Getur verið að umtaðalasta hjónaband síðustu ára standi á brauðfótum? Gárungar telja að svo sé. Hertogahjónin Meghan Markle og Harry Bretaprins hafa sannarlega gengið í gegnum súrt og sætt saman frá því að þau játuðust hvoru öðru árið 2018. Harry hefur til þessa staðið þétt við hlið konu sinnar og hugsaði sig varla tvisvar um að gefa skít í fjölskylduna og flýja með ektakonunni til Bandaríkjanna eftir óvæga umfjöllun breskra götublaða í hennar garð.
En nú mun Harry vera kominn með heimþrá, Meghan til lítillar gleði.
Fyrir einhverja ástæðu eru gerðar kannanir meðal almennings bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum á vinsældum hertogahjónanna. Síðustu kannanir hafa ekki komið vel út, en lengi vel mældust hertogahjónin nokkuð vinsæl í Bandaríkjunum en óvinsæl á Bretlandi. Nú hefur andúð á hjónunum aldrei verið minni og það í báðum löndunum. Hertogahjónin hafa fengið að finna fyrir þessum óvinsældum en skemmst er að minnast þess að streymisrisinn Spotify slaufaði hlaðvarpinu hennar Meghan eftir aðeins eina þáttaröð. Heimildarmenn slúðurmiðlanna halda því fram að þessar óvinsældir séu farnar að bitna á hjónabandssælunni.
Sérfræðingur um konungleg málefni, Mark Boardman, heldur því nú fram að Harry þrái að snúa aftur til heimalandsins, en Meghan hafi sett honum fótinn fyrir dyrnar og gert honum ljóst að þangað ætli hún ekki með honum.
Boardman ræddi málið við tímaritið OK! en þar sagði hann ljóst að nú væru erfiðir tímar framundan í hjónabandinu þar sem hertogahjónin séu ósammála um hvaða hlutverk Bretlandi spili í framtíð þeirra. Til að byrja með hafi Harry verið tilbúinn að segja skilið við sitt gamla líf, en hann hafi þó fengið blauta tusku framan í andlitið þegar þau hjónin voru borin út úr Frogmore kotinu, sem hafði verið heimili þeirra í Bretlandi. Nú sé prinsinn í þeirri stöðu að hann á ekkert heimili þegar hann kemur til Bretlands og þarf að notfæra sér hótel. Þetta hafi verið skellur fyrir breska prinsinn og hann hafi áttað sig á því að hans gamla líf væri nánast úr seilingu. Gömlu vinirnir hafi orðið eftir og samskipti þar lítil. Fjölskyldan hafi orðið eftir og samskipti þar mjög stirð. Prinsinn hafi þarna áttað sig á því að þetta væri ekki það sem hann vildi. Hann vildi eiga samastað á Bretlandi og eiga í góðum samskiptum við vini og vandamenn þar í landi.
Hann sé að upplifa sig utangarðs og rótlausan í Bandaríkjunum þar sem hann sé að aðlagast illa og sé einangraður.
„Meghan er skúffuð yfir því að Harry þrái gamla lífið sitt,“ sagði Boardman. Hertogaynjan hafi trúað því að með flutningum til Bandaríkjanna væri Bretland og lífið sem þau áttu þar úr sögunni. Þau væru að byrja upp á nýtt frá grunni. Meghan hafi reynt að minna prinsinn á að gamla lífið hans hafi einkennst af djammi og neikvæðri fjölmiðlaathygli. Varla kæri hann sig um að verða glaumgosi aftur. Þar að auki sé Meghan búin að sjá skýrt fyrir sér hvernig líf þeirra verði framvegis. Það sé Harry við hlið hennar sem stoð hennar og stytta, það sé Harry að gæta barna þeirra sem faðir og fjölskyldumaður og svo sé það nýr og betri prins sem sýni sínar bestu hliðar í sameiginlegum verkefnum þeirra hjóna.
Boardman segir stöðuna því þá að Harry vill bæta og styrkja tengsl sín við heimalandið. Jafnvel koma sér þar upp heimili og helst flytja þangað aftur. Meghan hafi sett honum fótinn fyrir dyrnar og tilkynnt eiginmanni sínum að þangað muni hún ekki koma með honum. Og því er spurningin, hvað verður um hjónabandið ef Harry snýr aftur til Bretlands?