Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Árborg, segir að framkoma þingflokks Pírata í garð Birgittu Jónsdóttur á átakafundi árið 2019, vera svartan blett í sögu flokksins sem hafi í raun ekki enn jafnað sig á uppákomunni. Þeir sem hafi stutt Birgittu hafi fallið í ónáð hjá þingflokknum og upplifað sig hundsaða í kjölfarið. Engu að síður hefur Álfheiður enn trú á flokk sínum og segist stefna á þing, en fyrst þarf að gera eitthvað í málefnum Árborgar sem sé farið að taka lán til að borga af öðrum lánum.
Ofangreint kom fram í nýjasta þættinum af Kalda pottinum, frá sviðinu í Gömlu Borg. Þar ræddi pönk-rokkari Álfheiður, eða Alfa eins og hún er kölluð, við Mumma Tý Þórarinsson um litríka og á köflum afar erfiða sögu sína. Allt frá því að hún var lítil stelpa á Höfn í Hornafirði þar til hún flutti á Selfoss fyrir nokkrum árum síðan. Í þættinum ræða þau Mummi og Alfa meðal annars æskuna hennar á Höfn, óreglu á unglingsárum, hvernig hún náði síðar að snúa við blaðinu, mennta sig, taka að sér ábyrgðarmikil hlutverk í vinnu og hvað leiddi hana út í virka þátttöku í pólitík.
Ölfu dreymdi upprunalega að starfa sem rannsóknarblaðamaður. Eftir stúdentspróf ákvað hún því að nema stjórnmálafræði við háskólann og fékk starf á fjölmiðli. Á þessum tíma hafði Alfa djammað yfir sig. Helgardjammið var farið að leggjast þungt á andlegu heilsuna og fór svo á endanum að hún fór í meðferð. Þegar hún var komin þaðan sá hún drauminn renna sér úr greipum, en fjölmiðlinum var mikið vinnuálag, stífir skilafrestir, keðjureykingar og töluverð drykkja. Þetta var því ekki rétta umhverfið fyrir manneskju í bata.
Næst tók við nám í tölvunarfræði í Englandi, og þó svo Alfa hafi ekki klárað gráðuna þá opnaði námið dyr en næsta áratuginn „rakaði“ hún inn peningum sem ýmist verktaki eða yfirmaður í tölvudeildum fyrirtækja. Þegar hún varð ófrísk flutti hún aftur til Íslands og hóf þá störf hjá Reykjavíkurborg, og tókst svo loksins að setja tappann í flöskuna með góðum stuðningi frá konum innan sporasamtakanna.
Alfa var enn hjá borginni þegar Ísland fór á hliðina í hruninu 2008. Hún fann þá fyrir mikilli þörf til að gera eitthvað, til að styðja við þá sem voru að mótmæla og þá sem börðust fyrir stjórnarskiptum. Þar sem hún var embættismaður taldi hún þó óviðeigandi að hafa slík afskipti og beið hún því eftir að kjörtímabilinu lyki, en þegar Jón Gnarr tók við sem borgarstjóri 2010 sagði Alfa starfi sínu lausu. Hún segist á þessum tíma hafa fylgst mikið með Birgittu Jónsdóttur og hafði miklar mætur á henni.
Því lá beinast við að þegar Birgitta stofnaði Pírataflokkinn að Álfheiður gengi í þeirra raðir. Árið 2017 bauð Álfheiður sig fyrst fram og endaði sem varaþingmaður á því kjörtímabili og tók minnst fimm sinnum sæti á Alþingi á þeim tíma. Allt fór svo í loft upp í flokknum árið 2019 þegar átakafundur var haldinn.
Þá hafði Birgitta sóst eftir sæti í trúnaðarráði en var hafnað eftir að sitjandi þingmenn flokksins beittu sér gegn henni. Ræður voru haldnar þar sem ófögrum orðum var farið um stofnanda flokksins. Hún var sögð frekja, ýta undir ósætti og grafa undan samherjum, svo dæmi séu tekin. Á sama fundi reis Birgitta á fætur og sagðist upplifa fundinn og ræðuhöldin sem mannorðsmorð.
