Hjónin Arna Ýr Jónsdóttir hjúkrunarfræðinemi og fyrrum Ungfrú Ísland og Miss Universe Iceland og Vignir Þór Bollason kírópraktor eiga von á þriðja barni sínu. Vísir greindi frá.
Arna Ýr varð kjörin Ungfrú Ísland árið 2015 og Miss Universe Iceland árið 2017. Vignir rekur stofuna Líf Kíróprakt í Kópavogi.
Hjónin giftu sig 1. júlí í sumar, en fyrir eiga þau dótturina Ástrósu Mettu sem er fædd í júní árið 2019 og soninn Nói sem er fæddur í júní árið 2021, en börnin deila afmælisdegi, 21. júní.
Sjá einnig: Arna Ýr og Vignir Þór orðin hjón
Hjónin deila gleðifregnunum snemma en Arna Ýr er komin átta vikur á leið. Segist hún gríðarlega spennt og því ekki viljað bíða með tilkynninguna.
„Eins og þið sáuð eigum við von á barni númer þrjú. Smá Ítalíu brúðkaupsferðarglaðningur sem kom með okkur heim. Yndislegt, við erum komin stutt en viljum vekja athygli á að því og vera með smá vitundarvakningu að það má tilkynna snemma og ef eitthvað myndi gerast myndum við pott þétt deila því þetta er gangur lífsis. Plús það að það hefur verið erfitt áður fyrr að líða illa og þurfa að skýla sér á bakvið brosandi grímu og allt þetta. Við viljum fara öðruvísi leið að þessu og sýna að það er flott að gera þetta hvernig sem er. Lífið tekur mann í allar áttir og þetta litla kríli er hjartanlega velkomið,“ segja hjónin í myndbandi á Instagram.
„Fallegasta brúðkaupsgjöfin okkar. Það er ekki sjálfsagt að fá að skapa líf inn í þennan heim, við erum full af þakklæti og eftirvæntingu. Að mæta til vinnu eða í skólann með vanlíðan, ógleði, þreytu og allt þar á milli og segjast líða vel til þess að enginn fatti hvað er í gangi er stórt verkefni sem lengi hefur hvílt á herðum verðandi mæðra og gerir enn. Þessi óskrifaða regla að barn undir belti skuli vera leyndarmál þar til 12v sónarskoðun gefi grænt ljós á tilkynningu er ekki eitthvað sem við ætlum taka þátt í í þetta skiptið þó við virðum það heils hugar. Eins hrá og ég er varðandi okkar líf og lifnaðarhætti vil ég taka ykkur með í þetta fallega ferðalag frá degi eitt, að skapa líf,“ skrifar Arna Ýr við myndbandið.