Skilaboð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt hafa sætt harðri gagnrýni undanfarna daga en fyrst var það baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir sem vakti athygli á þeim.
Hún birti mynd á Facebook af tjaldi lögreglunnar á Menningarnótt þar sem stóð: „Að draga sig út úr hættulegum aðstæðum er besta vörnin gegn ofbeldi.“
„Besta vörnin gegn ofbeldi er að fremja það ekki. Ábyrgðin á heima þar, hjá gerendum, ekki þolendum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, við þurfum á ykkur að halda til að uppræta þolendaskömmun, ekki festa hana í sessi,“ sagði Þórdís Elva.
Sjá einnig: Þórdís Elva segir skilaboð lögreglunnar á Menningarnótt mikil vonbrigði
Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir tók í sama streng og Þórdís.
„Hæ, kæra lögregla sem ég met mikils fyrir ykkar störf. Ég er samt með mjög vinsamlega ábendingu. Hvað með „Kæri þú sem ert með reiði vandamál og sýnir áhættuhegðun og árásarhneigð í garð annara, vinsamlega haltu þig heima svo aðrir geta skemmt sér.“ Ef ykkur vantar einhvern til að búa til slagorð fyrir næstu herferð er ég laus,“
skrifaði hún í færslu á Facebook..
Eins og fyrr segir hafa skilaboðin verið harðlega gagnrýnd fyrir að ýta undir þolendaskömm og koma ábyrgðinni yfir á þolendur, þegar hún ætti að vera alfarið á gerendum.
Fjölmiðlamaðurinn Heiðar Austmann virtist ekki vera alveg sammála og kom lögreglunni til varnar við færslu Þórunnar Antoníu. Hann sagði skilaboðin hárrétt.
„Bíddu, ég skil ekki!! Þetta er bara alveg hárrétt. Ef þú ert í aðstæðum sem þér mislíkar þá er best að draga sig úr þeim aðstæðum. En hitt er svo sem rétt líka en ég sé ekkert að textanum sem slíkum,“ sagði hann.
Þórunn Antonía svaraði:
„Ég skil þig fullkomlega en það er erfitt þegar það er alltaf verið að beina ábyrgðinni á þann sem verður fyrir ofbeldinu frekar en þann sem beitir því það er það sem við meinum. Að vera stelpa 160/50 kg og þurfa að heyra þetta er þér að kenna af því þú varst úti svo seint eða þú klæddir þig svona og svo framvegis. Ég er ekki að benda á að fólk eigi ekki að vera ábyrgðarlaust og passa sig ekki heldur að umræðan og fókusinn væri að finna úrræði i fyrir þá sem fremja glæpina.“
Önnur kona svarar einnig Heiðari:
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögreglan er með skilaboð sem kenna fórnarlömbum ofbeldis um. Hvernig væri að skilaboðin beindust einu sinni að gerendum fremur en þolendum? Það hefur verið ráðist á mig tilefnislaust úti á götu þegar ég var að labba heim. Ég hefði kannski bara átt að sleppa því að fara út úr húsi þá hefði ekki verið ráðist á mig allavega samkvæmt þessum skilaboðum.“
Heiðar svaraði og spurði hvort það væri „ekki verið að lesa fullmikið í þessi skilaboð?“
„Hef samúð með þér og skil ekki fólk sem gerir það sem þú lentir í en það sem þú segir er afbökun á einföldum skilaboðum sem í sjálfu sér má alveg túlka á marga mismunandi vegu. Tilefnislausar árásir flokkast ekki undir hættulegar aðstæður sem þú ert í, myndi ég halda, það gerist upp úr þurru og er fyrirvaralaust og held ég (í alvöru þetta er bara það sem ég held) að það sé bara verið að meina að einstaklingurinn sem upplifir sig í hættulegum eða verðandi hættulegum aðstæðum ætti að forða sér. Annars léttur.“
Konan benti honum þá á að þolendur hafa verið í mjög saklausum aðstæðum sem urðu hættulegar á svipstundu.
„Já, það er 100 prósent rétt. Maður veit aldrei hvað blessuð mannskepnan tekur til bragðs og hvernig dagurinn var hjá þeim aðila sem allt í einu verður að ofbeldismanni,“ sagði þá Heiðar.