Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari á Laugum, er einn dáðasti íþróttalýsandi þjóðarinnar. Hann hefur um árabil vakið undrun og aðdáun landsmanna fyrir lýsingar sínar af frjálsum íþróttum og tekist að kveikja áhuga á greinunum hjá ólíklegasta fólki.
Nú hefur starf hans vakið athygli utan landssteinanna en sænski sportmiðillinn Sport Bibeln, eða Íþróttabiblían, gerir nýlega sjónvarpslýsingu Sigurbjörns Árna að umtalsefni sínu í nýrri grein.
Umrædd glefsa var birt á Twitter-síðunni RÚV Íþróttir en þar má hlýða á Sigurbjörn Árna lýsa, með hádramatískum hætti, afreki sænska kringlukastskappans Daniel Ståhl sem setti heimsmeistaramótsmet með risakasti og tryggði sér sjálfan heimsmeistaratitilinn.
Ståhl, sem er lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar, er eins og gefur að skilja þjóðhetja í Svíþjóð og ljóst er að sænskir íþróttafréttamenn skemmta sér konunglega yfir tilfinningaríkri lýsingu Sigurbjörns Árna þó að þeir skilji ekkert hvað hann er að segja.
„Hann missti gjörsamlega vitið,“ segir í umfjöllun miðilsins.
Sigurbjörn Árni er þar með annar íþróttalýsandinn sem öðlast frægð utan landsteinanna fyrir vinnu sína en skemmst er að minnast frammistöðu Guðmundar Benediktssonar, Gumma Ben, á EM í knattspyrnu árið 2016 þar sem hann sló í gegn á alþjóðavísu.
Skömmu síðar steig Ståhl á sviðið og setti nýtt mótsmet. „JÁÁÁ JÁÁÁ JÁÁÁ. HANN SETUR HEIMSMEISTARAMÓTSMET. DANIEL STÅHL. HANN ER ÓÓÓTRÚLEGUR. HANN ER ÓÓÓTRÚLEGUR!“ pic.twitter.com/orPo3pfilD
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) August 21, 2023