Alfa er ekki sátt við hvernig þarna var gengið fram.
„Ég var ekki sátt við það hvernig komið var fram við hana. Við skrifuðum þó nokkrir píratar yfirlýsingu þar sem við lýstum því yfir að þetta væri í raun og veru opinbert einelti. Hún er þarna tekin af lífi á almennum fundi og þau voru viðbótin. Þau voru búin að undirbúa sig undir að segja ljóti hluti um hana. Ég skrifaði undir þessa yfirlýsingu, en á þessum tíma vara ég varaþingmaður. Píratar hafa í raun og veru lítið jafnað sig á þessu. Þá lá við að við klofnuðum. Það var mikill titringur í kringum þetta. En svo einhvern veginn hverfur þetta bara, þó þetta sé samt alltaf þarna á bak við. En fólk er hætt að tala um þetta og Píratar halda bara áfram og Birgitta hefur engan áhuga á að vera með.
[…] Og við sem skrifuðum undir, við vorum ekki í náðinni hjá þingflokknum lengi á eftir. Það var varla talað við okkur. Svo þetta tók langan tíma að jafna sig og hefur í raun og veru ekki jafnað sig alltaf. Þetta er svartur blettur. Samskipti eru oft ekki sterkasta vopn hugsjónafólks. Það er bara þannig. Það eru miklar ástríður í gangi, miklar hugsjónir og stundum er þetta bara stál í stál. En það var greinilega mikil reiði og mikið gengið á sem ég hafði ekki hugmynd um. Þetta var einvörðungu innan þingflokksins.“
Alfa hélt engu að síður áfram í Pírötum og hún situr nú í bæjarstjórn Árborgar, en þar sameinuðust Píratar Viðreisn og óháðum fyrir kosningar og buðu fram á einum lista. Alfa viðurkennir að staðan í sveitarfélaginu sé ekki sú besta. Peningamálin séu í rugli og þeim þurfi að koma á kjölinn.
„Þetta er mjög erfitt fjárhagslega. Við erum að vonast eftir að ná undir ákveðin viðmið sem ríkið notar fyrir sveitarfélögin áður en þau eru bara tekin af eftirlitsnefnd sveitarfélaga og fjárráðin tekin af þeim. Eins og Reykjanesbær lenti í. Við erum að vonast til þess að skuldaviðmiði og jafnvægisreglunni verði náð fyrir eða á árinu 2026.“
Nú sé unnið að fjárhagsáætlunum og aðhaldsaðgerðir hafi byrjað í janúar. Beltið þurfi þó að herða meira og telur Alfa að nú sé rétti tíminn til að hugsa út fyrir kassann, að leita leiða sem ekki endilega felast í því hefðbundna.
Stöðuna megi að einhverju kenna tvennu um. Annars vegar hafi verið ráðist í miklar og dýrar fjárfestingar til að mæta fjölgun íbúa. Það hafi þurft að byggja innviði, skóla, vegi, veitulagnir og íþróttamiðstöð. Á sama tíma hafi logum samkvæmt þurft að huga að holræsismálinu þar sem skólp berist nú óhreinsað út í Ölfusá. Árborg sé búin að láta hanna hreinsistöð til að hreinsa úrganginn, en það kosti líka peninga. Þar sem útsvarið sé greitt eftirá þurfti sveitarfélagið að taka lán fyrir einhverjum framkvæmdanna og þá reyndist verðbólga og hækkandi vextir þungur biti að kyngja.
„Dropinn sem fyllti mælinn er í raun verðbólga og vextir. Fjármagnskostnaðurinn við þessar lántökur. Ég hef sagt það upphátt að við erum bara Grikkland núna. Við erum að taka lán til að eiga fyrir afborgunum af öðrum lánum. Þetta er bara hræðileg staða og við verðum að breyta henni.“
Hlusta má á viðtalið við Álfheiði og fyrri þætti á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.