Tanja Ýr Ástþórsdóttir er nýjasti gestur Einkalífsins á Vísi þar sem farið er um víðan völl. Tanja hefur verið meðal þekktustu áhrifavalda landsins undanfarin ár og hefur sem slík mátt þola ýmislegt þegar kemur að opinberri umræðu.
Í þættinum, sem fjallað er um á Vísi, rifjar hún upp kjaftasögu sem fór á flug um það leyti sem hún fór sem fulltrúi Íslands í Miss World-keppninni sem haldin var í London.
Tanja varð fyrir því óhappi að kjálkabrotna nokkrum vikum fyrir keppnina.
„Ég fer upp á Slysó og allt þetta og ég held að það hafi verið um viku síðar að þá heyrir kona frá ákveðnum fréttamiðli í vinkonu minni og spyr í hvers konar lýtaaðgerð ég var í,“ segir Tanja meðal annars og bætir við að í kjölfarið hafi hún lokast alveg.
„Þá vildi ég ekki segja neinum frá þessu og ég vildi passa að ég kæmist út til London. Það er kannski það óþægilega, sumar sögur eru teknar algjörlega úr samhengi og ekkert af því sem er verið að segja gerðist,“ segir hún og bætir við að það sé stressandi þegar sagan er tekin úr höndunum á manni.