The Idol eru þættir úr smiðju HBO og voru orðnir umdeildir áður en fyrsti þáttur kom út. Tímaritið Rolling Stone líkti þeim við pyntingarklám og vöktu fyrstu tveir þættirnir hörð viðbrögð á Cannes-kvikmyndahátíðinni í lok maí.
Sam Levinson, höfundur vinsælu þáttanna Euphoria, og tónlistarmaðurinn The Weeknd, eða Abel Tesfaye eins og hann heitir réttu nafni og kallar sig núna, voru á bak við gerð þáttanna.
Lily Rose-Depp fer með aðalhlutverk í þáttunum ásamt Tesfaye. Hún leikur poppstjörnu sem byrjar með sjúskuðum gúrú (Tesfaye) og samband þeirra leiðir hana niður dimma braut, sem minnir á sértrúarsöfnuð.
Kynlífsatriði í öðrum þætti var harðlega gagnrýnt og kallaði breska tímaritið GQ það „versta kynlífsatriði sögunnar.“
Sjá einnig: Svarar fyrir umdeilt og „ógeðslegt“ kynlífsatriði
Fleiri atriði í þáttunum hneyksluðu áhorfendur, sérstaklega atriði þar sem persóna Lily Rose-Depp er lamin með hárbursta.
Það áttu að koma út sex þættir í fyrstu þáttaröð en það komu bara út fimm. The Idol er með 4,8 í einkunn á IMDB og 19 prósent á Rotten Tomatoes. Samanborið við Euphoria er það arfaslakt, en þeir þættir eru með 8,3 í einkunn á IMDB og 88 prósent á Rotten Tomatoes.
Það kemur því kannski ekki mörgum á óvart að það verður ekki önnur þáttaröð. Variety greinir frá.
Talsmaður HBO sagði að þrátt fyrir að sjónvarpsstöðin væri ánægð með sterk viðbrögð áhorfenda hafi HBO – í samráði við höfunda þáttarins – ákveðið að framleiða ekki fleiri þætti.