Það eru liðin næstum 20 ár síðan vinsælu gamanþættirnir Friends luku göngu sinni. Það komu út tíu þáttaraðir og njóta þættirnir enn mikilla vinsælda á streymisveitum þar sem aðdáendur geta horft aftur og aftur á ástsælu vinina.
Það er ástæðan fyrir því að áhorfendur hafa verið að taka eftir fleiri og fleiri mistökum sem hafa átt sér stað við klippingu þáttanna.
@fictional.worlds im so confused #fyp #friends ♬ original sound – Samantha Crouch
Rithöfundurinn Samantha Crouch vakti athygli á hlægilegum mistökum á dögunum. Í umræddu atriði eru Phoebe (Lisa Kudrow) og Monica (Courteney Cox) að spjalla á kaffihúsinu, allt er mjög eðlilegt þar til allt í einu er Monica ekki Monica, heldur má sjá hliðarsvip allt annarrar konu.
Þetta hefur verið staðgengill Courteney og óvart sést í mynd.
Fyrr í sumar vakti annar netverji athygli á svipuðum mistökum sem voru gerð í níundu þáttaröð. Í fjórtánda þætti má sjá staðgengil Jennifer Aniston bregða fyrir, næstum hálft andlit hennar sést.
Það er hugsanlega útskýring á öllum þessum mistökum. Áður fyrr var hlutfallið 4:3 á sjónvarpsskjáum en í dag er það 16:9, sem sagt þau eru mun lengri á breiddina miðað við hæðina en áður. Þess vegna sjáum við meira af atriðinu en við gerðum áður, meira að segja hluti sem við eigum ekki að sjá eins og andlit staðgengla.