Draumabrúðkaupið sem Donato Frattaroli, 36 ára, og Magda Mazri, 25 ára, höfðu skipulagt við Gardavatnið á Ítalíu þann 31. ágúst síðastliðinn fór næstum út um þúfur eftir að Golden Retriever tíkin þeirra, Chickie, tuggði vegabréf brúðgumans tilvonandi, örfáum dögum áður en hjónin ætluðu á leið í ferðalagið.
„Það er erfitt að lýsa þessu,“ segir Frattaroli aðspurður um hvernig honum leið þegar hann sá fyrst rifna, blauta vegabréfið. „Ég missti ekki alveg gleðina, en ég panikkaði. Venjulega er ég frekar skipulagður og geymi dótið mitt í lokuðum hirslum. Ég er ekki einn af þeim sem týni hlutum eða set þá á rangan stað. Og svo í fyrsta skiptið sem ég geri það….“
Hjónin segja söguna í viðtali við People og segir Mazri þau í raun hafa skipt um hlutverk á þessu augnabliki. Frattaroli sé sá rólegi og skipulagði í sambandinu, eiginleikar sem heilluðu hana strax við fyrstu kynni. Eftir háskólanám fyrir fimm árum byrjaði hún að vinna sem barþjónn á Victory Point veitingastað Frattaroli. Þau byrjuðu þó ekki að deita fyrr en eftir að hún hætti fyrir þremur árum síðan og fór í aðra vinnu.
„Þetta var mjög stressandi vika,“ segir Mazri, en parið byrjaði á að skoða upplýsingar á vegabréfavef bandaríska utanríkisráðuneytisins þar sem kemur fram að hægt sé að fá samdægurs vegabréf ef þú ert með sönnun um að þú ætlir í ferðalag innan næstu 14 daga. Til að fá slíkt vegabréf þarf þó að panta tíma og það voru engir tímar í boði.
„Þannig að já við vorum með sönnun, en fengum ekki tíma í Boston. Við gátum fundið tíma í Atlanta, degi áður en við ætluðum til Ítalíu þannig að það gekk ekki upp heldur. Tími sem við gátum fengið var í El Paso í Texas, og Donato var tilbúinn að keyra þangað,“ segir Mazri.
Á endanum, eftir ótal símtöl þar á meðal við öldungadeildarþingmanninn Edward Markey fékk parið tíma í Boston viku síðar. „Það gerði líf Donato mjög auðvelt vegna þess að hann var tilbúinn að fara nánast hvert sem er á landinu til að fá vegabréf. Ég þekki fólk sem beið í sex mánuði eftir að fá neyðarvegabréf.“
Parið var búið að skipuleggja brúðkaupið í 18 mánuði, en Mazri er hálf-ítölk og á fjölskyldu í Marokkó og hluti af fjölskyldu Frattaroli býr enn á Ítalíu. Og þrátt fyrir að hundurinn þeirra hafi nær eyðilagt ferðina, þá var hann með í veislunni þar sem Mazri lét gera litla styttu, eftirlíkingu af hundinum sem skreytti brúðartertuna.
Vesenið með vegabréfið var þó ekki það eina, því heimferðin eftir brúðkaupsferð í Frakklandi var líka töluvert vesen. Hjónin misstu af tengiflugi sínu frá New York til Boston og komust svo að því að fluginu frá New York til Boston var aflýst vegna veðurs. Þegar þau komu til New York var ekkert flug og engir bílaleigubílar. Þau enduðu því með að taka lest heim.
„Fyrsta prófið fyrir okkur var hvernig við kæmust í brúðkaupið og það næsta fyrir okkur sem hjón var hvernig við kæmumst heim. Við höfum lært að aðlagast aðstæðunum.“