, eftir skammlíft hjónaband. Bókin var rituð á meðan allt lék í lyndi. Þar fer hún fögrum orðum um Sam og segist kunna að meta stöðugleikann sem hún fann með honum og að hann drekki ekki áfengi. Hún hafi vitað strax þegar hún hitti hann að þetta væri maðurinn sem hún þurfti. Hann hafi gefið henni hugrekkið til að brjótast undan oki sjálfræðissviptingarinnar.
„Ég lít upp til hans. Hvað hann er duglegur að stunda líkamsrækt og hversu góð manneskja hann er. Hvernig hann passar upp á heilsuna og passar upp á mig og hvernig hann hjálpar mér að læra hvernig við styðjum hvort annað. Hann er mér innblástur og ég er þakklát fyrir hann.“
Britney rekur að í aðdraganda sjálfræðissviptingarinnar hafi hún glímt við erfitt fæðingarþunglyndi. Stöðug athygli fjölmiðla hafi verið olía á þann eld og gert andlegu veikindin þyngri og alvarlegri. Umræðan um andlega heilsu hafi ekki verið komin jafn langt og í dag. Fordómar hafi verið miklir og ekki talið að mæður gætu verið foreldrar samhliða veikindum.
„Ég veit núna að ég sýndi öll einkenni meðgönguþunglyndis, depurð, kvíða og örmögnun,“ sagði Britney sem á tvo syni með fyrrum eiginmanni sínum, Kevin Federline. Meðgönguþunglyndið varð svo fæðingarþunglyndi og hún hafi verið fráviða af sorg og angist. Hún hafi upplifað sig eina, maður hennar hafi yfirgefið hana, hún var með aðskilnaðarkvíða gagnvart sonum sínum, missti uppáhalds frænku sína og svo var þrýstingur frá paparazzi ljósmyndurum og fjölmiðlum stöðugur. Undan þessu öllu hafi hún brotnað og í stað þess að hjálpa henni í gegnum þetta hafi þeir sem stóðu henni næstir nýtt færið til að svipta hana sjálfstæðinu.
Hún hafi snoðað sig í mótmælaskyni, en við það missti hún tökin á öllu. Henni hafi verið sagt að hún væri of veik til að taka ákvarðanir. Hún væri ekki dómbær á það hvern hún mætti elska, en á sama tíma átti hún að vera nógu heilbrigð til að leika í gamanþáttum og koma fram á stórum tónleikum. Hún hafi verið eins og api í búri.“