fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

„Mér finnst þetta alveg sturlað umhverfi. Í alvöru þetta er sturlað. Það er algjör kaos“

Fókus
Mánudaginn 23. október 2023 19:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgerður Árnadóttir aktívisti, grænkeri, náttúrubarn og varaþingmaður Pírata er nýjasti viðmælandi Mumma í Kalda Pottinum. Hún hefur verið mjög áberandi í umræðunni síðustu misserin og er óhrædd við að vekja athygli á því sem betur mætti fara í samfélaginu, hvort sem það tengist hvalveiðum, sjókvíaeldi, þauleldi dýra, gerendameðvirkni eða öðru sem henni finnst þurfa að draga upp á yfirborðið, inn í umræðu dagsins. Þau Mummi ræddu meðal annars hvernig orðræðan getur orðin svæsin á samfélagsmiðlum og Vala sagðist fá vin sinn sem er lögfræðingur til að lesa yfir orðfærið sem menn ausa reglulega yfir hana til að athuga hvort í þeim leynist alvarlegar hótanir.

Kölluð öllum nöfnum

Valgerður hefur alla tíð verið mikill dýravinur, líkt og móðir hennar. Heimili hennar í æsku varð einskonar samastaður fyrir gæludýr sem aðrir höfðu gefist upp á og 12 ára gömul ákvað Valgerður að það samrýmdist ekki ást hennar til dýra að borða kjöt. Hún hætti þá að borða kjöt. Síðar gerðist hún grænmetisæta og svo eftir að hafa tekið þátt í veganúar árið 2016 var ekki aftur snúið og skömmu síðar var hún á fullu að starfa fyrir samtök grænkera á Íslandi og tala máli dýranna.

Fyrir vikið byrjaði hún að fá yfir sig hatur á samfélagsmiðlum og í athugasemdum sem hún átti fyrst erfitt með að kyngja. Fljótlega þykknaði skrápurinn og ná nettröll ekki lengur að angra hana líkt og áður.

„Ég hef verið kölluð öllum nöfnum á Facebook. Það hefur orðið það slæmt að ég hef bara hætt að lesa kommentakerfin. Fyrst út af mataræðinu, en það hefur minnkað, en svo dirfist ég að segja eitthvað þegar ráðist er á konur eins og Eddu Falak, málið sem kom upp í Vestmannaeyjum, og eins og þegar Ingó veðurguð er ráðinn á einhverja tónleika og ég dirfist þá að segja að það sé gerendameðvirkni eða að það verði að standa með konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Nú er það svona aðalmálið. Þá er hjólað í mig og þetta verður stundum svo slæmt að ég er bara með vin minn sem er lögfræðingur og hann les yfir til að sjá hvort þetta séu alvarlegar hótanir.“

Þarf að taka á orðræðunni áður en hún verður verri

Valgerður segist þó ekki barma sér mikið yfir þessu, enda njóti hún þeirra forréttinda að vera hvít, ljóshærð, bláeygð íslensk kona. Öðru sé farið með vinkonur hennar, Eddu Falak og Semu Erlu, sem eru baráttukonur af erlendum uppruna og sökum þess leyfi netverjar sér alveg fordæmalausa heift í þeirra garð.

Valgerður segir að netið geri það að verkum að fólk upplifir að það geti sagt hvað sem er, jafnvel þó það sé fyrir allra augum og ekki sé hægt að taka það til baka. Valgerður segir að Ísland sem samfélag verði þó að taka á þeirri orðræðu sem hafi fengið að þrífast á netinu undanfarið. Annars verði hætt við því að hatrið verði viðtekið norm og orðræðan verður enn verri. Vissulega sé erfitt að eiga við þetta þar sem rannsóknir hafi hreinlega sýnt fram á að á öllum tímum séu um 20 prósent manns alltaf að fara að synda á móti straumnum í umræðunni. Þeir séu á móti bara til að vera á móti.

Hún vonar þó að siðferðisþröskuldurinn sé að hækka, en það ferli sé hægt að stundum komi bakslag í baráttuna.

Sturlað umhverfi sem er ekki fyrir gott fólk

Eftir að hún varð varaþingkona sá hún líka hvernig neikvæð orðræða og átök eru orðin hluti að menningunni þar.

„Við leyfum okkur að segja rosalega ljóta hluti í rauninni. Orðræðan, og við þurfum alltaf að vera í slagi yfir öllu. Það er lítið um málefnalega umræðu og lítil samvinna. Mér finnst samvinnu í samfélaginu vanta svo ofboðslega. Það er það sem ég sá til af því að litla sem ég hef verið inni á þingi, hvað mér finnst sjokkerandi að minnihlutinn og meirihlutinn, get bara aldrei komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut.

Ef það kemur frumvarp hjá minnihlutanum þá er meirihlutinn bara búinn að ákveða fyrirfram að ekki styðja það. Það má ekki styðja neitt sem kemur frá minnihlutanum því ef það er góð hugmynd, þá styðja þau það ekki, heldur taka það upp sjálf á næsta ári svo þau geti lagt það fram.“

Þarna sé góðum málum frestað því það skiptir stjórnmálamenn meira máli hver leggur það fram heldur en að lögleiða góðar og mikilvægar breytingar, almenningi til hagsbóta, eins hratt og auðið er.

„Þetta er bara svo mikill egóismi og lengir ferlið að öllu leyti.“

Alþingi sé í raun galið starfsumhverfi. Vinnan snúist um að rífast við andstæðinga í þingsal, en svo um leið og stigið er úr pontu þá séu þetta bara kollegar sem spjalla við mann á kaffistofunni.

„Mér finnst þetta alveg sturlað umhverfi. Í alvöru þetta er sturlað. Það er algjör kaos. Fólk bara rífst og skammast inni í þingsal og svo fer það bara og fær sér kaffi saman og borðar hádegismat saman. Þetta er voða skrýtið. Þetta er ekki allt leikrit. En þetta er samt miklu meira leikrit heldur en ég áttaði mig á.“

Í raun sé orðin einhvers konar menning innan stjórnmála að það sé ekki í boði að eiga samstarf við pólitíska andstæðinga nema bak við luktar dyr. Fyrir framan myndavélarnar þurfi alltaf að vera stál í stál.

„Og ég skil alveg að gott fólk fari ekki í stjórnmál því þetta er ekki umhverfi sem gott og heiðarlegt fólk þolir til lengdar. Ekki nema með því að mynda þykkan skráp.“

Hlusta má á viðtalið við Valgerði og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?