fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fókus

Hlédræga forsetafrúin

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 14. september 2023 19:00

Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Eldjárn rithöfundur og skáld er nýjasti gestur hlaðvarpsins Minningar sem er í umsjón fjölmiðlakonunnar Sigríðar Arnardóttur sem er betur þekkt undir nafninu Sirrý. Í þættinum ræða Sirrý og Þórarinn um móður hans, Halldóru Eldjárn. Halldóra var forsetafrú á árunum 1968-1980 þegar eiginmaður hennar og faðir Þórarins, Kristján Eldjárn, gegndi embætti forseta Íslands. Halldóra fæddist 1923 en lést árið 2008.

Halldóra var fædd og uppalinn á Ísafirði og Þórarinn segir hana hafa unað sér vel þar. Foreldrar hennar hafi átt býli að Kleifum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp. Þar hafi fjölskyldan eytt öllum sumrum þegar Halldóra var að alast upp. Þórarinn segir um býlið:

„Þetta var svona paradís á jörð í hugum þeirra systkinanna. Mamma sagði alltaf að sá sem hefði ekki kynnst logninu eins og það getur orðið við Djúpið, sérstaklega í Seyðisfirði, …. veit ekkert hvað logn er.“

Þórarinn segir móður sína hafa verið hógværa og hlédræga. Þess vegna hefði hún aldrei flutt neinar ræður. Hann segir aðspurður að þar hafi hlédrægni móður hans haft mest að segja en ekki hugmyndir þeirra tíma um að konur ættu ekki að vera að trana sér fram.

Hann segir að móðir sín hafi verið mjög samviskusöm. Hún hafi lagt áherslu á við sig og systkini sín að sýna samviskusemi og skynsemi en þó aldrei í neinum skipunartón heldur fremur reynt að vera góð fyrirmynd í þeim efnum. Hann segir að Halldóra hafi ekki rætt mikið við börn sín um tilfinningar.

„Það var einhvern veginn ekki stíllinn.“

Þórarinn segir að móðir hans hafi verið mjög góður námsmaður og telur líklegt að í dag hefði hún tekið stúdentspróf og farið svo í háskólanám. Það þótti hins vegar ekki sjálfsagt í þá daga að stúlkur færu í langskólanám. Halldóra lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1942.

Halldóra og Kristján giftu sig árið 1947. Eftir það varð Halldóra heimavinnandi húsmóðir eins og þá tíðkaðist. Sama ár var Kristján skipaður þjóðminjavörður og 1950 flutti fjölskyldan í íbúð þjóðminjavarðar í Þjóðminjasafninu. Þar bjó fjölskyldan til ársins 1968 þegar Kristján var kjörinn forseti Íslands og hjónin fluttu að Bessastöðum og Halldóra varð forsetafrú.

Þórarinn telur að móðir sín hafi kunnað vel við sig í þessu hlutverki. Hún hafi gengið í það eins og hvert annað starf og þau hjónin hafi ekki litið á þessar stöður sínar sem sérstaka og merkilega upphefð. Þetta hefði verið fyrir þeim fyrst og fremst vinna.

„Hún tókst á við þetta af sinni skyldurækni og samviskusemi og að ég held líkaði vel.“

Ekki gert ráð fyrir börnum á Bessastöðum

Þórarinn segir að íbúð forsetans á Bessastöðum hafi verið nokkuð vanbúin á þessum árum. Hann bjó þar sjálfur í eitt ár en yngri systkini hans bjuggu þar lengur:

„Greinilega var allt þar þannig að það var ekki gert ráð fyrir að forseti væri með börn.“

Þórarinn segir að móðir sín hafi almennt ekki stært sig af því að hafa hitt erlend fyrirmenni á meðan hún var forsetafrú.

Hann rifjar þó upp að móðir hans hafi á þeim tíma við eitt tækifæri hitt Mounbatten lávarð sem var fjarskyldur frændi Elísabetar heitinnar Bretadrottningar, móðurbróðir Filippusar manns hennar og um tíma æðsti herforingi Bretlands.:

„Hún hafði sagt við hann í móttöku … Auðvitað er hún spurð um fjölskyldu og hvað gera börnin. Þá segir hún við hann að sonur hennar sé skáld. Þetta fannst honum óskaplega merkilegt, kallaði í næsta mann, benti á hana og sagði „her son is a poet“ (sonur hennar er skáld innsk. fréttamanns).“

Þórarinn segir að þessi saga hafi rifjast upp fyrir honum nýlega og hann fann það út að þetta hefði verið í brúðkaupi Karls Gústafs konungs Svíþjóðar og Silvíu drottningar árið 1976. Lávarðurinn var myrtur af Írska lýðveldishernum (IRA) ári seinna

Væri vanvirðing að henda bókunum hennar

Þórarinn segir móður sína hafa verið mjög áhugasama um tónlist og bókmenntir. Hann á í fórum sínum talsvert af bókum sem móðir hans keypti sér þegar hún var ungur námsmaður. Hann treystir sér hins vegar ekki til að losa sig við þær:

„Þessar bækur sem þessi unga verslunarskólalærða stúlka er að kaupa sér til að lesa. Ég get ekki fleygt þeim. Mér finnst að ég væri þá að vanvirða hennar áhugamál og hennar bókmenntasmekk ef ég tæki þetta og fleygði því. Þannig að ég geymi það allt saman.“

Eftir að Kristján lét af embætti 1980 fluttu hjónin í hús á Sóleyjargötu, þar sem nú er skrifstofa forseta Íslands, og það var í fyrsta sinn sem þau bjuggu í eigin húsnæði. Kristján lést hins vegar árið 1982. Þórarinn segir að það hafi verið mikið áfall og þá einnig vegna þess að foreldrar hans höfðu séð fram á að geta gert svo margt sem þurfti að bíða á meðan þau gegndu skyldum sínum á Bessastöðum.

Halldóra fór þá aftur í Verslunarskólann og lærði ritvinnslu á tölvur. Fékk hún í kjölfarið vinnu við innslátt fyrir Orðabók Háskóla Íslands. Við þetta starfaði hún til ársins 1993. Eftir það sinnti hún ekki síst barnabörnunum sínum þrettán og Þórarinn segir að hún hafi alltaf verið reiðubúin að taka vel á móti þeim:

„Hún kunni alveg að feta eitthvert einstigi milli dekurs og festu en það gerðist allt þannig að það varð enginn var við það. Þetta var bara eðlilegt.“

Þáttinn í heild sinni má sjá hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Fókus
Í gær

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”
Fókus
Í gær

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“