Blush hefur selt gríðarlega vinsæl jóladagatöl síðastliðin níu ár og undanfarin ár hafa þau selst í tonnatali.
Dagatalið í ár fór nýlega í sölu en neytendur tóku eftir því að verslunarkeðjan Elko væri farin að selja sama dagatal.
Kona, sem kaus að koma fram nafnlaus, vakti athygli á þessu í Facebook-hópnum Beauty Tips.
„Vitið þið af hverju Blush er að endurmerkja jóladagatölin sín sem þau fá frá EasyToys Naughty & Nice. Tók eftir því að þau eru búin að vera gera það allavega síðustu 3 ár, og það er hægt að kaupa dagatalið ódýrar á netverslun Elko.“
Dagatalið kostar 26.990 krónur hjá Blush og 19.990 krónur hjá Elko.
Gerður svaraði og þakkaði höfundi færslunnar fyrir að varpa fram þessari spurningu.
„Ég skil mjög vel að þetta séu mikil vonbrigði enda kemur þetta okkur jafn mikið á óvart og ykkur. Blush leggur mikinn metnað í það að bjóða upp á frábært vöruúrval, faglega þjónustu og samkeppnishæf verð,“ sagði hún og útskýrði ferlið á bak við dagatölin.
„Síðustu árin höfum við verið svo heppinn að fá að vera partur að hönnun og framleiðslu af dagatalinu hjá Loveboxxxx. Þar tökum við þátt ásamt nokkrum vel völdum stórum kynlífstækjaverslunum í Evrópu í því að hanna og velja vörur í dagatalið.
Ferlið er mjög skemmtilegt og lærdómsríkt og hefst tólf mánuðum áður en varan kemst loksins í sölu.
Þetta er okkar möguleiki til að búa til okkar „eigin“ dagatal þar sem Ísland er svo lítið land að við gætum aldrei framleitt það magn sem þarf til til þess að bjóða ásættanlegt verð og þess vegna vinnum við þetta sem hópur.“
Gerður sagði að Blush hefur aldrei farið leynt með hver framleiðandi dagatalsins er. „Það hefur aldrei verið leyndarmál og allar merkingar um hver framleiðandi dagatalsins er er á boxinu og vörunum. Við höfum óhikað bent Íslendingum sem búa erlendis á að þeir geti pantað dagatalið á xxx síðum þegar þeir hafa óskað eftir að fá dagatalið sent út fyrir landsteinana.“
Gerður sagði að Blush hefur verið og er áfram eina verslunin á Íslandi sem hefur fjárfest og tekið þátt í þessu verkefni með Loveboxxxx.
„Nú er komin upp sú staða að verslun á Íslandi hefur með einhverju móti nennt að hafa fyrir því og náð að kaupa örfá eintök í gegnum þriðja aðila og ofan á það ákveðið að gera leikinn “skemmtilegan” með því að selja dagatölin á kostnaðarverði eða í raun undir kostnaðarverði ef allur kostnaður er tekin inn í,“ sagði hún.
„Þetta er að sjálfsögðu mjög súrt, í ljósi allrar þeirrar vinnu sem hefur farið í verkefnið hjá okkur. En á sama tíma getur þetta gerst.“
Gerður hvatti fólk til að versla hjá Elko á meðan birgðir endast.
„Ég hvet ykkur til að spara ykkur krónurnar og kaupa dagatalið hjá þeim á meðan birgðir endast! Enda frábær díll þó svo að það sé ansi súrt að horfa á verslunar „risa“ nýta sér okkar vinnu til góðs aðeins til að særa okkar vörumerki. En þetta verður lærdómur fyrir okkur öll sem erum í hópnum.“
Yfir 140 manns hafa líkað við athugasemd Gerðar þegar fréttin var skrifuð.
„Það hefur alltaf verið okkar markmið að vera heiðarleg og í þessum bransa til að gera hann betri,“ bætti hún við.