Bandaríska blaðakonan Talia Lakritz, sem skrifar fyrir Business Insider, heimsótti Ísland heim á dögunum og hefur skrifað nokkra pistla um reynslu sína. Einn slíkur fjallaði um heimsókn hennar í Hagkaup í Smáralind, sem hún nefnir „Walmart Íslands“, en þar nefnir hún fimm hluti sem komu henni í opna skjöldu.
Athygli vekur að Lakritz hrósar verðlaginu í Hagkaup og segir það hagstætt.
Bara inn, ekki út
Lakritz gerir hliðin inn í versluna að umtalsefni sínu. Þau gera aðeins ráð fyrir að viðskiptavinir fari inn í verslunina um þau, ekki út. Það segist hún aldrei hafa séð í Bandaríkjunum.
Úrvalið af laxi
Lakritz kvaðst vera agndofa yfir öllum laxinum sem var í boði. Hann var þó ekki frá Alaska, eins og Bandaríkjamenn eiga að venjast, heldur framleiddur að mestu hérlendis og kemur það henni greinilega á óvart hvað Íslendingar framleiða mikið af hráefninu eftirsótta.
Ávextir fyrir börn
Blaðakonan var afar hrifin af þeirri hugmynd að bjóða börnum, sem eru í verslunarferð með foreldrum sínum. upp á ókeypis ávexti. Það þykir henni afar fjölskylduvænt viðmót og eitthvað sem þekkist ekki í Bandaríkjunum.
Lakritz átti ekki orð yfir öllu garninu sem var til sölu í íslensku versluninni sem og ýmiskonar efni til föndurs. Sagði hún slíkar vörur yfirleitt til sölu í sérstökum verslunum í Bandaríkjunum, ekki í stórmörkuðum.
Bandaríska blaðakonan átti ekki orð yfir sælgætisversluninni sem er til staðar í stórmarkaðinum. Segir hún slíkt ekki þekkjast í heimalandi sínu enda gæti Nammilandið í raun verið sérstök verslun í Smáralind, slík er stærðin. Virtist hún þó afar ánægð með sælgætisverslunina og þá sérstaklega úrvalið.